Björgunarsveit Leitað var í gær.
Björgunarsveit Leitað var í gær. — Morgunblaðið/Eggert
„Við erum nokkuð viss um að á þessu svæði er enginn í neyð,“ segir Jón Þór Víglundsson upplýsingafulltrúi Landsbjargar en síðdegis í gær ákváðu viðbragðsaðilar að hætta umfangsmikilli leitaraðgerð við Meradali

„Við erum nokkuð viss um að á þessu svæði er enginn í neyð,“ segir Jón Þór Víglundsson upplýsingafulltrúi Landsbjargar en síðdegis í gær ákváðu viðbragðsaðilar að hætta umfangsmikilli leitaraðgerð við Meradali. Leitin var vegna dularfullra neyðarboða sem bárust Landhelgisgæslunni í gærmorgun.

Að sögn viðbragðsaðila þótti líklegt að neyðarboðin hefðu borist frá litlum neyðarsendi í einkaeigu. Enn er þó óljóst hvaðan, og þá hvers vegna, neyðarboðin voru send. Jón segir að enn verði fylgst með tíðninni sem neyðarboðin bárust á. Hann segir að búið sé að fylgja öllum vísbendingum sem lágu fyrir en leitin hafi engan árangur borið.

Neyðarboð bárust Landhelgisgæslunni með gervitungli um klukkan 9.30. Tvær staðsetningar voru gefnar upp; önnur var í Meradölum nærri Fagradalsfjalli og hin í hafi suður af Þorlákshöfn.

Gæslan leitaði af sér allan grun við Þorlákshöfn. Þyrla gæslunnar og flugvél voru síðan sendar til að leita á svæðunum og gæslan gerði einnig fiskiskipum í nágrenni við Þorlákshöfn viðvart.

Þegar gæslan hafði leitað af sér allan grun við Þorlákshöfn hélt leitin þó áfram við Meradali, þar sem um 70 björgunarsveitarmenn voru við leit, að sögn Landsbjargar.