Spursmál
Stefán E. Stefánsson
ses@mbl.is
Bjarni Benediktsson fyrrverandi forsætisráðherra segir það hafa verið rétta ákvörðun hjá sér að boða til kosninga sem síðan var gengið til 30. nóvember síðastliðinn. Flokkur hans, Sjálfstæðisflokkurinn, hafi unnið varnarsigur við erfiðar aðstæður þar sem ástandið hafi ekki verið bjart á tímabili. Flokkurinn hlaut 19,4%. Stærstur flokka varð Samfylkingin með 20,8% atkvæða.
Þetta kemur fram í nýju viðtali við Bjarna á vettvangi Spursmála en það er aðgengilegt í heild sinni á mbl.is og öllum helstu efnisveitum, m.a. Spotify.
„Niðurstaðan í þessum kosningum varð ákveðinn varnarsigur eftir langt stjórnarsamstarf í þriggja flokka stjórn. Við erum flokkurinn sem bætti hvað mestu við sig í kosningabaráttunni. Samfylkingin var að tapa alla kosningabaráttuna og endaði í 20% þegar flestir voru að gera ráð fyrir að hún yrði nær 30% og ynni einhvern afgerandi stórsigur, sem gerðist ekki,“ segir Bjarni og heldur áfram:
Tækifæri í stjórnarandstöðu
„Það er auðvitað mikið umhugsunarefni að vera ekki með meiri stuðning eftir kosningar en þetta. Og að því leytinu til eru það einnig ákveðin tækifæri fyrir flokkinn að fara í stjórnarandstöðu og að geta sinnt hugmyndafræðilegu hliðinni betur án þess að vera að gera málamiðlanir vegna þess að það eru ákveðin þyngsli sem fylgja því að vera að gera þær, að vera í stöðugri réttlætingu fyrir málamiðlunum. Samfélagið okkar er líka að breytast mjög hratt. Það er töluverð þörf á því að menn séu að ganga í takt við samfélagsbreytingarnar, væntingar nýrra kynslóða, lesa í stöðuna hverju sinni og tryggja að stefnumál flokksins séu í takt við það sem kallað er eftir og þörf er fyrir og bæði til skemmri og lengri tíma þannig að ég held að flokkurinn geti byggt sig upp.“
En nú er það víða hefðin að þegar flokkar missa fylgi og völd þá afhenda leiðtogarnir keflið áfram til næstu kynslóðar.
„Ég hef nú tjáð mig svo oft um þetta. Ég hef bara sagt sem svo, nú ætla ég eftir að ríkisstjórnin er komin að taka mitt jólafrí og koma inn í nýja árið og ég ætla að tala um þetta þegar nýja árið rennur upp.“
Einhvern tíma í janúar
Ég hefði þá átt að kalla þig til mín eftir fjóra daga sem sagt?
„Nei, bara einhvern tíma í janúar, þá verð ég líka búinn að ná að tala við fleiri flokksmenn og svona mitt nánasta umhverfi, bæði heima fyrir og í þingflokknum og leggja mat á þetta. Ég held að það séu ekki í sjálfu sér nein lögmál í þessu. En það er alveg rétt sem þú segir að ég hef verið lengi í pólitík. Ég hef hins vegar aldrei verið reynslumeiri í pólitík en akkúrat núna og ég er enn ungur að árum, tiltölulega ungur maður í pólitíska samhenginu, þannig að þetta er bara mál sem ég ætla að tala um á nýja árinu.“
En þú heldur ekki að þú sért orðinn dragbítur á fylgi flokksins bara út af öllum þeim erfiðu málum sem upp hafa komið á þínum ferli?
„Ef það er, þá væri ég örugglega síðastur til að sjá það.“
Spurður út í hvort til standi að fresta fyrirhuguðum landsfundi í lok febrúar fram á haustið verður Bjarni nokkuð véfréttarlegur í tali. Hann segist ekki taka þá ákvörðun einn en að ýmis rök hnígi að því að halda fundinn síðar. Fyrirhuguð tímasetning hafi tekið mið af því að búa flokkinn undir kosningar sem séu, þegar hingað er komið, afstaðnar.
Framsókn átti að vera með
Bjarni segir að í kjölfar kosninga hafi teiknast upp að lengi hafi staðið til að koma því stjórnarsamstarfi á sem nú hefur litið dagsins ljós.
„Mín upplifun var sú að Viðreisn og Samfylking ætluðu alltaf að fara saman og þetta var meira spurning um hvaða flokk þau ætluðu að fá til liðs við sig. Eitthvað segir mér að það hafi staðið til að vinna með Framsóknarflokknum en það plan rann út í sandinn á kjördag og þegar talið var upp úr kjörkössunum. Þetta varð þeirra niðurstaða. Mér sýndist frá upphafi að það væri einbeittur vijli þessara flokka til að koma saman stjórn sem fyrst [...]“
Hann segir líklegt að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Kristrún Frostadóttir hafi rætt saman um stjórnarmyndun fyrir kosningarnar.
„Mér finnst allur vera sá blær á þessum málum að það hafi alltaf staðið til að vinna saman enda gátu menn svo sem lesið í kannanir að það gæti verið valkostur eftir kosningarnar. Þannig lágu þær síðasta hálfa árið eða svo.“
ESB-endaleysa
Hann er hins vegar minntur á það í viðtalinu að margt hafi borið í milli hjá þessum flokkum í kosningabaráttunni.
„Þetta er bara það sem við erum vön að sjá í íslenskum stjórnmálum og kosningum. Það er að segja að flokkarnir vilja hampa sérstaklega því sem þeir standa fyrir sjálfir en eru svo reiðubúnir að miðla málum svo að hægt sé að koma á stjórnarsamstarfi. Reyndar finnst mér ekkert standa eftir af stærstu málunum sem flokkarnir vildu merkja sig með fyrir kosningarnar gagnvart kjósendum og því sem hefur verið rætt um til að veita fráfarandi stjórn aðhald í þeim stjórnarsáttmála sem hefur verið sýndur eða stefnuyfirlýsingu eins og þau kalla það,“ segir Bjarni.
Þegar hann er spurður út í fyrirhugaða atkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna við Evrópusambandið um mögulega inngöngu Íslands í það, hristir Bjarni einfaldlega höfuðið. Hann segir fyrirhugaða málsmeðferð hreina endaleysu og að það geti ekki endað með öðrum hætti en stórslysi fyrir núverandi stjórnarflokka að ætla að efna til þeirrar atkvæðagreiðslu en láta eins og að flokkarnir hafi ekki skoðun á því hvaða stefna skuli tekin.
Sjálfstæðisflokkurinn muni berjast af einurð gegn inngöngu Íslands í ESB.