Eyjar Athöfnin byrjaði í Sagnheimum og lauk inni á Eiði þar sem afhjúpaður var minnisvarði um slysið. Afkomendur og náin skyldmenni þeirra sem fórust í sjóslysinu 16. desember 1924 og voru viðstödd athöfnina á Eiðinu að lokinni samkomu í Safnahúsinu. Frá vinstri Kristrún Axelsdóttir og dóttir hennar Unnur Sigmarsdóttir, en Halldór Gunnlaugsson héraðslæknir var afi Kristrúnar og langafi Unnar. Þá kemur Martea Guðmundsdóttir, en Guðmundur Guðjónsson frá Kirkjubæ var móðurbróðir hennar, og loks Einar Bjarnason, en Bjarni Bjarnason á Hoffelli var afi hans.
Eyjar Athöfnin byrjaði í Sagnheimum og lauk inni á Eiði þar sem afhjúpaður var minnisvarði um slysið. Afkomendur og náin skyldmenni þeirra sem fórust í sjóslysinu 16. desember 1924 og voru viðstödd athöfnina á Eiðinu að lokinni samkomu í Safnahúsinu. Frá vinstri Kristrún Axelsdóttir og dóttir hennar Unnur Sigmarsdóttir, en Halldór Gunnlaugsson héraðslæknir var afi Kristrúnar og langafi Unnar. Þá kemur Martea Guðmundsdóttir, en Guðmundur Guðjónsson frá Kirkjubæ var móðurbróðir hennar, og loks Einar Bjarnason, en Bjarni Bjarnason á Hoffelli var afi hans. — Morgunblaðið/Óskar Pétur Friðriksson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Árið sem nú er að líða hefur á margan hátt verið gott og gjöfult fyrir okkur sem erum svo heppin að búa hér í Vestmannaeyjum. Uppbygging og ný tækifæri eru að líta dagsins ljós og er framtíðin spennandi

Úr bæjarlífinu

Ómar Garðarsson

Vestmannaeyjum

Árið sem nú er að líða hefur á margan hátt verið gott og gjöfult fyrir okkur sem erum svo heppin að búa hér í Vestmannaeyjum. Uppbygging og ný tækifæri eru að líta dagsins ljós og er framtíðin spennandi. Að byggja upp gott samfélag er langhlaup og mikilvægt að halda áfram á þeirri braut sem við höfum verið á,“ segir Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri í jólakveðju sinni. Er hægt að taka undir með henni en óvissa er nokkur því enn hefur ný ríkisstjórn ekki sýnt á öll spilin í aukinni skattheimtu á atvinnuvegi sem eru hryggjarstykkið í sjávarbyggðum úti um land.

Á það bæði við um hefðbundinn sjávarútveg og fiskeldi á sjó og í landi. Útgerðin liggur vel við höggi því tekist hefur að draga upp mjög neikvæða mynd af greininni í heild. Látum þeim blæða, hefur verið boðskapur flokkanna sem nú skipa ríkisstjórn Íslands. Í baklandi þeirra er mikil andstaða við laxeldi í sjó og skilaboðin í stjórnarsáttmálanum eru: Hættið þessu brölti! Skiptir engu þótt greinin skili 50 milljörðum króna í útflutningstekjur á árinu sem nú er að renna sitt skeið.

Ekki ætla ég að gerast talsmaður útgerðarinnar en staðreyndin er að á 10-15 árum hefur sjávarútvegur tekið stórstígum framförum og fjárfest fyrir hundruð milljarða í nýjum og öflugri skipum og byggt upp landvinnslu í fremstu röð. Um leið hafa félögin skilað góðum hagnaði sem er eitur í beinum margra.

Hverju hefur þetta skilað þjóðarbúinu? Þær tölur er ég ekki með en stærri og öflugri skip hafa gert sjómönnum kleift að sækja lengra og stunda veiðar við erfiðari skilyrði en áður. Öryggið hefur aukist og starfsaldur sjómanna hefur lengst með bættum aðbúnaði. Líka betra hráefni sem með tæknivæðingu í landi er að skila margföldu verðmæti á hvert kíló af fiski úr sjó.

Fleiri greinar eru í sigti nýrrar ríkisstjórnar. Ferðaþjónusta, eins og sjávarútvegur, skiptir landsbyggðina miklu máli og hana vilja valkyrjurnar þrjár skattleggja aukalega. Þetta eru greinar sem eiga það sameiginlegt að vera í harðri samkeppni á alþjóðavettvangi. Kemur aukin skattheimta til með að draga úr þeim tennurnar í samkeppninni og uppbyggingu til framtíðar? Spyr sá sem ekki veit en þarna eru hagsmunir heilu sveitarfélaganna í húfi.

Í þjóðfélagi sem er í stöðugri leit að vandamálum er áhugavert að líta aftur í tímann. Mánudaginn 16. desember sl. var þess minnst í Vestmannaeyjum að 100 ár voru frá hörmulegu sjóslysi norðan við Eiðið þann dag árið 1924. Þá fórust átta menn við landsteinana, fyrir augum þeirra sem voru í fjörunni og áhafna þriggja skipa sem lágu í vari úti fyrir og eins vélbáts frá Eyjum. Mikil harmsaga sem Helgi Bernódusson, fyrrverandi skrifstofustjóri Alþingis, rekur í jólablaði Fylkis, blaðs sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum.

„Í slysinu létust bæði ungir og efnilegir menn sem og fjölskyldufeður og forustumenn í bæjarfélaginu, harðduglegir sjómenn sem sumir hverjir voru alvanir að brjótast út í skip í öllum veðrum og á öllum árstímum. Fimm konur urðu ekkjur á þessum degi, heimili þeirra misstu fyrirvinnu og 19 börn urðu föðurlaus. Mikill harmur ríkti í mörgum húsum í Vestmannaeyjum eftir þennan atburð sem snart Eyjabúa dýpra en flest önnur áföll sem orðið höfðu á sjó,“ segir Helgi í upphafi greinar sinnar í Fylki.

Á þriðja áratug síðustu aldar urðu einhver mestu sjóslys hér við land sem heimildir eru um. Á árunum 1922, 1923 og 1924 fórust samtals 233 sjómenn við Íslandsstrendur. „Þann 16. desember 1924, sama dag og slysið varð við Eiðið, fórust tveir vélbátar með allri áhöfn, Leifur frá Hnífsdal og Njörður frá Ísafirði, alls 23 menn. Á þeim sólarhring einum fórst því 31 maður á sjó,“ segir Helgi í Fylki.

Nú eru sjóslys fátíð en ef við lítum okkur nær þá fórust 34 íslenskir sjómenn örlagaárið mikla í sögu Vestmannaeyja, gosárið 1973. Þá stóðu Vestmannaeyingar andspænis ógnarkrafti náttúrunnar þegar byrjaði að gjósa og yfir 5.000 íbúar flýðu nóttina 23. janúar. Stærsta björgun Íslandssögunnar þar sem sjómenn og útgerðarmenn lögðust á eitt. Þriðjungur bæjarins fór undir hraun og ösku en Vestmannaeyjar risu upp. Vonandi gerist það sama í Grindavík þar sem staðan er þó öllu flóknari. Eldgosið á Heimaey 1973 hafði ákveðið upphaf og endi en því miður verður ekki sagt það sama um eldgosahrinuna á Reykjanesi.

Það er mikill heiður að fá að skrifa áramótapistil Bæjarlífsins og verður að virða til vorkunnar að vakin er athygli á þeirri óvissu sem við stöndum frammi fyrir með nýrri ríkisstjórn. Um leið er þeim stöllum óskað velfarnaðar í starfi. Þeirra er framtíðin en það er öllum hollt að líta til baka þegar hugað er að framtíðinni.

Höf.: Ómar Garðarsson