ANDRÉS MAGNÚSSON
er fulltrúi ritstjóra Morgunblaðsins og fjallar einkum um stjórnmál á síðum blaðsins og í Dagmálum.
Stjórnmálaárið hófst stundvíslega 1. janúar þegar Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands greindi flestum að óvörum frá því í nýársávarpi að hann myndi ekki leita endurkjörs. Þá þegar hófst hefðbundinn samkvæmisleikur við að máta hina og þessa við Bessastaði, en eitt nafn heyrðist þar öðrum oftar, nafn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.
Engum duldist að samstarfið í ríkisstjórn hennar – samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs – var orðið stirt. Hnígandi fylgi ríkisstjórnarinnar hjálpaði ekki, hafði sigið jafnt og þétt frá lokum 2022 og fór niður fyrir 30% árið 2024. Um leið töpuðu stjórnarflokkarnir miklu fylgi, sjálfsagt í réttu hlutfalli við óvinsældir ríkistjórnarsamstarfsins og fylgisaukningu Samfylkingarinnar undir formennsku Kristrúnar Frostadóttur.
Innri brestir
Ýmsir innri brestir í ríkisstjórnarflokkunum bættu ekki úr skák.
Mestu munaði sjálfsagt um óþreyju Svandísar Svavarsdóttur, sem augljóslega hafði óbeit á samstarfinu við sjálfstæðismenn og hafði reynt að sprengja ríkisstjórnina með ólögmætu hvalveiðibanni sínu sumarið 2023. Þar inn í blandaðist líka óþreyja hennar eftir að taka við formennsku Vinstri grænna af Katrínu. Af þeirri ástæðu var Svandísi slétt sama um hvort stjórnin lifði lengur eða skemur, allt yrði það henni að ávinningi. Taldi hún.
Innan Framsóknarflokksins voru ekki heldur allir ánægðir með stjórnarsamstarfið. Í forystu flokksins ríkti ekki eining, þeim þótti Bjarni Benediktsson hafa verið of fastheldinn um pyngjuna á fjármálaráðherrastóli, en aðallega höfðu þeir þó áhyggjur af fylgistapinu eftir glimrandi kosningaúrslit 2021.
Þótt það færi ekki hátt voru sumir forystumenn Framsóknarflokksins þegar farnir að ræða mögulegt ríkisstjórnarsamstarf við Samfylkingu og Viðreisn um leið og fyrstu óvissu um lífdaga ríkisstjórnarinnar og lengd kjörtímabilsins tók að gæta. Auðvitað kvisaðist það út og jók ekki traustið innan ríkisstjórnarinnar.
Loks er rétt að minna á misheppnað formannsframboð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2022. Bjarni Benediktsson fékk helmingi fleiri atkvæði og hélt auðveldlega velli, en það styrkti ekki stöðu hans að rætt væri opinberlega hvenær hann segði skilið við stjórnmálin.
Valkyrja víkur
Katrín Jakobsdóttir skynjaði öðrum fremur þreytuna í ríkisstjórnarsamstarfinu, þar sem hún var í hlutverki slökkviliðsstjóra. Þegar Guðni forseti tilkynnti um ákvörðun sína hvöttu margir hana til að gefa kost á sér, líkt og í aðdraganda forsetakjörs 2016 (og Guðni hefur raunar sagt að hann hefði ekki gefið kost á sér hefði hún verið í framboði).
Óþarfi er að rekja þá kosningabaráttu hér, en Katrín fékk ekki brautargengi. Hugsanlega vegna þess að kjósendur vildu ekki (frekar en 1968) að nokkur gengi að forsetaembættinu vísu og eflaust höfðu óvinsældir ríkisstjórnarinnar sín áhrif. En fyrst og síðast brast hana fylgi vinstrimanna, sem álösuðu Katrínu sérstaklega fyrir þá ósvinnu að hafa leitt formann stærsta stjórnarflokksins, stærsta flokks á Alþingi, í forsætisráðherrastól.
Nýtt ráðuneyti Bjarna
Bjarna stóðu fleiri kostir til boða. Sumir aðrir forystumenn flokksins ræddu við Viðreisn, en þaðan kom opinskátt ákall um ríkisstjórn „borgaralegra afla“. Hann kaus hins vegar að lengja líf ríkisstjórnarsamstarfsins, mögulega til þess að hér væri ekki forsetakjör í miðjum stjórnarskiptum.
Sú sæla stóð ekki lengi. Þegar leið að því að Svandís Svavarsdóttir yrði formaður Vinstri grænna urðu hljóðin þaðan æ ófriðlegri og flokkurinn tók sér neitunarvald um áður umsamin stjórnarmál. Ósamlyndið sást hvergi betur en í „brottvísunarmálinu“ svokallaða, þar sem pólitískum vélum var beitt til að geðþótti Vinstri grænna trompaði lögmætar stjórnvaldsákvarðanir.
Sjálfstæðismenn gáfu eftir í því máli undir hótun um stjórnarslit, svo Svandís ályktaði að langlundargeð þeirra væri óendanlegt. Á landsfundi Vinstri grænna í október kom fram tillaga um tafarlaus stjórnarslit og kveðið var upp úr um að ríkisstjórnin væri komin að leiðarlokum. Svandís lét eins og það væri í hennar valdi hvenær kosningar færu fram, en fram að þeim yrði ríkisstjórnin að „forgangsraða málum á félagslegum forsendum“. Að landinu skyldi stjórnað á forsendum Vinstri grænna, sem þá mældust með 3% fylgi.
Stjórnarslit og kosningar
Við svo búið var öllu samstarfi lokið, svo Bjarni sá þann kost einan að slíta ríkisstjórnarsamstarfi, rjúfa þing og boða til kosninga.
Vandræði Vinstri grænna voru þó ekki öll, því Svandís þvertók fyrir að taka þátt í starfsstjórn eins og skyldan bauð. Óljóst er hvað henni gekk til, en ábyrgðarleysið gerði endanlega út um erindi flokksins við kjósendur. Fylgið bifaðist aldrei og í kosningunum endaði flokkurinn með 2% og er sennilega úr sögunni.
Kosningabaráttan var stutt, en ekki jafnskörp og margir áttu von á. Að hluta til vegna þess hve skammur tími var til stefnu; drjúgur tími fór í að stilla upp liði flokkanna, en umræða um málefni voru af skornari skammti.
Augljóst var að stjórnarflokkarnir voru í nauðvörn frá upphafi kosningabaráttunnar. Stöku ótryggar fylgismælingar sýndu jafnvel að Sjálfstæðisflokkur væri kominn niður í 10-12% fylgi, en Framsókn var stöðug í 5-6% og Vinstri grænir fastir í 3%.
Miðflokkurinn fékk hins vegar byr í seglin framan af og Flokkur fólksins er á leið. Mörgum að óvörum tók Viðreisn að lyftast nokkuð ört, sem hugsanlega mátti rekja til þess að Jón Gnarr fór í framboð fyrir flokkinn.
Fylgi Samfylkingar, sem í vor hafði farið yfir 30%, minnkaði hins vegar af einhverjum ástæðum jafnt og þétt, án þess að á því væru sérstakar, augljósar skýringar.
Í kosningabaráttunni komu raunar upp tvö mál, annars vegar varðandi hlutverk Dags B. Eggertssonar og hins vegar vegna afhjúpunar á kvenfjandsamlegum skrifum Þórðar Snæs Júlíussonar. Kristrún kvað upp úr um að Dagur yrði í aukahlutverki og ekki ráðherraefni, en Þórður Snær hét því að taka ekki kosningu.
Breyttir flokkadrættir
Kosningaúrslitin eru lesendum í fersku minni. Samfylking varð stærstur flokka á þingi, en aðeins með 21% fylgi og 15 þingmenn. Hún setti þannig einhvers konar met, því stærsti flokkur á þingi hefur aldrei verið minni!
Sjálfstæðisflokkurinn vann frækinn varnarsigur, hlaut 19% og missti aðeins tvo þingmenn. Svo komu Viðreisn, Flokkur fólksins og Miðflokkur með miðlungsfylgi, en Framsókn rak lestina með 8% og missti alla forystumenn nema Sigurð Inga Jóhannsson af þingi.
Hins vegar voru tíðindi í því hverjir ekki náðu kjöri. Vinstri grænir féllu, en það gerðu Píratar líka og Sósíalistaflokkurinn var talsvert frá að ná inn. Villta vinstrinu var þar hafnað á einu bretti. Í því felast skýr skilaboð, hvað sem öðru líður.
Annað er óljósara. Vilji menn telja Sjálfstæðisflokk, Miðflokk og Viðreisn saman til hægri náðu þeir samtals 47% (og þingmeirihluta). Það er einhvers konar hægribylgja þótt Viðreisn hafi á endanum kosið að leita til vinstri.
Eða á endanum? Skjótt var byrjað að ræða um að „valkyrjurnar“ ættu sérstakt erindi saman og ekki að efa að þær Kristrún, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Inga Sæland eiga skap saman. En það er erfitt að verjast þeirri tilhugsun að þar hafi fyrri þreifingar Samfylkingar, Viðreisnar og Framsóknar haft sitt að segja. Og svo kemur í ljós hversu vel varadekkið reynist.
Enn eru innbyggðir brestir
Auðheyrt er á fólki innan bæði Samfylkingar og Viðreisnar, að þar hafa margir áhyggjur af því að Flokkur fólksins kunni að vera brothættari en æskilegt sé í ríkisstjórnarsamstarfi. Það er þó óvíst, ægivald Ingu í flokk hennar er algert.
En það má líka spyrja hvort Viðreisn hafi samið af of mikilli hörku. Hún er með fleiri ráðherra en Flokkur fólksins þótt fylgið sé ámóta, jafnmarga ráðherra og Samfylking, sem er með talsvert meira fylgi. Kristrún er vissulega forsætisráðherra en eins og Þorgerður sagði er hún bæði utanríkisráðherra og varnarmálaráðherra (!) og svo má færa rök fyrir því að hún sé einnig yfirfjármálaráðherra. Og með atvinnuvega- og dómsmálaráðuneyti á sínum snærum. Sennilega hefur enginn fengið annað eins fyrir sinn 16% snúð.
Því til viðbótar samdi hún stóra planið hennar Kristrúnar burt og líka ófrávíkjanlegu kosningaloforðin hennar Ingu.
Það er skiljanlegt, Þorgerður gat snúið sér annað en þær ekki. Meira veglyndi kynni þó að hafa verið skynsamlegra. Sérstaklega þegar farið er að þjarka um fjárlögin fyrr en varir, nú eða þegar líður á kjörtímabilið, fylgið dvínar, Ingu finnst fátæka fólkið bera minna úr býtum en rétt væri, Evrópuumræðan gengur á pólitískt kapítal stjórnarinnar og þeim finnst Viðreisn alltof ráðrík.
Þar í felast innbyggðir brestir og forystumennirnir víst allir valkyrjur.