Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Keppt verður um Hornafjarðarmeistarann í manna 16. janúar. Íslandsmótið í Hornarfjarðarmanna var endurvakið um miðjan nóvember og heimsmeistaramótið var á sínum stað á Humarhátíðinni á Höfn á liðnu sumri, en keppni lá niðri undanfarin ár vegna covid. „Þetta er spil sem gefur mikinn félagsauð og tengir kynslóðirnar saman,“ segir Hornfirðingurinn Sigurpáll Ingibergsson, stjórnarmaður í Skaftfellingafélaginu í Reykjavík, sem varð Íslandsmeistari í spilinu 2007 og 2015.
Reglurnar í Hornafjarðarmanna eru ólíkar reglunum í manna og eru eignaðar Eiríki Helgasyni, presti í Bjarnanesi um og fyrir miðja 20. öld. Til að byrja með er dregið um hvaða spil þrír spilarar eigi að spila hverju sinni (hjarta-, spaða-, tígul- eða lauftromp (spil 6-9), grand (tía, ás og mannspil) eða nóló (spil 2-5). Hver spilari fær 12 spil (3-3-3-3) og 16 spil eru í manna (4-4-4-4). Sá sem er í forhönd má taka sjö spil, næsti fimm og gjafari afganginn. Fyrir hvern slag umfram fjóra fæst eitt stig nema í nóló. Þá dregst eitt stig frá fyrir hvern slag umfram fjóra, en eitt stig fæst fyrir þrjá slagi, tvö fyrir tvo, þrjú fyrir einn og fjögur stig komist spilari hjá því að fá slag.
Útbreiðsla
Albert Eymundsson hóf spilið til vegs og virðingar með fyrsta heimsmeistaramótinu í tengslum við 100 ára afmælishátíð Hafnar í Hornafirði 1997. Árið eftir var fyrsta Íslandsmeistaramótið haldið að hans frumkvæði. Þá kom fram í Morgunblaðinu að séra Eiríkur hefði gætt þess vandlega, þegar hann fór á annexíuna, að gista aðeins á bæjum þar sem spilað var. Á sjötta hundrað keppendur voru á fyrstu tveimur heimsmeistaramótunum og almennur spilaáhugi jókst til muna.
„Spilið breiddist um landið, sérstaklega með sjómönnum og farandverkamönnum á Höfn,“ segir Sigurpáll, sem kenndur er við Fiskhól á Höfn, en í fyrrnefndri Moggagrein segir að þáverandi heimsmeistari, Örn Þorbjörnsson, skipstjóri á Höfn, hafi borið hróður Hornafjarðarmannans víða og meðal annars gefið eiginhandaráritanir í Póllandi og á Mallorca. „Á fyrsta heimsmeistaramótinu voru ekki aðeins keppendur frá Íslandi heldur frá sex þjóðum að auki,“ segir Sigurpáll. Nú séu menn að ná vopnum sínum á ný eftir covid.
Albert hefur verið titlaður útbreiðslustjóri Hornafjarðarmanna, en Sigurpáll, sem er tölvunarfræðingur og bridsspilari, aðstoðaði hann í upphafi við að búa til kerfi fyrir svona fjölmenn mót. „Eftir að ég flutti á höfuðborgarsvæðið hef ég aðstoðað við að halda Íslandsmeistaramótið.“ Þrír ættliðir kepptu á nýafstöðnu Íslandsmóti og er Bjarki Elvar Stefánsson af Hofkotsætt nýjasti Íslandsmeistarinn, tók við af föður sínum, Stefáni Bjarnasyni.