Sigurbjörn Skarphéðinsson
Sigurbjörn Skarphéðinsson
Mikilvægt er að því sé komið skýrt í lög að kostnaði vegna sorphirðu verði skipt jafnt á allar fasteignir í fjöleignarhúsi.

Sigurbjörn Skarphéðinsson

Nýlega kom á mitt borð mál sem varðaði skráningu á fjölda sorptunna í sorptunnugeymslu fjölbýlishúss á höfuðborgarsvæðinu en framkvæmd innheimtunnar og skipting gjaldanna kom mér verulega á óvart. Gerði ég örkönnun hjá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu um skiptingarreglu gjalda í slíkum húsum. Öll hafa svarað erindinu nema eitt, sem aðeins hefur svarað að hluta.

Er ég þá aðeins að tala um kostnað við tunnur, stærri og minni kör og djúpgáma sem tengjast íbúðafjölbýli, ekki um atvinnuhúsnæði og ekki sorpeyðingargjöld sem sveitarfélögum er heimilt að innheimta sem hlutfall af heildarkostnaði sorphirðunnar.

Það sem ég taldi einfalda útfærslu hefur reynst nokkuð flókið kerfi og mismunandi útfærslur milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem öll eru þó í samstarfi um meginmarkmið sorphirðu. Kostnaður er mjög mismunandi, mismunandi skýrt upplýstur og innheimtuaðferð ekki samræmd milli sveitarfélaganna.

Það sem olli mér þó langmestum efasemdum um réttmæti framkvæmdarinnar er hvernig sorphirðugjöldum er skipt milli eigna í fjöleignarhúsum með íbúðum sem reka sameiginlega sorptunnugeymslu. Sum sveitarfélög jafnskipta gjöldum þannig að allar íbúðir í fjöleignarhúsinu greiða jafn há sorptunnugjöld, miðað við ákveðinn fjölda tunna sem notaðar eru í sorptunnugeymslu hússins, það tel ég rétta reglu. Önnur sveitarfélög hlutfallsskipta sorphirðugjöldunum þannig að stærsta íbúðin í húsinu greiðir hæstu gjöldin og sú minnsta minnst. Það tel ég ekki standast samkvæmt 45. gr. fjöleignarhúsalaga. Ef skipta ætti sorphirðugjöldum eftir stærðum eigna ætti líka að gera það í sérbýlum en það er ekki gert. Stór sérbýli borga það sama og lítil sérbýli.

Sorphirðugjöld í fjöleignarhúsi eru sameiginleg rekstrargjöld í húsfélagi en ekki skattur, þó að sveitarfélagið innheimti gjöldin og beri ábyrgð á framkvæmdinni, ýmist með því að sjá sjálft um sorphirðuna, eins og Reykjavíkurborg, eða vera með verktaka í sorphirðunni eins og Kópavogsbær.

Sorptunnugeymsla í húsfélagi er rekin af húsfélaginu, sem ákveður fjölda tunna í hverri sorptunnugeymslu og hverjum flokki, en ekki einstakir eigendur eigna. Þá er reynt að komast af með eins fáar tunnur og mögulegt er því það er kostnaðarsamt og óþarft að vera með sumar kannski tómar eða hálftómar. Sérstaklega er mikilvægt að gráu tunnurnar séu eins fáar og hægt er vegna þess hve há afnotagjöld eru reiknuð vegna þeirra.

Margir eigendur fasteigna fylgjast ekki nægjanlega með sundurliðunum í innheimtuseðlum sveitarfélaga, þar sem blandast saman fasteignagjöld hvers árs og sorphirðugjöld. Í umræðunni er allt sagt fasteignagjöld, ranglega. Seðlarnir eru sendir rafrænt og of margir viðtakendur lesa þá ekki. Sumir eru jafnvel ekki í aðstöðu til að ná í þá.

Sorphirðugjöld eru ekki innheimt með sérstökum seðli þar sem nákvæmlega er skilgreint hve margar tunnur eru í notkun og í hvaða lit. Nú er útreikningurinn í sumum tilfellum sýndur með óræðu magntöluhlutfalli sem útskýrir í raun ekkert og viðtakendur hafa ekki aðstöðu til að meta réttmætið vegna óskýrleikans.

Þessi gjöld ætti að innheimta beint hjá húsfélögum og í sumum tilfellum lóðarfélögum, þar sem reknar eru sorptunnugeymslur, í stað hvers fasteignareiganda fyrir sig. Þannig fæst betri yfirsýn yfir heildarkostnað rekstrar sorptunnugeymslunnar og hægt að fjalla um hann á raunhæfum grunni á húsfundum. Það myndi líka sýna eigendum fram á kosti þess að gæta ýtrustu hagkvæmni í þessum málaflokki. Til dæmis er mun dýrara að hafa gráa tunnu en græna, bláa eða brúna. Góð flokkun lækkar kostnað umtalsvert. Framkvæmd innheimtu í dag er ekki skynsamleg nálgun á þeim þjónustugjöldum sem sorphirðugjöldin eru.

Sorphirðugjöldin falla ótvírætt undir B-lið 45. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994, sem fjallar um ýmsa rekstrarþætti svo sem þrif sameignar og rekstur lyftu. Þá segir í C-lið 45 gr.: „Kostnaði, hver sem hann er, skal þó jafnan skipta í samræmi við not eigenda ef unnt er að mæla óyggjandi not hvers og eins.“ Sorp er ekki hægt að mæla „óyggjandi“ frá hverri íbúð hússins og því þarf að byggja innheimtu á forsendu ómælanleikans. Það er ekki sjálfgefið að frá stærstu íbúðinni komi mesta sorpið. Sorpmagnið ræðst af lífsstíl, svo og samvisku- og hirðusemi íbúanna. Því miður er ekki til einn samræmdur skilningur þar á.

Líklega er innheimtan svona vegna þess að það hefur alveg gleymst að tengja þennan þátt, sorphirðuna, við rekstur húsfélaga. Sorphirðugjöld eru ekki tilgreind sérstaklega í kostnaðarskiptingarreglunum í 45. gr. fjöleignarhúsalaganna. Í B-lið 45. gr. 5. tl. segir: „Allur sameiginlegur rekstrarkostnaður, svo sem rafmagn, hiti og vatn í sameign og umhirða sameiginlegs húsrýmis og lóðar.“ Hvað þýðir „svo sem“? Það þýðir að ekki er allur sameiginlegur kostnaður tilgreindur í greininni. Í 7. tl. sömu greinar er talað um „Sameiginleg afnotagjöld og félagsgjöld“. Það má líka heimfæra „afnotagjöld“ upp á sorphirðugjöldin því húsfélagið hefur afnot af sorptunnunum en á þær ekki. Afnotunum fylgir að tunnurnar séu tæmdar. Ekki er neinn vafi á að aðkeypt hreinsun á sorptunnunum, sem notendunum ber að sjá um, skiptist jafnt.

Ég tel að við undirbúning þeirra miklu breytinga á lagareglum, vegna verulega aukinna krafna í nýjum lögum, um flokkun, umgengni og flokkun sorps, sem fallið hafa á sveitarfélög og fasteignaeigendur á síðari árum, hafi gleymst að skoða og samræma þær reglur sem unnið hefur verið eftir hjá sveitarfélögum á fyrri árum. Þessi kostnaðarþáttur skipti áður minna máli fyrir fasteignaeigendur, en hefur margfaldast.

Ég hef reynt að fá ákveðin og skýr svör við því hvers vegna innheimt séu sorphirðugjöld eftir stærðum íbúða. Í einu samtalinu var vísað í skiptingu samkvæmt fjöleignarhúsalögum, eins og kostnaði væri skipt vegna viðhalds fjöleignarhúss. Engin líkindi eru hins vegar með skiptingu sorphirðugjalda og skiptingu kostnaðar vegna þakviðgerða.

Ég hef hvergi fengið skýr svör um skiptiregluna og því reynt að finna út hlutfallsregluna eftir upphæðum í fasteignagjaldaseðlum sem ég hef fengið til skoðunar ásamt upplýsingum um tunnufjölda og borið saman við gjaldskrá. Til grundvallar virðist lögð birt stærð fasteignar sem birtist í fasteignaskrá. Ef þetta er reglan hefur hún enga tengingu við skiptireglur fjöleignarhúsalaga hvað varðar kostnaðarskiptingar í sameiginlegum rekstri eða framkvæmdum samkvæmt 45. gr. laganna. Sameiginlegum hlutfallsskiptum framkvæmdum er skipt samkvæmt skráðri eignarhlutdeild séreignar í eignaskiptayfirlýsingu sem tekur ekki einungis mið af flatarmáli heldur einnig rúmmáli eignar samkvæmt sérstökum reglum. Opinber heildarskrá yfir hlutdeildarstærðir fasteigna er hvergi til, að því er ég best veit. Þá munar allnokkru á hlutföllum samkvæmt birtri stærð og eignarhlutfalli.

Mikilvægt er að því sé komið skýrt í lög og reglugerðir um sorphirðumál að kostnaði vegna þessa þáttar sorphirðunnar verði skipt jafnt á allar fasteignir í fjöleignarhúsi en ekki eftir sérvöldum hlutfallsstærðum sem auðvelt er að lesa úr fasteignaskrá. Það má ekki vera tilviljanakennt mat einstakra sveitarfélaga hvernig þessu er skipt á eignir og innheimt. Besta reglan, einfaldasta og réttasta er jafnskipt.

Mér skilst að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu séu nú að samstilla verklag í þessum sorphirðumálum. Þá yrði það mikið slys ef haldið yrði áfram með þessa röngu aðferð við innheimtuna hjá þeim sveitarfélögum sem hana nota. Heildarinnheimtan gagnvart sveitarfélaginu helst sú sama hvor aðferðin sem notuð er. Þar sem innheimtunni er ekki beint að húsfélögunum beint geta þau ekki haft beint eftirlit með sorphirðukostnaði. Það þarf að breytast. Það er húsfélagið sem pantar tunnurnar eða afpantar eftir atvikum, ekki einstakir íbúðareigendur. Þess vegna þarf að innheimta hjá húsfélaginu, þjónustukaupanum.

Höfundur er löggiltur fasteignasali, löggiltur leigumiðlari og löggiltur eignaskiptalýsandi.

Höf.: Sigurbjörn Skarphéðinsson