EM Þórir Hergeirsson við störf á sínu síðasta Evrópumóti fyrr í mánuðinum.
EM Þórir Hergeirsson við störf á sínu síðasta Evrópumóti fyrr í mánuðinum. — Ljósmynd/Jon Forberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson lauk 15 og hálfs árs starfi sem þjálfari norska kvennalandsliðsins í handknattleik með því að vinna til sjötta Evrópumeistaratitilsins með liðinu á áttunda Evrópumótinu í Austurríki fyrr í mánuðinum

Noregur

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson lauk 15 og hálfs árs starfi sem þjálfari norska kvennalandsliðsins í handknattleik með því að vinna til sjötta Evrópumeistaratitilsins með liðinu á áttunda Evrópumótinu í Austurríki fyrr í mánuðinum.

„Þetta er góð tilfinning og eiginlega framar vonum. Við vissum náttúrlega ekki alveg hvernig þetta myndi þróast. Við vissum að við værum með lið sem gæti farið alla leið en að sama skapi líka endað í fimmta, sjötta eða sjöunda sæti, eitthvað svoleiðis.

Síðan gekk þetta bara mjög vel. Liðið bætti sig eftir því sem leið á mótið og við spiluðum betur og betur. Þetta var mjög góð þróun,“ sagði Þórir í samtali við Morgunblaðið.

Hann stóð frammi fyrir almennilegri áskorun fyrir EM þar sem fjórir lykilmenn úr liðinu sem vann ólympíumeistaratitilinn í sumar, þær Stine Oftedal, Nora Mörk, Veronica Kristiansen og Vilde Ingstad, voru allar fjarverandi á Evrópumótinu nú í vetur.

Höfum lent í því áður

Oftedal hætti handknattleiksiðkun eftir ólympíugullið í sumar, Mörk og Kristiansen eru báðar barnshafandi og Ingstad er með slitið krossband í hné.

Spurður hvers konar áskorun það hefði verið fyrir hann að þurfa hálfpartinn að setja saman nýtt lið fyrir EM sagði Þórir:

„Við höfum svo sem lent í því áður en við erum búin að vera með fast lið dálítið lengi núna. Þetta var í fyrsta skipti síðan um það bil 2019 sem það urðu svona stórar breytingar. Það gekk bara mjög vel.

Varnarleikurinn og markvarslan var stöðug allan tímann enda vorum við náttúrlega ekki búin að missa mikið úr þeim hlutanum. En við vorum búin að missa mikilvæga pósta úr sóknarleiknum. Það var svolítið upp og niður en mér fannst það þróast vel. Það var eiginlega framar vonum allt mótið. Það var mjög jákvætt.“

Mun sakna þessa góða fólks

Eftir að hafa unnið sitt annað ólympíugull með Noregi í París í sumar tilkynnti Þórir í september að Evrópumótið yrði hans síðasta með liðið. Auk 15 og hálfs árs við stjórnvölinn var Þórir aðstoðarþjálfari kvennaliðsins í átta ár, frá 2001 til 2009, og vann hann því fyrir norska handknattleikssambandið í tæp 24 ár.

Hvernig er að hugsa til þess að starfi þínu hjá Noregi sé lokið?

„Það er góð spurning. Ég ákvað nú sjálfur að hætta þannig að ég get ekkert kvartað yfir því. Þetta er búið að vera gott held ég. Ég sá ekki fyrir mér að vera í fjögur ár í viðbót og vera á næstu Ólympíuleikum þannig að þetta var mjög góð ákvörðun.

Svo verður maður bara að taka afleiðingunum af því. Það er ekkert hægt að vera með þegar það hentar og ekki þegar það hentar ekki þannig að þetta er allt í góðu.

Ég á ábyggilega eftir að sakna þessa góða fólks sem var í kringum mig, leikmannanna og allra. Maður eyðir bara tímanum í eitthvað annað. Síðan heldur þetta lið áfram að berjast um titla og verðlaun, ég er alveg handviss um það,“ sagði hann.

Margar hendur og höfuð

Þórir skilur við norska liðið sem sigursælasti landsliðsþjálfari heims. Á 20 stórmótum vann liðið til 17 verðlauna undir hans stjórn, þar af 11 gullverðlauna, þrennra silfurverðlauna og þrennra bronsverðlauna. „Versti“ árangurinn var fimmta sæti á tveimur mótum.

„Maður hefur það með sem veganesti úr uppeldinu, frá barnsárunum, að vera auðmjúkur en ég er mjög stoltur af því. Þetta er ekki einhver eins manns sýning. Þetta er mikil teymisvinna og liðsheild sem stendur á bak við þennan árangur og hefur alltaf gert.

Ég hef haft þá ánægju og gleði að hafa verið yfirmaður yfir þessu og bera ábyrgðina. Þá hefur maður reynt að ýta fólki á undan sér, ganga fremst þegar það hefur þurft og vera aftastur í hópnum þegar það er hægt.

Þetta er náttúrlega mjög góður árangur og ég er mjög stoltur af honum. En eins og ég segi eru þetta ótrúlega margar hendur og höfuð sem hafa komið að þessari vinnu,“ sagði Þórir um hvað honum þætti um að vera sigursælasti landsliðsþjálfari frá upphafi.

Þegar sigrarnir eru þetta margir og glæsilegir gæti það reynst erfitt að velja eitthvað ákveðið sem stendur upp úr á þjálfaraferlinum með norska kvennalandsliðið. Er Þórir var spurður hvað honum þætti standa upp úr nefndi hann þrennt:

„Það sem stendur upp úr er þessi ákvörðun að taka við liðinu 2009. Þegar ég fékk boltann og fékk möguleikann á því að taka við þessu liði. Ég var í rauninni fljótur að ákveða mig þá. Það voru einhverjir tveir dagar þar sem maður var aðeins að spá í hvort það væri rétt að fara í þetta. Þetta lið hafði náttúrlega unnið mikið og var búið að vera við toppinn árin á undan. Mér fannst þetta vera áskorun og þekkti þetta auðvitað vel af því að ég var búinn að vera við hliðina á Marit [Breivik] í átta ár. Þannig að ég hoppaði bara í þetta. Ég hugsa að það sé það sem stendur upp úr, að maður kastaði sér í þetta og ég hef ekki séð eftir því.

Síðan eru náttúrlega þessi tvö ólympíugull sem eru mér ofarlega í huga. Þetta voru tvær leiðir að ólympíugulli sem voru mjög ólíkar. Árið 2012 var það bara barningur og erfitt mót, mikið mótlæti. Við náðum að berjast í gegnum það og koma okkur í úrslitaleik og vinna hann, sem var mjög sterkt.

Svo voru Ólympíuleikarnir í sumar. Jú, við töpuðum fyrsta leiknum fyrir Svíum, hentum þeim leik frá okkur. En eftir það var ekkert litið til baka. Við vorum bara á sigurbraut í öllum hinum leikjunum. Þetta voru mjög mismunandi leiðir að ólympíugulli.“

Spáði aldrei í það

Þegar Þórir tók við starfinu árið 2009 voru norskir fjölmiðlar margir hverjir efins um að rétt væri að ráða erlendan þjálfara í starfið. Hann lét þá umræðu hins vegar ekki mikið á sig fá.

„Það er eins og alltaf, það eru allir með skoðanir á öllum. Það er komið svo mikið af álitsgjöfum, það verður ekki þverfótað fyrir þessu. Það eru álitsgjafar á álitsgjafa ofan og ég veit ekki hvað og hvað. Ég skil bara ekki hvernig er hægt að borga öllu þessu fólki laun!

Úr gamni í alvöru þá er það bara eins og það er. Sumir vilja hafa þennan og aðrir vilja hafa einhvern annan. Það er nú oft þannig að landslið og þjóðir vilja hafa heimamann eða -konu sem þjálfara fyrir landslið.

Það eru margir sem vilja það. Ég spáði nú ekkert mikið í það. Mér var boðin þessi staða, þakkaði bara fyrir, sagði já takk, og hef eiginlega aldrei velt því neitt frekar fyrir mér.

Ég hef aldrei fundið neitt fyrir því, hvorki hjá handboltasambandinu né leikmönnum eða öðrum. Þetta var meira í fjölmiðlum. Eins og alltaf eru einhverjir sem eru með aðrar skoðanir. Það þýðir ekkert að láta það vera að hafa of mikil áhrif á sig,“ sagði Þórir.

Ákvað að stressa mig ekki

Í samtali við mbl.is fyrr í mánuðinum sagði Þórir frá því að til stæði að taka sér frí í janúar og febrúar að mestu og sagði þá einnig að mögulegt væri að næsta starf yrði í einhverju öðru en þjálfun.

Ertu einhverju nær um hvort næsta starf verði í þjálfun eða einhverju allt öðru?

„Nei, ég er það nú ekki. Ég er bara búinn að ýta frá mér öllum spurningum um þjálfun á þessu tímabili. Síðan er ég búinn að biðja um að fá að ræða við fólk í janúar og febrúar. En ég veit ekki núna hvort það verði einhver þjálfun á næsta tímabili.

Ég ætla ekki að útiloka neitt en það gæti alveg eins verið að ég snúi mér að einhverju allt öðru. Það er líka í kortunum. Ég þarf bara að skoða þetta vel,“ sagði Þórir og bætti við að honum lægi ekkert á að taka ákvörðun.

„Ég ákvað að vera ekkert að stressa mig, að vera ekkert að flýta mér að taka að mér einhver verkefni heldur njóta aðeins tímans þar til þetta róast til þess að hugsa málið.“

Flyt ekki heim til Íslands

Nú þegar Þórir er laus allra mála þótti blaðamanni lag að spyrja hvort íslensk íþróttafélög, stofnanir eða fyrirtæki væru búin að setja sig í samband við hann til þess að ræða um möguleikann á að hann tæki við starfi hér á landi.

„Það hefur nú stundum komið fyrir. Það hafa verið símtöl frá Íslandi í gegnum árin en það hefur einhvern veginn verið þannig að ég hef verið í góðri vinnu og því ýtt öllu slíku frá mér. Ég er ekkert að fara að flytja heim til Íslands.

Konan mín vill ekki búa á Íslandi þannig að maður væri ekkert að koma heim nema bara í heimsókn. Maður reynir náttúrlega að komast eins oft og hægt er en ég efast um að ég eigi eftir að flytja heim. Ekki nema hún skipti um skoðun. Það er aldrei að vita,“ sagði Þórir Hergeirsson að lokum í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson