Alain Ducasse
Þegar ég var tólf ára tók ég mikilvægustu ákvörðun lífsmíns: ég ákvað að verða matreiðslumeistari. Ef ég á að vera hreinskilinn skildi ég aldrei ástæðuna að baki þessari ákvörðun minni. Ég bjó á bóndabæ í suðvesturhluta Frakklands með fjölskyldu minni. Við bárumst ekki á og ég hafði aldrei borðað á veitingastað. Þrátt fyrir þetta var engin spurning að ég vildi verða matreiðslumeistari og það varð úr. Ég lét draum minn rætast.
Í samfélagi sem snýst um skyndiniðurstöður, skynsemi og tækni hættir okkur til að gleyma mætti draumanna. Á ýmsan hátt passa draumar ekki inn í líf okkar að öðru leyti. Þeir þarfnast tíma og eru hvorki skynsamlegir né byggðir á tækni. Þeir spretta af óljósri og ófyrirsjáanlegri tengingu hugmynda, sem fyrir hendingu skjóta upp kollinum í hugum okkar.
Ég kann enn að meta drauma í mínu faglega lífi. Það sem ungu framkvæmdastjórarnir í liðinu mínu kalla „verkefni“ eru draumar í mínum huga. Þegar ég opna veitingastað – sem gerist mjög oft – byrja ég á að láta mig dreyma um hann. Hvar á hann að vera, hvaða fólk á hann að laða að sér og hvernig matur á að vera á boðstólum? Ég læt hugann reika að vild um margar óskipulagðar hugsanir. Lið fyrir lið birtist hugmynd út úr þessari ringulreið. Næsta skref er einfalt: Ég yfirfæri hugmyndir mínar yfir í hinn raunverulega heim.
Það er engin betri leið að lifa lífinu en að hlusta á drauma sína. Í École Ducasse, skólanum sem ég stofnaði fyrir listir matargerðarinnar, höfum við tekið opnum örmum mörgum nemendum sem ákváðu að kúvenda stefnunni í lífi sínu eftir kórónuveirufaraldurinn. Nemendur okkur koma úr gerólíkum geirum viðskipta, en kusu að fara að vinna í veitingageiranum til að fylgja sínum innstu draumum. Þegar ég sé hvað þeir leggja sig fram veit ég að þeir munu ná árangri. Hér er ég ekki bara að tala um faglegan árangur; þetta er eitthvað mun verðmætara. Hér er persónulegur árangur í húfi, sem mun veita hamingju og lífsfyllingu.
Draumar geta verið munaður því að þeir krefjast tíma. Hægt er að líta á drauma sem áhrifalausa því að þeir hunsa vísvitandi höft og rök. En ekki vanmeta mátt þeirra. Að minni hyggju snýst jörðin í krafti drauma.
Alain Ducasse er matreiðslumeistari og veitingamaður með alls 18 Michelin-stjörnur.
© 2024 The New York Times Company og Alain Ducasse