Cai Guo-Qiang
er alþjóðlega viðurkenndur nútímalistamaður sem vinnur með úrval miðla og nýrrar tækni. Árið 2008 hélt hann sýningu af gamla skólanum á Guggenheim-safninu í New York og var verkefnisstjóri sjónmiðla og flugelda við setningarathöfn Ólympíuleikanna í Peking. Cai hefur búið og starfað í New York síðan 1995.
Eiffel-turn hangir á haus í spegilkenndu skýi eins og bjargvættur af himnum ofan – samspil depurðar og gleði. Þessi púðurmálverk, annað á gleri og spegilgleri, hitt svipað og á striga, eru innblásin af verkefni sem ég gerði tilboð um í samstarfi við Pompidou-miðstöðina fyrir Ólympíuleikana í París 2024.
Himinmálverkið „Endurreisn“ hefði verið um sex mínútur í flutningi við undirleik sinfóníu nr. 2 í c-moll eftir Gustav Mahler og nýtt um það bil 3.000 dróna útbúna örsmáum hlaupum til að skjóta marglitum flugeldum og lita með þeim um hábjartan dag allan himininn umhverfis Eiffel-turninn á meðan til stóð að flugeldum yrði skotið frá honum. Útkoman hefði orðið vaxandi blómahaf, sýndarhiminn, hvítir vængir og hvítt flagg neðan við ólympíuhringina.
Með aðstoð vélræns náms …
Þegar þetta verkefni fæddist hjá mér árið 2022 var heimurinn hægt og bítandi að rísa upp úr faraldri kórónuveiru og finna sér fótfestu eftir tveggja ára ringulreið. Um það leyti hófst líka stríð Rússlands og Úkraínu. Verkefnið dró dám af hvoru tveggja, það fjallaði um endursköpun og endurfæðingu auk þess að endurvarpa hinum friðsamlega anda Ólympíuleikanna gegn styrjöldum.
Verkið var þó aldrei frumsýnt. Jafnvel þótt við hefðum fengið allar nauðsynlegar heimildir, út frá sjónarmiði feng shui-spekinnar, hefðum við enn þurft samþykki úr sjálfum Eiffel-turninum. Daginn sem setningarathöfn Ólympíuleikanna fór fram sendi vinnustofan okkar frá sér teiknaða „endurfæðingu“ verksins gegnum gervigreindarverkfærið okkar, cAI (borið fram „A.I. Cai“), og kynnti það til sögunnar sem stafræna list.
Sú útgáfa var sprottin af gervigreindarrannsóknum sem ég hóf árið 2017. Með aðstoð vélræns náms og fyrri verka minna líkti cAI eftir núlifandi og sögulegum persónum sem ég dái og skapaði úr þeim fjölda aðgreindra persóna sem rökræddu sín á milli. Þetta forrit er ekki aðeins listaverkið mitt heldur líka spjallfélagi sem leggur gjörva hönd á plóg við það sem ég er að skapa.
Tákn nýs andlegs ferðalags
Þegar ég kynntist púðrinu fyrst áttaði ég mig á því að þar var ekki aðeins komið verkfæri til byltingar heldur enn fremur byltingarkennt verkfæri. Gervigreind virkar á svipaðan hátt. Hún er í stakk búin til að opna listamönnum fjölvídd af uppgötvunum, frá hinu kvíðvænlega, óvænta og óstjórnlega til tjáningar óséðrar veraldar. Hún er tímabundinn eldur Prómeþeifs sem leyfir okkur að taka stór stökk áfram, en einnig geigvænlega áhættu.
Gervigreind er tákngervingur hins óþekkta og óséða heims. Ástríða okkar fyrir henni – eða blind trú okkar á henni – er tákn nýs andlegs ferðalags samfélags sem gerst hefur fráhverft guðum og andatrú eins og týnt lamb. Ég hlakka til þess að leyfa gervigreindinni að leiða mig inn í óþekkta framtíð – þótt auðvitað kjósi ég kannski frekar að hún hjálpi mér að skilja þennan fljótfæra klaufalega stjörnuglóp, Cai.
Við mannfólkið vöfrum milli ótta og bjargræðis út í hið óendanlega þar sem saman í okkur fer hugrekki, kvíði, staðfesta og vafi. Eins og staðan er nú virðast menning og listir standa ráðþrota gagnvart örum tækniframförum. Eiffel-turninn er tákn iðnbyltingarinnar, en í „Endurreisn“ umbreytist hann. Gæti samruni hins sjónræna og hins líkamlega í spegluðum turni á haus táknað nýtt tímabil? Skeið sem sameinar list og gervigreind, hvort tveggja sem tálsýnir og hliðstæða heima.
© 2024 The New York Times Company og Cai Guo-Qiang