Undirbúningur Hópurinn sem stendur að Áramótaskaupinu 2024 spáir í spilin. Sveinn Ólafur, Ólafur, Hugleikur, Katla Margrét, María og Friðgeir.
Undirbúningur Hópurinn sem stendur að Áramótaskaupinu 2024 spáir í spilin. Sveinn Ólafur, Ólafur, Hugleikur, Katla Margrét, María og Friðgeir.
„Maður vonar alltaf að það komi ekki upp einhverjir krassandi skandalar svo seint á árinu að þeir náist ekki inn í Áramótaskaupið,“ segir María Reyndal, sem leikstýrir Áramótaskaupinu 2024

„Maður vonar alltaf að það komi ekki upp einhverjir krassandi skandalar svo seint á árinu að þeir náist ekki inn í Áramótaskaupið,“ segir María Reyndal, sem leikstýrir Áramótaskaupinu 2024. Hún er einnig yfirhandritshöfundur, en meðhöfundar hennar eru Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Friðgeir Einarsson, Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir, Sveinn Ólafur Gunnarsson, Ólafur Ásgeirsson og Hugleikur Dagsson. Þegar Morgunblaðið náði tali af henni rétt fyrir jól var María á lokametrunum ásamt framleiðsluteymi sínu að klippa saman Áramótaskaupið. „Maður reynir auðvitað eins seint og hægt er að „læsa“ Skaupinu. Á sama tíma erum við okkur meðvituð um að Áramótaskaupið er annáll fyrir árið og því þarf að ná inn öllu því helsta, þó við náum auðvitað aldrei að snerta á öllu,“ segir María og tekur fram að fjarlægðin í tíma gegni mikilvægu hlutverki.

„Eitthvað sem var á allra vörum í janúar er kannski fallið í gleymskunnar dá í nóvember. Það er sérstök tilfinning að vera að vinna efnið jafnóðum, því maður sér það ekkert endilega fyrir hvað stendur upp úr á árinu þegar litið er um öxl og stundum þurfa hlutirnir einmitt að sjatna til að hægt sé betur að sjá heildarmyndina. Þetta er heilmikill línudans,“ segir María og tekur fram að hún þurfi að gæta orða sinna þar sem hún megi ekki segja of mikið. „Ég get þó sagt að við myndum skrifa öðruvísi Skaup núna en fyrir tveimur mánuðum og enn annað Skaup eftir tvo mánuði, því hlutirnir eru sífellt að breytast,“ segir María og jánkar því að það sé einstaklega góð æfing í núvitund að skrifa og vinna Áramótaskaupið.

Aðspurð hvort handritshópurinn sé að vinna með tiltekið þema, eins og stundum hefur verið raunin, svarar María: „No comment“ eða pass.

En verður lokalag eins og virðist hafa fest sig í sessi á síðustu árum?

„Aftur verð ég að segja pass. Það verður bara að koma í ljós.“

María hefur áður komið að handritagerð fyrir Skaupið, en er í fyrsta sinn núna að leikstýra því og hafa yfirumsjón með handritinu. Aðspurð segir hún mikinn mun á því að hafa alla þræði í hendi sér eða koma aðeins að því sem einn meðhöfunda. „Mér hefur fundist mjög gaman að fá að stýra þessu núna, enda mikill heiður að fá þetta tækifæri,“ segir María. Spurð hvort hún gæti hugsað sér að gera það aftur hugsar María sig vel um og segist ekki geta svarað því á núverandi stundu meðan hún sé stödd í miðju havaríinu. „Maður skyldi þó aldrei segja aldrei.“

Óhætt er að segja að þjóðin sameinist fyrir framan sjónvarpsskjáinn þegar Áramótaskaupið er sýnt á gamlárskvöld og reynslan hefur sýnt að allir hafa skoðun á því. Hvernig leggst það í þig?

„Ég held að maður verði að mæta viðtökunum af ákveðnu æðruleysi,“ segir María og viðurkennir að hún sé vissulega komin með fiðrildi í magann. „Á endanum veit ég að maður verður að sleppa höndunum af Skaupinu og leyfa því að fljúga þangað sem það vill fara svo það geti átt sitt sjálfstæða líf. Það segja mér allir sem hafa gert þetta áður að alveg sama hvernig útkoman verður þá mun það falla í kramið hjá hópi fólks meðan aðrir munu ekki fíla þetta og öðrum er alveg sama. Í raun er þetta bara æsispennandi enda ríkir mikil eftirvænting í höfundahópnum, sem er algjörlega frábær,“ segir María að lokum. silja@mbl.is