Margeir Pétursson stórmeistari í skák teflir reglulega í Úkraínu en þar sinnir hann bankarekstri.
Margeir Pétursson stórmeistari í skák teflir reglulega í Úkraínu en þar sinnir hann bankarekstri. — Morgunblaðið/Karítas
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég var að tala við háttsettan mann sem hefur verið í háum stöðum sem skákþjálfari. Hann er mjög tortrygginn og telur að það sé eitthvað í gangi sem að við vitum ekki hvað er.

Baldur Arnarson

er blaðamaður á Morgunblaðinu.

Jólin nálgast þegar Margeir Pétursson, stórmeistari í skák og hluthafi í úkraínska bankanum Bank Lviv, heimsækir Morgunblaðið.

Við höfum ekki mikinn tíma, því Margeir er á leið á skákmót í Reykjavík.

„Ég tefldi í gær og er að tefla í kvöld. Hér á Íslandi er ánægjulegt að sjá að margir ungir skákmenn eru mjög duglegir við að tefla og einnig að rannsaka skák. Ég sjálfur er aðallega að keppa í sveitakeppnum og hef mikla ánægju af því. Ég er fyrst og fremst að tefla fyrir ánægjuna og félagsskapinn og á marga ágætis vini í Lviv sem eru stórmeistarar eða þjálfarar. Þannig að heilmikið af félagslífi mínu í Lviv tengist skák, sem er þar mjög í hávegum höfð og það þykir öllum mjög merkilegt að hluthafi í bankanum sé stórmeistari.“

Af hverju er skák í svo miklum hávegum höfð í Lviv [í vesturhluta Úkraínu]?

„Það er arfur frá Sovéttímanum. Svo eru margir frægir skákmenn frá Lviv, heimsfrægir. Má þar nefna Leoníd heitinn Stein, Alexander Belíavskí, sem er mikill vinur minn, og Vassilí Ívansjúk, sem ég þekki líka ágætlega. Þessir þrír voru í topp 10 í heiminum og Ívansjúk rétt klikkaði á því að verða heimsmeistari. Það eru einhverjir 45 stórmeistarar frá borginni Lviv.

Það eru fjórar mjög sterkar skákborgir í Úkraínu. Í fyrsta lagi Kænugarður. Í öðru lagi Odessa, en þar var sérstakur skákskóli og stórmeistararnir Efim Geller og Vladimír Túkmakov voru þaðan. Í þriðja lagi Kharkiv og í fjórða lagi Lviv, en síðast þegar haldin var deildakeppni í Úkraínu kom ég saman sveit frá Lviv. Við unnum reyndar ekki mótið heldur lagadeildin í Háskólanum í Kharkiv sem sendi sína bestu menn og sigraði en við urðum í öðru sæti.“

Þekkir strákinn vel

Það hefur verið töluverð umræða um svindl í skákheiminum. Hún var hvað háværust haustið 2022 þegar Magnús Carlsen, þáverandi heimsmeistari, grunaði Hans Niemann um svindl. Hvað finnst þér um þessa umræðu og hefur hún haft varanleg áhrif?

„Þú veist að það kom upp nýtt dæmi tengt Kirill Sévsénkó.“

Er hann Úkraínumaður?

„Já, en hann var reyndar fluttur til Rúmeníu. Hann var tekinn fyrir svindl, sem var mikið áfall fyrir mig vegna þess að ég þekki strákinn vel og svo var amma hans alltaf með honum og ég þekkti hana líka.“

Hvernig á Sévsénkó að hafa svindlað?

„Hann er sakaður um að hafa skilið farsíma eftir inni á klósetti á skákmóti og farið og rýnt í hann á milli leikja. Því miður virðist þetta rétt og maður bara botnar ekkert í þessu. Þetta er mjög prúður piltur og hann bjó í Lviv í einhver tvö ár. Var við háskóla þar.“

Hvaða máli skipta mál Niemann og Sévsénkó í stóra samhenginu?

„Ég veit ekki til þess að það sé neitt á Niemann sannað.“

Fyrir utan þetta sem hann gerði áður?

„Hann svindlaði á netinu og hefur viðurkennt það og segir að það sé búið að ramma það inn. Það er mjög auðvelt að svindla á netinu. Það sést með því að skoða skákirnar. Þær eru rýndar með algrími og þá sést að skákstíllinn breytist. Ég tefli lítið á netinu en hef lent í því að augljóst er að andstæðingurinn er tölva. Þá sendir maður inn kvörtun og fær skákstigin sín til baka og viðkomandi er settur í bann. Ég veit það líka hjá félögum mínum að þeir þekkja vel til slíkra mála.“

Kasparov var mjög sár

Var þessu ekki öfugt farið þegar Garrí Kasparov tefldi við ofurtölvuna Deep Blue árið 1996? Var hann þá ekki að ásaka tölvufyrirtækið, IBM, um að láta menn tefla?

„Jú, eða velja leiki. Kasparov var mjög sár og það voru líka miklir hagsmunir í húfi fyrir þá sem gerðu forritið en hvað veit maður. Þessi mál náttúrulega valda því að nú má ekki hafa neitt með sér á skákmót og skákmenn eru gegnumlýstir þegar þeir mæta á mót eins og þeir séu að fara í flugvél. Það er raunar gengið lengra en á flugvöllum því að það má ekki einu sinni taka tösku með sér. Þetta venst og er allt í lagi.“

Er þessi viðbúnaður kominn til að vera?

„Já. Hann er pottþétt kominn til að vera. Vinir mínir í Úkraínu, stórmeistararnir sem ég hef verið að ræða þetta við, hafa verið mjög tortryggnir. Og tækin eru alltaf að verða minni. Það er jafnvel hægt að vera með tæki í eyranu. Nú, eða láta græða flögu í hausinn á sér, sem er það næsta sem menn hafa áhyggjur af, og þetta eftirlit með svindli á aðeins eftir að aukast og verða þróaðra. Ég var að tala við vin minn úti í Úkraínu í síðustu viku, háttsettan mann sem hefur verið í háum stöðum sem skákþjálfari hjá [Alþjóða skáksambandinu] FIDE. Hann er mjög tortrygginn og telur að það sé eitthvað í gangi sem að við vitum ekki hvað er.“

Svindl þá?

„Já, svindl.“

Auðveldara að svindla

Eru þessar áhyggjur til komnar af því að tölvurnar hafa þróast svo mikið og auðveldara er að koma boðunum til skákmanna en áður?

„Boðin koma einhvern veginn. Þessi vinur minn segist bara ekki átta sig á því hvernig.“

Á hverju er það byggt að svindl sé að aukast? Er meira um óvænt úrslit eða eru tilteknir skákmenn að tefla betur en þeir ættu að geta?

„Það kemur náttúrulega strax í ljós ef einhver er farinn að tefla segjum 100 eða 200 [Elo-]stigum betur en venjulega.“

Af hverju eru menn tortryggnir?

„Til dæmis af því að margir ungir skákmenn hafa tekið ótrúlegum framförum en það er ekki hægt að ásaka einn né neinn um óheiðarleika.“

Getur verið að menn nái hraðari framförum en áður af því að tölvurnar eru að verða betri?

„Já, það er þannig.“

Allt önnur og betri aðstaða

Hvers vegna? Af hverju ættu ungir skákmenn í dag að taka meiri framförum en til dæmis þegar þú varst ungur skákmaður?

„Það skýrist af aðstöðumun. Nú geta menn skoðað 30-40 skákir á klukkutíma og fengið greiningu með. Ég var hins vegar kannski að skoða tvær skákir á klukkutíma og ekki að leika leikjunum á skjá heldur á borði, sem var mjög tímafrekt og stundum ruglaðist staðan. Þetta er breyttur heimur hvað það varðar að nú er nánast enginn efi um hver er besti leikurinn í stöðunni. Tölvurnar eru alveg með það. Meira að segja síminn dugar orðið til þess.“

En aftur að spurningunni. Hvers vegna ættu ungmenni í dag að verða betri skákmenn en jafnaldrar þeirra áður?

„Því að þau fá svo miklu betri þjálfun. Hafa svo miklu betri tæki og geta skoðað svo margar skákir og fólk er svo móttækilegt á þessum aldri. Vandinn hjá mér var að maður fékk allt of lítið af upplýsingum en upplýsingarnar sem börn fá núna eru svo aðgengilegar og góðar.“

Árið 1977 varð Jón L. Árnason heimsmeistari unglinga í skák og aðrir Íslendingar á eftir honum í mismunandi aldursflokkum ungmenna. Þá hafa Friðrik Ólafsson og fleiri íslenskir skákmenn náð langt á alþjóðlegan mælikvarða. Við höfum hins vegar ekki eignast skákmenn sem hafa náð jafn langt og Bobby Fischer, Anatólí Karpov, Garrí Kasparov og Magnús Carlsen. Höfum ekki átt heimsmeistara. Er það meðal annars út af því að erlendu skákmennirnir bjuggu við betri aðstæður og fengu betri þjálfun?

„Já, ég held að það sé fyrst og fremst út af því.“

Þannig að við höfum átt skákmenn sem hefðu getað náð jafn langt við betri aðstæður?

„Já. Fyrst Magnús Carlsen gat gert þetta frá Noregi hefði þetta alveg getað verið möguleiki héðan.“

Voru á topp 10

Við höfum átt mjög efnilega skákmenn en ekki átt einhvern sem hefur verið ráðandi í heiminum?

„Nei, að vísu voru Friðrik og Jóhann Hjartarson á topp 10 en komust ekki alveg á toppinn.“

Var ástæðan meðal annars Sovétmaskínan? Að sovéskir skákmenn bjuggu við betri aðstæður og gátu náð lengra fyrir vikið?

„Já, höfðu betri þjálfara, fengu góð ráð og gátu unnið kerfisbundið. Það sést hins vegar á árangrinum hjá okkar mönnum í yngri flokkunum, hjá mönnum eins og Jóni L. Árnasyni, Hannesi Hlífari Stefánssyni og fleirum að það var alveg mögulegt [að komast í fremstu röð] vegna þess að það var svo mikið teflt á þeim tíma. Nú er þetta hins vegar mjög erfitt fyrir svo fámenna þjóð. Skákin er enda orðin svo útbreidd og íslenska mengið hlutfallslega svo agnarsmátt,“ segir Margeir Pétursson, stórmeistari í skák, að lokum.