Anant Agarwal
er stofnandi edX, yfirmaður akademíunnar við 2U og prófessor í rafmagnsverkfræði og tölvunarfræði við MIT.
Þegar stórfelldar breytingar gerast hratt óttast menn oft það versta. Þróun mannsins hefur skilyrt okkur til að verjast rándýrum og í dag er gervigreind rándýrið sem mörg okkar sjá.
Það er auðvelt að festa í sessi þá hugmynd að gervigreind muni fækka störfum. Ég stýrði rannsóknarstofu tölvunarfræði og gervigreindar við Massachusetts Institute of Technology á tímabili sem nú virðist vera táningsár gervigreindar og ég get sagt frá fyrstu hendi að óttinn við að vélar taki yfir er ekki nýr af nálinni. Kynslóð mín trúði því að fyrstu handhægu reiknivélarnar myndu umturna námi. Þess í stað öðluðust nemendur verkfæri til að leysa vandamál hraðar og frelsi til að einbeita sér að hærra stigi rökhugsunar í stað grunnreiknings.
Gervigreind hefur sömu möguleika á að gjörbylta menntun með því að auka færni kennara og gera þeim kleift að sníða námsleiðir fyrir einstaklinga með áður óhugsandi hætti. Þessir möguleikar stigmagnast þegar gervigreind og stafræn menntun fara saman, sem veitir gervigreindinni gögn í rauntíma um það hvernig nemendur eru að læra.
Það er eðlilegt að hafa áhyggjur af breytingum. Hið óþekkta virðist oft ógnandi. En sagan hefur kennt okkur óumdeilanlega lexíu: Ef við byggjum múra til að vernda okkur sjálf seinkar það aðeins hinu óumflýjanlega. Þeir múrar verða klifnir og þeir munu falla. Aðlögunarhæfni, ekki vörn, er ákjósanlegasti hæfileikinn til að mæta stöðugri þróun í heiminum. Fyrir kennara eins og mig þýðir þetta að vísa dómsdagsspám á bug og endurskoða hugarfar okkar. Gervigreind er ekki hér til að koma í stað okkar; ef hún er notuð á ábyrgan hátt getur hún hjálpað okkur að verða „yfirkennarar“.
Íhugum sjálfkeyrandi bíla. Í flestum tilfellum eru ökumenn enn til staðar, en tvinntækni eins og hraðastilling, akreinaviðvaranir, sjálfvirk hemlun og bílastæðisaðstoð er til hjálpar og endurskilgreinir hvað það þýðir að sitja undir stýri. Sama er að gerast í kennslustofunni. Kennarar eru enn til staðar en ýmis gervigreindartól – svo sem varðandi kennslu, ráðgjöf, einkunnagjöf, leiðsögn um námsefnið og þýðingar – eru að koma fram á sviðið til að losa kennara undan endurteknum verkefnum og stjórnunarskyldum. Þessi breyting gerir kennurum kleift að einbeita sér að því sem raunverulega skiptir máli: að virkja og hvetja nemendur um leið og þeir auka gæði menntunar og bæta aðgengi að henni.
Auðvitað á þróunin sér stað í skrefum. Á næstunni mun gervigreindin hjálpa kennurum að gera kennsluáætlanir, finna lýsandi dæmi og búa til skyndipróf sem eru sérsniðin að hverjum nemanda. Sérsniðin verkefni munu þjóna sem verkfæri gegn svindli og á meðan veitir gervigreindin tafarlausa endurgjöf.
Til lengri tíma litið er hægt að ímynda sér heim þar sem gervigreindin getur innbyrt ítarleg gögn um nemendur og búið til sérsniðnar námsleiðir fyrir þá innan námskrár sem kennarinn setur. Kennarar geta áfram tekið mikinn þátt í að ýta undir umræður nemenda, leiðbeina í hópverkefnum og virkja nemendur sína á meðan gervigreindin annast einkunnagjöf og notar sókratísku aðferðina til að hjálpa nemendum að finna svör upp á eigin spýtur. Kennarar fá þá meiri tíma til að veita nemendum hvatningu og persónumiðaðan stuðning þegar þörf krefur.
Það er framtíðin sem við erum að stíga inn í. Reyndar höfum við þegar fengið forsmekkinn af henni. Á edX er gervigreindartól til námsaðstoðar fellt inn í alþjóðlegan námsvettvang á netinu, sem veitir nemendum einstaklingsmiðaðan fræðilegan stuðning allan sólarhringinn, allt frá samantekt fyrirlestra til spurningaprófa. Khan Academy hefur tekið þátt í samstarfi við Microsoft um gerð gervigreindartólsins Khanmigo for Teachers, sem hjálpar til við að undirbúa kennslustundir, greina frammistöðu nemenda og mæla með verkefnum. Önnur gervigreindardrifin aðlögunarnámskerfi geta breytt erfiðleikastigi verkefna út frá frammistöðu nemenda og vakið athygli á skilningsbili áður en kennarinn tekur eftir því.
Ég hef verið prófessor við MIT í 36 ár og á þeim tíma hefur einn fasti verið sú mikla endurtekningasama vinna sem dregur úr kennslu og samskiptum við nemendur. Ég hef eytt ómældum tímum í að gefa einkunnir, fara yfir verkefni og útbúa efni, sem er vissulega gagnlegt en er ekki sá hluti kennslunnar sem talar til nemenda og hvetur þá. Þessi verkefni geta verið unnin með sjálfvirkni. Um aldir höfum við reitt okkur á stóra fyrirlestrasali og stífar námskrár út frá þeirri forsendu að allir nemendur læri á sama hátt. Gervigreindin býður upp á leið út fyrir kassann, sem gefur okkur tækifæri til að búa til kennslustofur þar sem nám er persónumiðað og kraftmikið.
Sem kennarar getum við virkjað gervigreind og notað hana til að breyta kennslustofum okkar í umhverfi sem styður við hvern og einn nemanda. Í þessum endurbættu kennslustofum getum við komið auga á það þegar nemendur eiga í erfiðleikum og veitt þeim stuðning um leið og þeir þurfa hann, löngu áður en þeir íhuga að hætta í námi. Við getum þegar í stað boðið upp á efnislega endurgjöf á verkefnum, losað okkur út úr endalausum einkunnagjöfum og gefið okkur meiri tíma til að tengjast nemendum okkar.
Við skulum hafa eitt á hreinu: gervigreind mun aldrei koma í stað þeirra mannlegu samskipta sem eru svo mikilvæg fyrir menntun. Ekkert algrími getur leikið eftir þá samkennd, sköpunargáfu og ástríðu sem kennari kemur með í kennslustofuna. En gervigreindin getur svo sannarlega magnað þá eiginleika. Það getur verið aðstoðarflugmaður okkar, starfsmannastjóri okkar sem hjálpar okkur að ná lengra og verða skilvirkari.
Við skulum gera þetta. Verðum ofurkennarar.
Við skulum verða altalandi á gervigreind og nota hana til að margfalda færni okkar og auka áhrif okkar.
Við skulum hætta með einhliða kynningar sem hafa verið ráðandi í menntun of lengi og sníða menntun þess í stað að þörfum hvers nemanda.
Endurvekjum ástríðuna fyrir símenntun sem úrelt kennslulíkön hafa kæft.
Hvort sem þú ert kennari sem er að þróast yfir í ofurkennara eða gegnir öðru starfi á vinnustað sem er að breytast er aðlögunarhæfni þín mesti kostur þinn. Við skulum hrifsa tækifærin sem gervigreindin færir okkur á þessum umbrotatímum.
Enda tilheyrir framtíðin þeim sem eru tilbúnir að þróast.
© 2024 The New York Times Company og Anant Agarwal