Tungutak
Baldur Hafstað
hafstad.baldur@gmail.com
N1: Kennari, sagðir þú ekki einu sinni að á Íslandi væri tvennt sem ekki mætti hrósa: Ríkisútvarpið og Morgunblaðið?
Kennari: Ég hef hrósað báðum fjölmiðlunum. Ríkisútvarpið á stórsnjalla frétta- og þáttagerðarmenn, eldri sem yngri. Og það sama er að segja um Morgunblaðið. Málfarið þar er yfirleitt mjög vandað, prófarkalestur til fyrirmyndar og hinn daglegi örstutti málsfarsþáttur sömuleiðis. Og svo eru minningargreinarnar ómetanleg og alveg einstök heimild um land og þjóð.
N2: En þú hefur gagnrýnt Ríkisútvarpið.
Kennari: Ég hef einungis gagnrýnt hirðuleysi þess í málfarsefnum. Þar þótti allt í einu sjálfsagt fyrir nokkrum misserum að tilteknir starfsmenn létu örsmáa klíku úti í bæ spana sig upp í að búa til nýtt mál, nýlensku. Það var skuggalegt tímabil, og enn hefur ekki tekist með öllu að uppræta ófögnuðinn. En vatnaskilin urðu með aðsendri grein á visir.is þann 6. maí síðastliðinn sem í ljós hefur nú komið að er næstmest lesni pistill ársins 2024 á þeim útbreidda miðli. Venjulegt fólk í þessu landi var allt í einu búið að fá kærkominn málsvara. Það var ekki lengur hrætt við að opna munninn.
N3: Dæmi um ruglið á RÚV: „Ýmis segja að …“, og: „Mörg mættu á gosstöðvarnar.“
N4: Ég minnist líka hræsninnar þegar einhverjir starfsmenn og utanhússráðgjafar RÚV fóru að verja nýlensku kollega sinna en töluðu sjálfir þá íslensku sem þeir höfðu drukkið í sig með móðurmjólkinni.
Kennari: Já, hræsni var það.
N5: En vandinn er engan veginn leystur. Eftir tilraun litla þrýstihópsins til afkynjunar tungumálsins heyrist orðið maður miklu sjaldnar en áður á RÚV, sbr. slysið þegar „manni ársins“ var breytt í „manneskju ársins“. Hafið þið tekið eftir því að þar sem sambærilegt val fer fram er enn talað um mann ársins, sbr. forsíðu Feykis 11. desember síðastliðinn: „Feykir óskar eftir tilnefningum á manni ársins á Norðurlandi vestra.“
N6: Já, og svo er í tíma og ótíma talað á RÚV um „fólk“ þar sem áður var talað um menn, sbr. lögreglufólk, alþingisfólk og tungubrjótinn starfsfólksfélag. Það fer að verða ískyggilega stutt í herfólk. En það nýjasta sem ég heyrði var að einn fréttamannanna talaði um átta sundfólk.
N7: Hvernig væri að segja bara flestir í stað flest fólk og sumir í stað sumt fólk? Og blindir fá sýn í stað blint fólk fær sýn. Við höfum jú Happdrætti lamaðra og fatlaðra. Viljum við heldur Happdrætti lamaðs fólks og fatlaðs fólks?
N8: Og fornafnið „þau“ er ofnotað á RÚV. Nemendur (kk) eru þau, manneskjur (kvk) eru þau; foreldrar (kk.) eru þau og fólkið (et.) er þau. Kappkostum að láta kyn fornafna stemma við kyn og tölu nafnorðs eftir því sem unnt er.
N9: Enn eru títuprjónar á RÚV sem við erum stungin með í eyrun.