Fersk „Þrátt fyrir þessa vankanta er þetta kvikmynd sem vert er að mæla með fyrir áhorfendur sem leita að einhverju nýju og fersku,“ segir rýnir um söngvamyndina Emiliu Pérez eftir leikstjórann Jacques Audiard.
Fersk „Þrátt fyrir þessa vankanta er þetta kvikmynd sem vert er að mæla með fyrir áhorfendur sem leita að einhverju nýju og fersku,“ segir rýnir um söngvamyndina Emiliu Pérez eftir leikstjórann Jacques Audiard.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bíó Paradís Emilia Pérez ★★★·· Leikstjórn: Jacques Audiard. Handrit: Jacques Audiard og Boris Razon. Aðalleikarar: Zoe Saldana, Karla Sofía Gascón, Selena Gomez og Adriana Paz. Belgía, Frakkland, Mexíkó og Bandaríkin, 2024. 130 mín.

Kvikmyndir

Jóna Gréta

Hilmarsdóttir

Emilia Pérez er ný söngvamynd eftir leikstjórann Jacques Audiard sem var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni Cannes í vor. Þar hlaut Audiard dómnefndarverðlaunin fyrir myndina og leikkonuhópurinn vann saman verðlaunin fyrir bestu leikkonuna. Myndin sló einnig í gegn á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum þar sem hún var valin besta myndin og hlaut fern önnur verðlaun. Emilia Pérez er líka í fararbroddi á Golden Globe-kvikmyndahátíðinni með alls 10 tilnefningar og talið er myndin verði einnig sterkur keppinautur á Óskarnum.

Miðað við glæsilegar móttökur og dóma er ekki skrítið að einhverjir velti því fyrir sér hvaða mynd og hvers konar Emilia Pérez er. Kvikmyndin er söngvamynd en hún fjallar ekki um viðfangsefni sem er algengt að sjá í þeirri kvikmyndagrein. Myndin fjallar um eiturlyfjabarón og glæpaforingja sem dreymir um að hefja nýtt líf sem kona.

Emilia Pérez hefst á atriði þar sem áhorfendur kynnast annarri aðalpersónu myndarinnar, lögfræðingnum Ritu Moru Castro (Zoe Saldana), sem er að verja frægan fjölmiðlamógúl í morðmáli. Rita færir rök fyrir því í málinu að eiginkonan hafi framið sjálfsmorð og vinnur málið en er haldin mikilli sektarkennd vitandi það að fjölmiðlamógúllinn myrti konu sína. Í kjölfar málsins er Ritu boðið á leynilegan fund með hinum fræga eiturlyfjabaróni og glæpaforingja Juan Manitas Del Monte (Karla Sofía Gascón), sem er með mjög persónulega beiðni, Manitas vill fara í leynilega kynleiðréttingu. Rita er treg til að samþykkja beiðnina en gerir það vegna þess að það er mikið upp úr því að hafa og hana grunar að hún hafi ekki mikið val ef hana langar að halda lífi. Manitas fer í aðgerðina og tekur upp nýja nafnið Emilia Pérez (Karla Sofía Gascón) og skilur alfarið við fortíðina og fyrra sjálf. Áhorfendur halda í fyrstu að Manitas sé að fara í kynleiðréttingu til þess eins að geta sviðsett eigin dauða og sloppið þannig við að þurfa að taka nokkra ábyrgð á gjörðum sínum. Leikstjórinn, Audiard, útilokar aldrei alveg þá tilgátu því hann eyðir mjög litlum tíma í að sýna raunverulega kynvitund Emiliu, þ.e.a.s. að Manitas upplifi sig sem konu, með því að leyfa áhorfendum og Ritu að halda að kynleiðréttingin sé aðeins flóttaleið undan ábyrgð en ekki raunverulegur vilji aðalpersónunnar. Kvikmyndin tekur þannig þátt í þeirri skaðlegri orðræðu, ómeðvitað eða ekki, að trans konur séu aðeins karlmenn í dularbúningi.

Allir halda að Manitas sé látinn, meira að segja eiginkona hans, Jessi (Selena Gomez), og börnin sem Rita flytur til Sviss, samkvæmt beiðni Manitas/Emiliu, til að halda þeim öruggum. Fjögur ár líða og Rita heyrir ekkert frá Emiliu þar til einn daginn að þær hittast og það er ekki fyrir tilviljun. Atriðið er eitt það sterkasta í myndinni. Ástæðan fyrir því er að í byrjun þekkir Rita ekki Emiliu, þótt áhorfendur geri það, og það er því ótrúlega gaman að sjá hvernig andlit leikkonurnar Zoe Saldana, sem leikur Ritu, breytist smátt og smátt þegar hún uppgötvar það. Á augabragði verður atriðið mun þyngra því bæði áhorfendur og Ritu grunar að Emilia sé komin til að ganga frá lausum endum og drepa Ritu. Lýsing breytist úr því að vera hlý í að vera köld og við tekur söngatriði þar sem Rita spyr hvort hún sé komin til þess að drepa sig en svo reynist ekki vera. Emilia er ekki komin til að drepa Ritu heldur saknar hún fjölskyldu sinnar og vill að Rita sameini þau og í kjölfarið verður lýsingin aftur hlý.

Áhorfendur og Rita átta sig á því fljótlega að Emilia er breytt. Hún er staðráðin í að bæta fyrir fortíð sína og notar sambönd sín til að koma á fót félagasamtökum, með hjálp Ritu, sem hafa uppi á týndum fórnarlömbum glæpagengja í von um að færa fjölskyldum þeirra einhvern frið. Emilia er ekki lengur hinn morðóði glæpaforingi sem áhorfendur og Rita kynntust í byrjun – eða hvað? Er eitthvað eða einhver sem gæti dregið upp þá illu hlið sem býr innra með Emiliu Pérez? Þau atriði eiga sér stað, þ.e.a.s. þar sem Emilia sýnir sitt rétta eðli, en þá verður röddin dýpri og hún verður ofbeldisfull í garð Jessi. Þessi atriði styðja enn frekar við fyrrnefnda hugmynd rýnis um að myndin taki þátt í skapa skaðlega orðræðu um trans fólk. Með þessum atriðum er til dæmis gefið til kynna að sískonum stafi ógn af trans konum þar sem ekki sé um að ræða konur heldur karla að leika konur.

Hins vegar væri hægt að horfa á myndina í öðru ljósi og færa rök fyrir því að myndin sé ekki að gera lítið úr kynvitund aðalpersónunnar heldur sé markmiðið að sýna að trans konur geti verið alls konar, líka glæpaforingjar. Það er einnig gaman að sjá að það er raunveruleg trans kona, Karla Sofía Gascón, sem leikur aðalhlutverkið enda skiptir það máli hverjir fá að miðla áfram sögu trans kvenna. Það er þó takmarkað hægt að fela sig á bak við það.

Emilia Pérez er mjög frumleg og óhætt að segja að myndin eigi engan sinn líka enda ekki margar söngvamyndir sem fjalla um glæpaforingja sem fer í kynleiðréttingu. Tónlistin og lögin, eftir Clément Ducol og Camille, og dansatriðin, eftir Damien Jalet, eru til dæmis ólík því sem áhorfendur þekkja úr öðru söngvamyndum. Atriðin eru fléttuð inn í verkið á mjög áhrifaríkan hátt en yfirleitt hafa þessi atriði einhvern pólitískan boðskap eins og til dæmis að gagnrýna spillingu mexíkóskra leiðtoga. Líklega hefur sá sem hélt á tökuvélinni þurft að dansa talsvert líka þar sem hreyfingar tökuvélarinnar eru mjög mjúkar og í takt við dansinn, sem gerir dans- og söngatriðin enn sterkari.

Í heild er Emilia Pérez eftir Jacques Audiard mjög frumleg kvikmynd með vel útfærðum og glæsilegum dans- og söngatriðum. Þó að það mætti túlka sem svo að myndin styddi við staðalímyndir trans fólks, þá er það ekki helsti galli hennar. Það sem dregur hana niður er hversu óspennandi hún er; tempóið í klippingunni er allt of hægt og atriðin verða oft langdregin og þunglamaleg. Frammistaða aðalleikkvennanna, Zoe Saldaña, Körlu Sofíu Gascón og Selenu Gomez, er í grunninn góð, en leikurinn hefði mátt njóta sín betur með örari klippingu. Þrátt fyrir þessa vankanta er þetta kvikmynd sem vert er að mæla með fyrir áhorfendur sem leita að einhverju nýju og fersku í bíósalnum eða fyrir þá sem hafa sérstakan áhuga á tónlist og dansi, þar sem þau atriði standa hvað mest upp úr. Rýnir á þó erfitt með skilja þessi hrikalega góðu viðbrögð við myndinni á kvikmyndahátíðum.