Landsmenn vilja eflaust margir hverjir hvíla sig á þungu og reyktu kjöti eftir veisluhöld jóla. Á milli jóla og nýárs leitar fólk gjarnan í ferskan og góðan fisk áður en kalkúnar og aðrar stórsteikur sveigja veisluborðin um áramót.
Nóg var að gera í Fiskbúðinni Hafbergi í Gnoðarvogi í gær en Hafberg er ekki eingöngu fiskbúð því boðið er upp á hádegisverð í búðinni alla virka daga milli klukkan 11.30 og 13.30.
Geir Vilhjálmsson, eigandi Fiskbúðarinnar Hafbergs, sagðist í stuttu spjalli við Morgunblaðið finna vel fyrir því að fólk sækti sérstaklega í fiskmeti á þessum tíma. Einnig minntist hann á talsverða humarsölu í búðinni og skyldi engan undra enda veisluhöld áramóta fram undan.