Töluvert tjón varð þegar maður á jeppa bakkaði í gegnum rúðu Landsbankans á Fjarðargötu í Hafnarfirði í fyrrinótt. Þegar inn var komið festi maðurinn keðju við hraðbanka sem stendur innan dyra og reyndi að losa hann með því að aka bílnum af stað.
Ekki gekk það betur en svo að taumurinn gaf sig og hafði maðurinn sig á brott í kjölfarið. Rúnar Pálmason upplýsingafulltrúi Landsbankans segir að tilraunin hafi verið algjörlega misheppnuð. Maðurinn hafi fest annan enda keðjunnar í rauf þar sem peningar koma út við notkun á bankanum en hinn endinn var festur við bílinn. „Hraðbankinn haggaðist ekki, enda kirfilega fastur. Ræninginn gerði ekki aðra tilraun og ók á brott,“ segir Rúnar. Skúli Jónsson, stöðvarstjóri hjá lögreglunni í Hafnarfirði, segir að í ljós hafi komið að jeppinn sem notaður var til verksins var stolinn. Skemmdarvargurinn var ófundinn síðdegis í gær. vidar@mbl.is