Tilbúin mynd af Shackleton-gígnum á suðurskauti tunglins gerð með upplýsingum frá tunglrannsóknarhnetti NASA. Vísindamenn telja að nógu kalt gæti verið í dældum á þessu svæði til að þar hafi leynst vatn í milljónir ára.
Tilbúin mynd af Shackleton-gígnum á suðurskauti tunglins gerð með upplýsingum frá tunglrannsóknarhnetti NASA. Vísindamenn telja að nógu kalt gæti verið í dældum á þessu svæði til að þar hafi leynst vatn í milljónir ára. — NASA Scientific Visualization Studio via The New York Times
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á þessum vendipunkti í sögu geimkönnunar, þar sem mannkynið færir sig frá jörðunni í átt að því að eiga heima á fleiri en einum hnetti, hef ég helgað mig því að tryggja að geimurinn verði áfram svæði þar sem friður og aðgengi ríkir. Það verkefni hefst á tunglinu okkar.

Michelle Hanlon

er framkvæmdastjóri miðstöðvar um loft- og geimferðalög við Háskólann í Mississippi og einn stofnenda samtakanna Fyrir allt tunglkyn.

Ég trúi því að við getum í alvörunni náð fram heimsfriði á jörðu – og jafnvel á öðrum hnöttum. Kannski er það barnalegt, en ég var nógu lánsöm til þess að fæðast inn í heim þar sem mikil fjölbreytni ríkir, sem veitir mér sífelldan innblástur.

Móðir mín er frá bæ í nágrenni Sjanghæ og faðir minn er af pólskum uppruna. Þau giftust, af merkri tilviljun, á sama degi og sovéska geimfarið Luna-2 brotlenti á tunglinu, en það var fyrsta skiptið sem mannkynið markaði spor sín á öðrum himinhnetti. Faðir minn gekk til liðs við bandarísku utanríkisþjónustuna skömmu síðar, og ég eyddi æsku minni flytjandi milli Afríku, Austur-Evrópu og Asíu, þar sem ég sótti alþjóðlega skóla og myndaði tengsl við skólafélaga mína sem komu alls staðar að. Þó að menningarleg tengsl okkar væru hjá ólíkum þjóðum vorum við bundin saman af lífi okkar á þessari fallegu jörð.

Of margir átta sig ekki á því að þau tengsl eru alþjóðleg.

Í starfi mínu sem geimlögfræðingur þarf ég að sigla í gegnum hinn lögfræðilega flókna ólgusjó sem fylgir ferðalagi mannkynsins frá jörðunni, og tekst á við áskoranir á borð við geimrusl á sporbaug, einkaeignarrétt í geimnum, nýtingu á auðlindum geimsins og meira. Á þessum vendipunkti í sögu geimkönnunar, þar sem mannkynið færir sig frá jörðunni í átt að því að eiga heima á fleiri en einum hnetti, hef ég helgað mig því að tryggja að geimurinn verði áfram svæði þar sem friður og aðgengi ríkir. Það verkefni hefst á tunglinu okkar.

Þó að nokkrar geimferðir hafi haft fylgihnöttinn okkar sem markmið á þessari öld, hefur hraðinn í tunglkönnun aukist gríðarmikið á undanförnum áratug, sérstaklega eftir að indverska geimfarið Chandrayaan-1 staðfesti að vatn væri til staðar á yfirborði tunglsins árið 2008. Á næstu árum náðu eða reyndu Kínverjar, Rússar, Indverjar og Japanir að lenda geimfari á tunglinu. Og á árinu 2024 var sögulegum áfanga náð: Intuitive Machines varð fyrsta einkarekna fyrirtækið án tengsla við ríkisvald til þess að ná mjúkri lendingu á tunglinu, og var sú lending næst suðurpól tunglsins sem mannkynið hefur náð til þessa. Síðar á sama ári sáum við sjötta vélmenni Kínverja lenda á tunglinu og fyrstu sýnin sem fengin voru frá fjarhlið tungslins. Margar fleiri geimferðir eru ráðgerðar til tunglsins áður en áratugurinn er úti, þar á meðal mannaðar geimferðir frá bæði Kínverjum og Bandaríkjamönnum.

Er þetta farið að líta út eins og samkeppni? Það ætti að gera það.

Þegar foreldrar mínir fluttu til Peking árið 1980 varð ég vitni að hinni fljótu nútímavæðingu Kína. Tilfinningin um að landið væri í eltingarleik við Vesturlönd var áþreifanleg og framþróunin næsta áratuginn var ótrúleg.

Á meðan ég var bæði hissa og jafnvel skömmustuleg vegna hinna litlu lífsgæða í Peking á þessum árum, var ég enn meira forviða á þeim líkindum sem eru með öllum mönnum, sem hefja sig yfir öll landamæri. Eina heita sumarnótt, þegar við gengum um Torg hins himneska friðar, voru borin kennsl á mig og bróður minn sem „mei guo ren“ eða Bandaríkjamenn, aðallega því að við vorum ekki klædd í hina einsleitu Mao-jakka sem Kínverjar tóku upp á tímum menningarbyltingarinnar. Og fólk flykktist til okkar – með opnum hug, forvitin og æst í að æfa enskukunnáttu sína.

Ég varð einnig vitni að bakslaginu sem fylgdi þessari hröðu nútímavæðingu. Vorið 1989 bergmálaði Torg hins himneska friðar – þar sem ég og bróðir minn höfðum einu sinni verið boðin velkomin – af slagorðum sem hugrakkir og ástríðufullir stúdentar hrópuðu, þar sem lögð var fram öflug sýn um framtíð vonar og frelsis. Einungis nokkrum dögum síðar voru raddir þeirra kæfðar með grimmilegu ofbeldi. Þeir voru á mínum aldri.

Því miður heldur ofbeldi áfram að plaga jörðina okkar, oft í nafni frelsis. Er það furða að við horfum til stjarnanna, líkt og mennirnir hafa gert í þúsundir alda, og leitum þar að hugarró? Á sama tíma og ég er „utanríkisþjónustukrakkaormur“ er ég líka barn þeirrar framtíðarsýnar sem sést í Star Trek. Kyn mitt og kynþáttur skiptu þar engu máli, ég sá mig samt fyrir mér í hverju einasta hlutverki á geimskipinu Enterprise sem fulltrúi sameinaðs mannkyns. Það er framtíðin sem ég vildi búa í. Það er framtíðin sem ég er að reyna að búa til. Hinar hröðu tækniframfarir sem ég sá umbreyta Kína á níunda áratugnum hafa einungis orðið hraðari á síðustu árum. Í dag vill kínverski kommúnistaflokkurinn leiða heiminn í geimferðum, og gera þar ráð fyrir bækistöð á tunglinu sem upphafið að því að kanna og ná mikilvægum auðlindum frá smástirnum og öðrum himinhnöttum. Aðgangur að vatni á suðurpól tunglsins er lykilatriði í þeirri framtíðarsýn; Sá sem kemst þangað fyrstur fær „montréttinn“ og um leið umtalsverða lagalega yfirburði. Þó að alþjóðalög segi að ríki geti ekki gert tilkall til svæða í geimnum, segja þau einnig að veita verði aðgerðum allra „tilhlýðilega virðingu“. En engin lagaleg skilgreining er til á „tilhlýðilegri virðingu“, þannig að fyrsta ríkið sem setur upp námuvinnslu á tunglinu gæti nýtt sér hugtakið til þess að krefjast þess að enginn annar sem starfar í geimnum komi innan einhverra metra frá sínum löndunarstað eða tunglnámu.

Áhrifin af þróun tunglsins á næstu áratugum gætu orðið byltingarkennd. Að ná getunni til þess að nýta auðlindir frá öðrum himinhnöttum mun breyta mannkyninu algjörlega og á óafturkræfan hátt. Fyrsta tæknibyltingin, að búa til verkfæri, skilgreindi mannkynið. Landbúnaðarbyltingin ýtti undir þorp, borgir og menningu okkar. Iðnbyltingin og stafræna byltingin hafa skapað hið alþjóðlega hagkerfi dagsins í dag. En geimbyltingin er að leiða mannkynið á algjörlega nýja og óþekkta braut.

Það er braut sem veitir einstakt tækifæri til þess að sameina okkur. Þar sem við horfum til tunglsins og handan þess, höfum við færi á að rækta alþjóðlega samvinnu og sameiginleg markmið og hefja okkur yfir jarðneskan ágreining okkar. Í alheiminum handan jarðar, hvernig munum við stýra aðgengi að takmörkuðum auðlindum, ýta undir sjálfbærni og tryggja þjóðaröryggi og varnir? Áskoranirnar sem við stöndum frammi fyrir í geimnum eru eins og smækkuð mynd af þeim, sem við stöndum frammi fyrir á jörðunni, og lausnirnar sem við finnum fyrir einn heim geta hjálpað til við að leysa vandamálin í hinum.

Ég trúi að við getum búið okkur framtíð þar sem geimurinn er aðgengilegur öllum, þar sem tunglið er vettvangur friðsamlegrar samvinnu og stjörnurnar veita okkur innblástur til þess að vera besta útgáfan af sjálfum okkur. En það krefst þess að grunnurinn sé lagður núna með alþjóðlegri samvinnu og samstarfi – sem brúar bilið milli ríkja og menningarheima. Og einn dag munu afkomendur okkar – hvort sem þeir koma frá Kína, Póllandi, Bandaríkjunum eða einhvers staðar annars staðar – halda fram gildum jarðarinnar á heimilum sínum á Mars og öðrum hnöttum, sameinaðir í því sameiginlega markmiði að kanna og nýta hinar gríðarlegu auðlindir geimsins til að betrumbæta allt mannkyn.


©2024 The New York Times Company og Michelle Hanlon