„Það er orðið uppselt á tónleikana og við frestum ekki vegna veðurs fyrr en í fulla hnefana. Spáin hefur verið síbreytileg þessa síðustu daga, en vonandi blessast þetta allt saman,“ segir Atli Gunnar Arnórsson, formaður Karlakórsins Heimis í Skagafirði, en kórinn heldur árlega áramótatónleika sína í Miðgarði í kvöld kl. 20.
Kórinn ætlar að bjóða upp á úrval sönglaga, erlendra og innlendra, en einsöng syngja Þóra Einarsdóttir sópran og Snorri Snorrason tenór, sem hefur verið í Heimi frá árinu 2020. Þetta eru fyrstu áramótatónleikarnir undir stjórn Jóns Þorsteins Reynissonar, en hann tók við kórnum í febrúar sl. Við píanóið er Alexander Smári Edelstein, en hann kom til liðs við kórinn haustið 2023. Bæði Alexander og Jón Þorsteinn eru búsettir á Akureyri, og koma til æfinga í Varmahlíð 1-2 kvöld í viku.
„Þetta eru framúrskarandi tónlistarmenn báðir tveir og við Heimismenn erum geysilega stoltir af því að hafa fengið þessa hæfileikaríku ungu menn til liðs við okkur,“ segir Atli Gunnar.
Hann segir söngskrána fjölbreytta og skemmtilega, m.a. verði fluttar nýjar útsetningar Jóns Þorsteins á gamalkunnum lögum, eins og Í dag skein sól eftir Pál Ísólfsson og Álfakónginum eftir Schubert, sem Atli segir ekki heyrast oft í kórútsetningu.
Þóra hefur áður sungið með Heimismönnum, m.a. í ferð til Kanada árið 2017. „Það samstarf gekk einstaklega vel og það var alltaf á stefnuskránni hjá okkur að taka upp þráðinn að nýju. Við erum mjög spenntir að fá hana aftur til okkar.“