Endastöð Í svari borgarstjóra kemur fram að endastöðin sé tímabundin ráðstöfun á meðan unnið er að gerð framtíðaraðstöðu á Hlemmssvæðinu.
Endastöð Í svari borgarstjóra kemur fram að endastöðin sé tímabundin ráðstöfun á meðan unnið er að gerð framtíðaraðstöðu á Hlemmssvæðinu. — Morgunblaðið/Eggert
„Hér er búið að vera umsátursástand og samskiptin við borgina markast af tómlæti, stjórnleysi, óreiðu og misvísandi skilaboðum,“ segir Axel Hall, formaður húsfélags á Völundarlóð við Skúlagötu, en íbúar þar hafa orðið fyrir verulegum…

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

„Hér er búið að vera umsátursástand og samskiptin við borgina markast af tómlæti, stjórnleysi, óreiðu og misvísandi skilaboðum,“ segir Axel Hall, formaður húsfélags á Völundarlóð við Skúlagötu, en íbúar þar hafa orðið fyrir verulegum óþægindum vegna næturumferðar Strætó og annarrar strætisvagnaumferðar á endastöð sem nýlega var komið fyrir við fjölbýlishúsið.

Hann segir íbúa hafa orðið fyrir verulegum óþægindum vegna ástandsins sem borgaryfirvöld hafi skapað með ákvörðun sinni um endastöð við húsið hjá þeim.

„Við höfum barist með kjafti og klóm gegn þessari stjórnvaldsákvörðun borgarinnar á öllum stigum. Bæði hvað varðar breytingu á deiliskipulagi við afgreiðslu þess, síðar með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og að lokum með erindi til umboðsmanns Alþingis.“

Axel segir húsfélagið lengst af hafa reynt að reka málið gagnvart Reykjavíkurborg án aðkomu fjölmiðla en skeytingarleysi stjórnenda Strætó sé búið að vera með eindæmum. Húsfélagið sendi borgarstjóra bréf um miðjan október þar sem kvartað var yfir skeytingarleysi forsvarsmanna Strætó vegna umkvartana þeirra.

„Á næturnar gerist það stundum að vagnar sem eru ekki endilega á leið á endastöðina safnast þar fyrir og eru í lausagangi með tilheyrandi hávaða, ónæði og hljóðmengun. Þegar rætt er við vagnstjórana sjálfa einkennast viðbrögð þeirra jafnvel af dónaskap,“ segir m.a. í bréfi húsfélagsins til borgarstjóra. Axel segir að eftir ítrekaðar bréfaskriftir við borgaryfirvöld hafi borgarstjóri loks svarað erindi þeirra hinn 10. des. sl. í tölvupósti. Þar komi fram að borgarstjóri muni láta kanna hvort ekki sé hægt að koma á skýrara verklagi á meðan vagnarnir standi við húsið.

Í svari borgarstjóra er einnig tekið fram að endastöð Strætó við Hörpu sé tímabundin ráðstöfun á meðan unnið er að gerð framtíðaraðstöðu á Hlemmssvæðinu.

„Þar erum við að keyra málin eins hratt áfram og hægt er,“ segir í svari borgarstjóra.

Jóhannes Svavar Rúnarsson framkvæmdastjóri Strætó segir að endastöðin á Skúlagötu sé tímabundin ráðstöfun, en hún verði ekki flutt aftur á Hlemm.

Spurður hversu tímabundin hún sé segir hann að það ráðist af því hvenær fjármagn fáist.

„Við vorum með þessar endastöðvar á Hlemmi, sem verður ekki lengur endastöð heldur gegnumakstursstöð. Endastöðvarnar verða á þeim stöðum sem leiðirnar enda á. Ég get ekki svarað nákvæmlega hvenær þessu verður breytt aftur.“

Er búið að velja stað?

„Það fer eftir innleiðingu nýs samgöngusáttmála hvenær stöðin verður flutt en hún fer ekki aftur á Hlemm.“

En getur þú svarað því hver verður nákvæmlega staðsetningin þegar stöðin flyst af Skúlagötunni?

„Nei, ég get það ekki. Hún verður á enda leiðar en hvenær hún flyst get ég ekki svarað. Það eru fimm leiðir sem enda á þessari stöð og þær munu fara á ýmsa staði. Það verður að vísu ein endastöð á þessu svæði og hvort hún endar þarna eða nær Hörpu er í raun útfærsluatriði með Betri samgöngum og skipulagsyfirvöldum í Reykjavík þegar þar að kemur.“

Um umkvartanir íbúa yfir umferð á nóttunni segir Jóhannes að þær heyri til undantekninga.

„Það bar á þessu í upphafi og við gripum strax til aðgerða til að draga úr þessu ónæði. Við keyrum reyndar bara til miðnættis. Það er reyndar líka rútustoppistöð þarna sem er í notkun allan sólarhringinn og það getur gætt einhvers misskilnings um að það sé á vegum okkar en svo er ekki. Við reynum eftir fremsta megni að valda sem minnstu ónæði.“

lklafæjfÆ

JJFaj

akakak

Höf.: Óskar Bergsson