Jónína Axelsdóttir fæddist á Akureyri 13. ágúst 1930. Hún lést á Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri 13. desember 2024.

Foreldrar Jónínu voru Aðalheiður Sigtryggsdóttir, f. 22. júlí 1906, d. 3. nóv. 1931, og Axel Björnsson, f. 17. júní 1895, d. 1. júní 1967. Alsystir Jónínu var Aðalheiður Ágústa, f. 24. okt. 1931, d. 27. júlí 1992. Hálfsystur Jónínu samfeðra voru Unnur Maggý, f. 29. apríl 1934, d. 3. maí 2013, og Jónída Guðbjörg, f. 8. sept. 1937, d. 16. sept. 1967.

Jónína giftist 25. des. 1955 Jóni Bergþóri Arngrímssyni vélstjóra, f. 14. feb. 1925, d. 5. maí 2006. Börn þeirra eru: 1) Sigurður Helgi, f. 12. sept. 1956, fv. eiginkona Hrafnhildur Eiríksdóttir, þau skildu, börn þeirra eru 1a) Ingi Þór, f. 1995, sambýliskona Bára Hensley, börn Aþena Rós, f. 2021, og Arnar Kristinn, f. 2023; 1b) Arnar Freyr, f. 1999. Fyrir átti Hrafnhildur soninn Hauk Geir Jóhannsson, f. 1985. 2) Magnea Guðrún. f. 24. okt. 1960, eiginmaður Jón Magnússon, börn þeirra eru 2a) Bergþór Steinn, f. 1990, eiginkona Þorbjörg Viðarsdóttir, börn þeirra eru Guðrún Dóróþea, f. 2017, og Víkingur Máni, f. 2023; 2b) Hjörtur Snær, f. 1996, sambýliskona Diljá Dögg Gunnarsdóttir, börn þeirra eru Gunnar Jökull, f. 2020, og Malen Kolka, f. 2023; Fyrir átti Jón soninn Magnús, f. 1983. 3) Þórhallur, f. 25. feb. 1963, eiginkona Ásdís Rögnvaldsdóttir, sonur Þórhalls er 3a) Konráð Þór, f. 1991 (móðir Margrét Þóroddsdóttir), sambýliskona Konráðs er Karen Nanna Þorkelsdóttir, synir þeirra eru Aron Þorkell, f. 2015, og Adrían Birnir, f 2018; dóttir Þórhalls og Ásdísar er 3b) Katrín, f. 2001, sambýlismaður Bjarki Már Gunnþórsson; fyrir átti Ásdís soninn Unnar Blöndal, f. 1995, sambýliskona Berglind Viðarsdóttir, börn þeirra eru Atlas Þorri, f. 2023, og Amelía Rún, f. 2024, fyrir átti Berglind dótturina Amöndu Rún Bergþórsdóttur, f. 2016.

Jónína missti móður sína þegar hún var aðeins tveggja ára. Hún ólst upp í innbænum á Akureyri hjá móðurafa sínum og –ömmu, þeim Sigtryggi Jónssyni, f. 1876, d. 1955, og Jónínu Símonardóttur, f. 1882, d. 1973. Aðalheiður alsystir Jónínu ólst hins vegar upp hjá föðurfólki sínu, en þær systur voru engu að síður mjög nánar alla tíð. Jónína fór ung að vinna í Kristjánsbakaríi og vann þar allmörg ár. Hún var söngelsk og fór 17 ára að syngja í kór, hún fór í margrómaða og ógleymanlega söngferð með Kantötukór Akureyrar til Svíþjóðar árið 1951, þá 21 árs. Þegar börnin voru vaxin úr grasi fór Jónína að vinna á vistheimilinu Sólborg og síðar við ræstingar á ýmsum stöðum. Hún söng áratugum saman með kirkjukór Lögmannshlíðarsóknar.

Útför hennar fór fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Ég gleymi ekki þegar við hittumst fyrst í stofunni hjá tengdaforeldrum mínum og þú komst fljótt að því hverra manna ég var; barnabarn Obbu og Mumma sem voru góðir vinir ykkar hjóna hér áður. Þú varst strax ákveðin í því að amma, afi og Beggi þinn hefðu nú eitthvað haft með það að gera þarna hinum megin að leiðir okkar Bergþórs lágu saman. Þú varst svo dugleg að segja mér hversu þakklát þú værir fyrir að við skyldum finna hvort annað til að fara í gegnum lífið með.

Bergþór hefur sagt mér margar góðar sögur frá því hann var yngri og var mjög reglulegur gestur hjá ykkur Begga eftir skóla. Til dæmis var skyrið alltaf best hjá þér enda varst þú óspör á sykurinn í það. Einnig að skriftarbókin hans í grunnskóla var alltaf mjög vel myndskreytt enda teiknaðir þú fyrir hann í bókina þar sem þér fannst hann ekki setja alveg nógu mikinn metnað og hæfileika í teikningarnar en bókin yrði nú að líta vel út.

Samverustundirnar voru færri en við hefðum viljað síðastliðin fimm ár meðan við fjölskyldan bjuggum í Bandaríkjunum. Það gefur okkur mikið að hafa átt með þér sex mánuði eftir að við fluttum heim aftur. Þú gast samt fylgst ágætlega með okkur úti enda með þinn eigin messenger-aðgang þar sem við gátum sent þér myndir. Þú eyddir góðum tíma í að skoða þær fram og til baka sem okkur þótti svo vænt um. Oft var notalegt að fá send skilaboð frá þér á messenger-spjallinu, yfirleitt þumalfingurs-„like“. Þá vissum við að þú værir að fletta í gegnum myndirnar sem við höfðum jafnvel sent fyrir löngu en þú rekið þig óvart í takkann. Þú lærðir á ipad um nírætt og fórst létt með það, geri aðrir betur. Þú varst alltaf með alla hluti á hreinu fram á síðasta dag. Ég hafði mjög gaman af því að þú gast frætt alla um hvernig veðráttan væri hjá okkur í Bandaríkjunum á meðan við bjuggum þar. Þú vissir nákvæmlega hvaða depill á veðurkortinu sýndi staðinn okkar og fórst alltaf rétt með.

Takk fyrir öll hlýju knúsin og samverustundirnar elsku Jonna. Við verðum dugleg að sýna Guðrúnu Dóru og Víkingi Mána myndir af þér, segja þeim sögur af þér og halda þannig minningu þinni á lofti. Þú varst alltaf með svo hlýjan faðm og svo dugleg að segja okkur hvað þú værir stolt af okkur. Ég verð ætíð og ævinlega þakklát fyrir að hafa tengst inn í þína fjölskyldu, fengið þig sem aukaömmu fyrir mig og langömmu barnanna minna.

Þín

Þorbjörg.

Amma tók ávallt á móti mér með opinn faðm og einstaka hlýju og var mér ómetanlegur stuðningur á mínum yngri árum. Hjá henni fékk ég fyrirtaks hádegismat og ánægjulegar stundir með henni og afa. Í seinni tíma gat ég gefið aðeins til baka með því að aðstoða hana með búðarferðir, tæknimál, og veitt félagsskap með reglulegum heimsóknum sem gaf mér afskaplega mikið að geta gert.

Í heimsóknum var boðið upp á alls kyns kræsingar og var algjört lágmark að maður fengi sér allavega einn „bauk“ (grænan Kristal).

Amma fylgdist alla tíð vel með og hafði sterkar skoðanir á mörgu, t.d. dagskrárgerð í fjölmiðlum, pólitíkinni og samfélagsmálum og vali á sósum og meðlæti með hádegismatnum á Hlíð. Eins og fólki á hennar aldri sæmir blöskraði ömmu oft og tíðum eilífur fíflaskapur Ödda og Sveppa, gestaval Gísla Marteins í Vikuna og músíkin í úrvarpinu.

Árið 2018 (þá 88 ára) tók amma þátt í hjólreiðakeppninni Road World Seniors og sýndi þá á sér nýja hlið sem ég hafði ekki séð áður; keppnisskapið, áræðið, göfugu markmiðin, krafturinn og þrautseigjan sem geislaði af þeirri gömlu minnti á afreksíþróttafólk á hátindi ferils síns. Amma var stolt af afrekum sínum á hjólinu og mátti svo sannarlega vera það enda hjólaði hún yfir 10 km á dag og náði frábærum árangri í keppninni.

Ég er þakklátur fyrir það að börnin mín tvö fengu að hitta ömmu og var mikil væntumþykja á milli sonar míns og hennar. Amma minnti okkur reglulega á hvað við værum einstaklega lánsöm með dásamlegu börnin okkar tvö.

Allt frá mínum fyrstu árum höfum við amma verið í miklu og góðu sambandi sem hélst óslitið allt fram á hinsta dag hennar. Fyrir vikið er söknuðurinn og tómarúmið við það að geta ekki hvorki hringt né komið í heimsókn bæði yfirþyrmandi og óraunverulegt á þessum erfiðu tímum.

Takk fyrir allt, elsku amma.

Hjörtur Snær Jónsson.