Borgahella 6 Fjórar lóðir voru sameinaðar í eina lóð fyrir höfuðstöðvar Tesla á Íslandi.
Borgahella 6 Fjórar lóðir voru sameinaðar í eina lóð fyrir höfuðstöðvar Tesla á Íslandi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Framkvæmdir eru að hefjast við nýjar höfuðstöðvar Tesla á Íslandi. Þær munu rísa á tæplega 16 þúsund fermetra lóð í Borgahellu 6 í Hafnarfirði. Félagið Bæjarbyggð, dótturfélag Eignabyggðar, mun reisa höfuðstöðvarnar sem verða stálgrindarhús með steyptum kjarna

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Framkvæmdir eru að hefjast við nýjar höfuðstöðvar Tesla á Íslandi. Þær munu rísa á tæplega 16 þúsund fermetra lóð í Borgahellu 6 í Hafnarfirði.

Félagið Bæjarbyggð, dótturfélag Eignabyggðar, mun reisa höfuðstöðvarnar sem verða stálgrindarhús með steyptum kjarna. Leigusamningur var undirritaður fyrir jól og er áformað að afhenda húsið öðrum hvorum megin við áramót 2026/27.

Brynjólfur Þorkell Brynjólfsson, stjórnarmaður hjá Bæjarbyggð, segir Tesla á Íslandi hafa skoðað aðrar staðsetningar á höfuðborgarsvæðinu fyrir nýjar höfuðstöðvar. Niðurstaðan hafi orðið sú að lóðin í Borgahellu hentaði best en Bæjarbyggð hafi getað boðið upp á stóra lóð með mikla möguleika með því að sameina fjórar lóðir í eina. Á teikningunum hér fyrir ofan má sjá hvernig lóðin verður útfærð.

Leigir stærstan hlutann

Að sögn Brynjólfs Þorkels verður húsið rúmlega 6.000 fermetrar og muni Tesla á Íslandi leigja stærstan hluta þess. Bæjarbyggð hafi heimild til að byggja meira á lóðinni enda sé hún stór. Byggingin verður tveggja hæða stálgrindarhús með steyptum 800 fermetra kjarna. Hún er hönnuð í samvinnu við Tesla og mun rúma sölu-, þjónustu- og afhendingardeildir bílaframleiðandans.

Byggingin rís á rúmlega 15.800 fermetra hornlóð, á mótum Borgahellu og Búðahellu, og verður aðalinngangurinn sýnilegur frá Krýsuvíkurvegi.

„Það er búið að fullhanna húsið, allar arkitekta- og verkfræðiteikningar eru tilbúnar, og það er búið að vinna smá jarðvinnu og hlaða grjótvegg. Við stefnum að því að hefja framkvæmdir í vor og að húsið verði tilbúið ekki seinna en um áramótin 2026/2027,“ segir Brynjólfur Þorkell.

Höf.: Baldur Arnarson