Bora Chung
er suðurkóreskur skáldsagnahöfundur og þýðandi. Smásagnasafn hennar Cursed Bunny var á forvalslista til Alþjóðlegu Booker-verðlaunanna árið 2022.
Fæðingartíðni er að lækka um allan heim en Suður-Kórea er í sérflokki í þeim efnum. Landið hefur upplifað einhverja bröttustu lækkun á frjósemi sem sést hefur undanfarin 60 ár og er meginástæða þess mjög skýr: Það eru ekki nógu margar konur á barneignaraldri.
Fæðingafjandsamleg stefna stjórnvalda frá og með ríkisstjórn Park Chung-hee á sjöunda áratug síðustu aldar leiddi til þess að algengasta fjölskyldumynstrið varð hjón með tvö eða þrjú börn, í stað sex eða fleiri barna hjá fyrri kynslóðum. Og á níunda áratugnum, þegar fæðingartíðnin fór fyrst niður fyrir endurnýjunarþörfina, urðu sértækar fóstureyðingar kvenfóstra algengar, þannig að konum fækkaði enn frekar. Hins vegar skýrir ójafnt kynjahlutfall ekki til fulls hvers vegna fæðingartíðni meðal Suður-Kóreumanna heldur áfram að lækka svo mikið, sérstaklega hjá hjónum.
Undanfarin 20 ár hafa stjórnvöld litið á þetta fyrirbæri sem neyðarástand á landsvísu og eytt milljörðum í að hvetja til barneigna. Og þótt enn séu fjölskyldur sem eignast börn er Suður-Kórea að setja heimsmet í lágri fæðingartíðni.
Yoon Suk Yeol forseti hefur oft kennt femínisma um misbresti í fjölskylduáætlunum Suður-Kóreu. Hann lítur svo á að kynjamisrétti sé ekki fyrir hendi og hefur jafnvel heitið því að leggja jafnréttis- og fjölskylduráðuneytið niður. En það er staðreynd að konur fá að meðaltali þriðjungi lægri laun en karlar og að vinnuveitendur kjósa að segja barnshafandi konum upp störfum frekar en að greiða fæðingarorlof. Orðræðan gegn femínisma ýtir undir vaxandi andúð gagnvart konum, eins og sést af aukningu í stafrænum kynferðisglæpum og annars konar kynbundnu ofbeldi á undanförnum árum.
Það er ekki vegna femínisma sem margar konur hafa frestað eða hafnað hjónabandi, heldur vegna skaðlegra staðalmynda kynjanna. Þetta er merkilegt í landi þar sem gagnkynhneigð er stöðluð og nánast engar fæðingar eiga sér stað utan hjónabands. En „heilbrigðari sambönd“ munu ekki „laga“ fæðingartíðnina ef fjölskyldur eignast færri börn í heildina.
Einvíðar frásagnir um „kynjastríð“ og fæðingartíðni fela það hversu skaddað suðurkóreskt samfélag er í grundvallaratriðum fyrir alla sem gætu orðið foreldrar, sérstaklega þá sem eru tekjulægri eða búa utan stórborgarsvæða eins og Seúl. Enn fremur er þrengt að þeim konum sem vilja eignast börn.
Þegar ég sé fréttirnar og umræðuna um „met“ í lágri fæðingartíðni í Suður-Kóreu get ég ekki annað en hugsað um venjulegt fólk eins og vinkonu mína Lee Ji Young, sem dreymir einfaldlega um að verða útivinnandi móðir.
Lee vann áður hjá Korea Optical High Tech, framleiðslufyrirtæki í Gumi. Í október 2022 varð þar eldsvoði og mánuði síðar sendi fyrirtækið starfsmönnum sínum þau skilaboð að það yrði lagt niður, þrátt fyrir að það hefði fengið 130 milljarða vonna í tryggingafé, jafnvirði 92 milljóna bandaríkjadala. Móðurfyrirtæki þess, Nitto Denko í Japan, flutti síðan alla starfsemina sem verið hafði í Gumi yfir til Pyeongtaek og enginn starfsmannanna í Gumi fékk að flytjast þangað. Þess í stað samþykktu næstum 200 af þessum starfsmönnum að segja upp „sjálfviljugir“ og samþykktu starfslokasamning; um tugur neitaði.
Af þeim starfsmönnum sem neituðu að segja upp héldu sjö áfram að mótmæla við rústir verksmiðjunnar sem brann. Mikilvægt er að fimm þeirra eru konur. Tvær samstarfskonur Lee, þær Park Jung Hye og So Hyun Sook, hafa mótmælt með setu á þaki verksmiðjunnar síðan 8. janúar 2024, þegar fyrirtækið fékk leyfi til að rífa bygginguna. Með þessum hætti berjast þær fyrir réttindum sínum, lífsviðurværi sínu og reisn. Lee, sem hefur daglega umsjón með mótmælunum á vettvangnum, sagði mér að hún ætti „aðeins góðar minningar“ frá þeim tíma þegar hún hóf störf hjá fyrirtækinu, þar sem hún kynntist eiginmanni sínum. Eftir að hún „hætti sjálfviljug“ árið 2019 hélt eiginmaður hennar áfram að vinna þar og bæði voru himinlifandi þegar hún gekk aftur til liðs við fyrirtækið sem fastráðinn starfsmaður vorið 2022. Þau byrjuðu meira að segja að skipuleggja fjölskyldu í þeirri trú að þau hefðu loksins náð fjárhagslegum stöðugleika.
Lee er nú virk í stéttarfélagi starfsmanna félagsins og hefur varla tíma til að fara heim. Eiginmaður hennar fann sér nýtt starf til að framfleyta þeim, en hinum hógværa draumi þeirra um að stofna fjölskyldu hefur verið frestað um óákveðinn tíma.
Aðstæður Lee eru einstæðar en hindranirnar sem standa milli hennar og foreldrahlutverkins eru það ekki. Eins og margir aðrir ungir Suður-Kóreumenn skilur hún að börn þurfa stöðugleika. En til að tryggja þann stöðugleika til langs tíma þarf ríkisstjórnin að marka stefnu til að leysa úr kerfislægum óstöðugleika sem skerðir rétt upprennandi mæðra til barneigna. Kóreskar konur hafa alltaf verið þrautseigar en þær geta ekki sigrast hjálparlaust á þeirri öfgakenndu kvenfyrirlitningu, öryggisleysi og efnahagsójöfnuði sem þrífst í Suður-Kóreu. Í meginatriðum gengur samfélag okkar ekki upp fyrir útivinnandi konur, hvað þá vinnandi mæður.
Suðurkóreskar konur skortir almennt grundvallarstuðning út ævina. Barneignir geta þýtt lok starfsferils (ef nokkur er) og að konan verði fjárhagslega háð eiginmanni sínum. Auk þess að leggja miklar greiðslubyrðar vegna umönnunar barna á heimili með einn launaseðil takmarkar þetta í raun starfsval kvenna við heimilisstörf, sem þær fá engin laun eða lífeyri fyrir.
Úrelt velferðarkerfi Suður-Kóreu er einnig mjög háð hefðbundinni fjölskyldugerð, sem styður lítið við einstæðar eldri konur sem hafa eytt mestum hluta fullorðinsævi sinnar heima. Þetta getur verið afar erfitt fjárhagslega fyrir fjölskyldur án fjölskylduföður. Reyndar hafa komið upp nokkur tilvik á karlalausum heimilum þar sem aldraðar mæður og fullorðnar dætur þeirra, sem geta ekki fengið störf með viðunandi launum, hafa framið sjálfsvíg vegna skorts á fjárhagslegum stuðningi.
Einhver verður að hlusta á ákall kóreskra kvenna. Enn sem komið er höfum við aðeins hver aðra. Á meðan svo er reyni ég að heimsækja Gumi-verksmiðjuna eins oft og ég get til að heilsa upp á konurnar tvær á þakinu. Ég dáist að þeim. En aðallega þrái ég heim þar sem fólk eins og Park, So og Lee þarf ekki lengur að vera hetjur.
Það eru miklar líkur á því að ég verði sjálf fátæk einstæð kona í framtíðinni. Og þar sem stefna ríkisstjórnar Suður-Kóreu krefst þess að ég verði byrði fyrir börnin mín er það heppilegt að ég á engin börn. Á mótmælafundi í þágu kvenréttinda heyrði ég einu sinni unga konu segja: „Dýpsta form kærleika sem ég get sýnt börnum mínum sem ekki eru til er að fæða þau ekki.“
Ég er hjartanlega sammála henni.
© 2024 The New York Times Company og Bora Chung