Íslendingalið Melsungen er áfram á toppi þýsku 1. deildarinnar í handknattleik karla eftir að hafa unnið sterkan útisigur á Göppingen, 29:25, í gærkvöldi. Melsungen er með 30 stig, fjórum stigum meira en Füchse Berlín, Kiel og Hannover-Burgdorf í sætunum fyrir neðan.
Arnar Freyr Arnarsson skoraði tvö mörk fyrir Melsungen í gærkvöldi en Elvar Örn Jónsson var fjarri góðu gamni vegna meiðsla. Ekki er vitað hversu alvarleg meiðslin eru en íslenska landsliðið kemur saman til æfinga fyrir HM 2025 þann 2. janúar næstkomandi.
Ýmir Örn Gíslason skoraði eitt mark fyrir Göppingen.
Ekkert varð af kveðjuleik Viggós Kristjánssonar hjá Leipzig þegar liðið tapaði fyrir Hannover-Burgdorf, 30:32. Hvorki hann né Andri Már Rúnarsson voru í leikmannahópi Leipzig, sem Rúnar Sigtryggsson þjálfar. Viggó skiptir til Erlangen um áramótin og átti leikurinn í gærkvöldi að vera formlegur kveðjuleikur skyttunnar.
Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf, sem er í fjórða sæti með 26 stig, fjórum á eftir toppliði Melsungen.