Alicia Malone
Vinna mín snýst um að horfa á bíómyndir þannig að það mætti ætla að ég væri aldrei í vandræðum með að finna eitthvað til að horfa á. En eins og svo mörg okkar hef ég glatað óteljandi klukkustundum í að leita án árangurs. Það getur verið yfirþyrmandi að þræða sig gegnum endalaus öpp og rásir. Það er engin uppröðun á efninu. Þar sem öllu ægir saman fær maður samtímis á tilfinninguna að það sé of mikið til að horfa á og ekkert almennilegt til að horfa á.
Algoritmarnir, sem mæla með myndum, eru ekki svarið; ég hef aldrei skilið hvers vegna þeir koma með tillögur um myndir sem eru alveg eins og sú sem maður var að horfa á. Hin sanna ánægja af því að horfa á bíómyndir hlýtur að liggja í að uppgötva eitthvað nýtt: finna mynd sem maður hefur aldrei heyrt um en verður ný uppáhaldsmynd; að sogast inn í sögu sem verður til þess að þú sérð umfjöllunarefnið í nýju ljósi; sjá mynd sem fellur ekki að smekk manns en fjallar um efni, sem hægt er að ræða við vinina. Ég mun aldrei gleyma þegar ég sá fyrst Leave Her to Heaven í sjónvarpi og hversu heilluð ég var af andliti Gene Tierney þegar hún framdi sín myrkaverk í æpandi litum. Ég hafði ekki áttað mig á að rökkurmyndir gætu verið litríkar og líkt og Dorothy í Galdrakarlinum frá Oz leið mér eins og heimur minn væri að skipta úr svart/hvítu í lit og stækkaði með hverri nýrri mynd, sem ég uppgötvaði.
Þegar ég hef ákveðið á hvað ég ætti að horfa hef ég alltaf treyst á ráð sérfræðinga til að hjálpa mér að komast út úr þægindahringnum mínum. Þegar ég var unglingur og fór í næstu vídeóleigu í Canberra í Ástralíu tók ég með mér snjáða eintakið mitt af kvikmyndaleiðarvísi Leonards Maltins og tók einnig til greina myndirnar sem starfsfólkið mælti með. Tækni nútímans hefur hins vegar orðið til þess að það er hending að maður treysti á meðmæli frá fólki.
Í glundroða hinna fjölmörgu streymisveitna, sem bjóða upp á að því er virðist endalaust úrval, er að finna kapalstöðina Turner Classic Movies – þar sem ég vinn sem þáttastjórnandi. Hún er ein af örfáum rásum þar sem maðurinn hefur enn stjórnina. Streymisveitan Criterion Channel er önnur. Báðum rásum stjórna sérfræðingar um kvikmyndir með margra ára uppsafnaða þekkingu. Þeir velja myndirnar sjálfir og setja þær þemabundið á dagskrá. Þar sem auðvelt er að rata um þessar stöðvar ýta þær undir að fólk finni eitthvað nýtt, hvort sem það eru kvikmyndaáhugamenn eða nýgræðingar. Jafnvel eftir að hafa unnið fyrir TCM í sex ár rekst ég enn á myndir í sýningu á stöðinni sem ég hef aldrei séð áður.
Þótt sjálfsafgreiðsla sé að verða viðtekin og gervigreind að ná yfirráðum vona ég að hæfnin til að búa til bíómyndadagskrá glatist ekki. Sérhæft val getur verið fullt af ósamræmi og hreinni eðlisávísun, en tæknin getur ekki leikið það eftir.
(Alicia Malone er þáttastjórnandi hjá Turner Classic Movies.)
© 2024 The New York Times Company og Alicia Malone