Baksvið
Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Bjarki Sveinbjörnsson, tónlistarfræðingur og fyrrverandi forstöðumaður Tónlistarsafns Íslands, hefur þungar áhyggjur af framtíð þess mikla safnkosts, gagna og hljóðfæra um tónmenningu Íslendinga, sem safnað hefur verið á umliðnum áratugum og að sýningarhald hefur fallið niður.
Bjarki og Jón Hrólfur Sigurjónsson, sérfræðingur og samstarfsmaður hans, hafa í yfir 30 ár unnið að viðamikilli söfnun heimilda og annarra gagna um tónlistariðkun Íslendinga og að margvíslegum verkefnum tengdum tónlist, miðlun og sögu. Þegar Tónlistarsafnið í Kópavogi var lagt niður árið 2017 og safnið flutt í Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, fengu Bjarki og Jón vinnuaðstöðu í Þjóðarbókhlöðunni. Gegndi Bjarki þar stöðu fagstjóra yfir hljóð- og myndsafni. Störfuðu þeir við safnið þar til í ágúst í fyrra þegar þeir létu af störfum og fóru á eftirlaun. Stöðurnar hafa ekki verið auglýstar á nýjan leik. „Munirnir eru í geymslum og rýmið er autt af tónmenningu,“ segir Bjarki í samtali við blaðið.
Margvíslegir munir sem tónlistarsafnið hefur fengið að gjöf í gegnum tíðina eru flestir í geymslum og engum þar sýnilegir eða aðgengilegir, auk þess sem sýningarhald hefur að mestu lagst niður eftir að tónlistarsafninu var lokað í Kópavogi. „Mér finnst sárt til þess að vita að það urðu þessar tvær stöður sem lagðar voru niður til að bæta rekstur Landsbókasafnsins,“ segir Bjarki.
Í greinargerð um stöðu og framtíð tónlistarsafnsins og hvernig tónlistararfinum verði sinnt í Landsbókasafninu, sem Bjarki og Jón tóku saman eftir að þeir létu af störfum, segja þeir að yfrirvöld Landsbókasafnsins hafi talað um að með haustinu á síðasta ári yrði auglýst eftir hæfu fólki í þeirra stað. „Haustið leið og vorið líka en ekkert fréttist af starfsauglýsingu. Nú heyrast fréttir um að ekki standi til að auglýsa heldur skuli nota þær stöður sem við gegndum til að mæta niðurskurðarkröfu ríkisins til Landsbókasafns. Þetta yrði óásættanleg niðurstaða fyrir tónlistarlífið á sama tíma og íslensk tónlist og tónlistarfólk er verðlaunað og dáð vítt um heim, Tónlistarmiðstöð tekur til starfa og öflugt uppbyggingarstarf tónlistarsafns í Landsbókasafni undangengin ár,“ segir þar.
Mikið að umfangi
Heimildirnar sem Bjarki og Jón hafa safnað, skráð og unnið úr eru miklar að umfangi. Frá 1997 hafa þeir unnið að uppbyggingu og þróun Ísmús-gagnagrunnsins í samstarfi við Stofnun Árna Magnússonar. Er Ísmús helsta miðlunargátt Árnastofnunar í þjóðfræði en á vefnum má m.a. finna hljóðupptökur, ljósmyndir, kvikmyndir og handrit.
Árið 2007 var Bjarki ráðinn til að koma á fót Tónlistarsafni Íslands í Kópavogi og gegndi hann þar forstöðu til 2017 þegar safnið var flutt á Landsbókasafnið. Þeir störfuðu báðir við safnið og segir Bjarki að starfsemin í Kópavogi hafi verið blómleg. Áfram söfnuðu þeir af kappi öllu sem tiltækt er um íslenska tónmenningu og áhersla var lögð á kynningar á vefjum safnsins og haldnar fjölmargar sýningar á safngripum.
Tónleikar fóru fram á vegum safnsins og tekið var á móti fjölda gesta, m.a. skólabörnum sem heimsóttu safnið. Kópavogsbær rak safnið með styrk frá ríkinu en þegar bæjaryfirvöld ákváðu að leggja það niður var gerður samningur um áframhaldandi varðveiðslu þess hjá Landsbókasafninu. Gengið var út frá því að stærri munir yrðu fluttir á Þjóðminjasafnið.
Bjarki gagnrýndi á þessum tíma breytingarnar á starfsemi safnsins og var ósáttur við áhugaleysi bæjarins og ríkisins á íslenskri tónmenningu en hann segist í samtalið við Morgunblaðið hafa stutt það að gögnin færu á Landsbókasafnið gegn því að sýningarhaldi yrði haldið áfram í Kópavogi, sem ekki varð þó.
„Menn tala oft fjálglega um að tónlistarlífið gefi mikið til samfélagsins á margan hátt, m.a. í formi tekna og þess vegna er illskiljanlegt að ekki sé hægt að hafa hér nokkur hundruð fermetra rými til að setja upp sýningar fyrir fólk, fyrir ferðamenn og ekki síður skólafólk til að upplýsa það um sögu tónlistarinnar í landinu,“ segir Bjarki.
„Það er auðvitað stórkostlegt að fá Edduna og fleiri handrit til landsins eins og menn þekkja en ég man ekki eftir því að settar hafi verið upp sýningar á t.d. tónlistarhandritum frá miðöldum. Eitt af elstu tónlistarskinnbrotunum sem varðveitt eru á Landsbókasafninu er frá því um 1100. Ég velti því stundum fyrir mér hvort samfélagið sé ekki tilbúið til að setja upp svona hluti, það hefur ekkert verið í umræðunni.“
Enn eru að berast dýrmætir munir til tónlistarsafnsins. Fyrr í þessum mánuði barst safninu stórgjöf frá Árna Egilssyni, kontrabassaleikara í Los Angeles. Árni og Dorette eiginkona hans sendu Tónlistarsafni Íslands að gjöf fjölda muna, þar á meðal tvo kontrabassa úr eigu Árna auk listmuna og málverka, handrita og upptaka af tónlist Árna. Annar bassinn sem sendur var til Íslands á sér sess í tónlistarsögu Íslendinga og er nú kominn aftur heim eftir langa útivist því að hann var á sínum tíma í eigu Bjarna Böðvarssonar, Bjarna Bö, sem var hljómsveitarstjóri í vinsælustu danshljómsveit landsins á fyrri hluta og fram yfir miðbik síðustu aldar og lék á bassa um langt árabil í Sinfóníuhljómsveitinni.
Meðal fjölmargra hljóðfæra sem safnið hefur fengið og eru í geymslum er smáselló Erlings Blöndal Bengtssonar, fyrsta fiðla Þórarins Guðmundssonar og píanó Árna Thorsteinson, sem talið er að hann hafi notaði við að semja mörg af sönglögum sínum. Fyrsta hljóðfæragjöfin sem safnið fékk á meðan það starfaði í Kópavogi er Steinway-flygill Árna Kristjánssonar píanóleikara. Honum var síðan komið fyrir í fyrirlestrasalnum á Landsbókasafninu.
Gripum safnsins hafnað
Þegar Bjarki kom til starfa á Landsbókasafninu var honum sagt að það safnaði ekki munum. Það gengur ekki þegar um tónlistarsafn er að ræða að mati Bjarka, sem segir að tónlistarsafn standi ekki undir nafni ef hljóðfæri og aðrir gripir úr tónmenningunni eru undanskildir. Í greinargerð Bjarka og Jóns segir að skilgreina þurfi hvernig haldið er utan um gripina sem berast safninu svo að þeir séu varðveittir með sóma og sýna þurfi þá sem oftast. „Fyrirkomulag eins og hjá Leikminjasafni Íslands þar sem skjöl eru varðveitt í Landsbókasafni en gripir í Þjóðminjasafni teldum við undirritaðir afleita lausn. Skilgreining Þjóðminjasafns á merkilegum tónminjum er allt of þröng enda hafnaði safnið gripum Tónlistarsafns við flutning í Landsbókasafn,“ segja þeir.
Meðal merkra gagna sem safnið hefur fengið til varðveislu er án efa gjöf frá fjölskyldu Sveinbjörns Sveinbjörnssonar, fyrsta klassískt menntaða tónskálds Íslendinga og höfundar þjóðsöngsins. Bjarki og Jón fóru til Kanada árið 2008 þar sem Eleanor Oltean barnabarn Sveinbjörns afhenti þeim fjölda muna, skjöl og bréfasöfn og myndir úr búi Sveinbjörns.
„Ef nú verður ekki byggt ofan á og haldið áfram óttumst við að mikil verðmæti, reynsla og þekking fari forgörðum,“ eru lokaorð Bjarka og Jóns í áðurnefndri greinargerð um framtíð tónlistarsafnsins.