Baksvið
Þóroddur Bjarnason
tobj@mbl.is
Garðyrkjustöðin og ferðaþjónustufyrirtækið Friðheimar í Reykholti í Biskupstungum hefur fest kaup á Jarðarberjalandi, umsvifamesta jarðarberjaræktanda á Íslandi.
Knútur Rafn Ármann, sem á og rekur Friðheima ásamt eiginkonu sinni Helenu Hermundardóttur, segir í samtali við Morgunblaðið að Friðheimar taki við rekstrinum 1. janúar næstkomandi.
„Við erum mjög spennt að taka við. Jarðarberjaland er nágrannagarðyrkjustöð okkar. Hún var endurbyggð frá grunni árið 2022 eftir að hafa skemmst í óveðri. Stöðin er sérhæfð í heilsársræktun á jarðarberjum og býr yfir mjög fullkomnum tækjabúnaði,“ útskýrir Knútur.
Sextíu tonn af berjum
Hann segir að í stöðinni séu ræktuð sextíu tonn af jarðarberjum á ári. „Þetta atvikaðist þannig að það hafði verið samtal á milli okkar sem þróaðist í þessa átt. Eigendurnir voru til í að hægja á og njóta lífsins eftir farsælt ævistarf og við vorum klár í að koma að starfseminni og kaupa.“
Jarðarberjaland er upplýst stöð, 4.000 fermetrar að flatarmáli. Jarðarber eru tínd þar allar vikur ársins. „Stöðin er mjög flott á alþjóðlegum mælikvarða og hefur náð frábærum árangri í gæðum og uppskeru.“
Friðheimar hafa ræktað tómata í þrjátíu ár en á seinni árum hefur ferðaþjónustan orðið sífellt umsvifameiri þáttur í rekstrinum. „Við erum með heilsársræktun á tómötum í ellefu þúsund fermetra upplýstum gróðurhúsum. Það er margt svipað í ræktun tómata og jarðarberja. Þekkingin nýtist á milli.“
Átta manns starfa hjá Jarðaberjalandi. „Þetta er flottur hópur sem hefur verið lengi hjá félaginu og mun halda áfram og verða okkur innan handar í rekstrinum.“
Knútur segir að þau Helena taki við mjög góðu búi. „Við munum vafalítið breyta einhverju í fyllingu tímans. Það eru möguleikar til stækkunar og pláss á markaðnum fyrir fleiri íslensk jarðarber. Þessi afurð er eitt skýrasta dæmið um hágæðaafurð, sjálfbæra úr íslenskri ylrækt. Orkan er græn og engin eitur- eða varnarefni notuð.“
Knútur segir að jarðarberin muni fléttast skemmtilega inn Vínstofu Friðheima – nýjasta verkefni fyrirtækisins. „Við opnuðum vínstofuna árið 2023. Við erum nú þegar að bjóða þar upp á jarðarberjakokkteila. Einn af okkar flottari réttum samanstendur af ferskum jarðarberjum og kampavíni.“
Ísland hentar vel fyrir jarðarberjaræktun innanhúss að sögn Knúts. „Berin þurfa ekki of mikinn hita.“
Tekjuhæsta árið til þessa
Spurður að lokum um rekstur Friðheima á árinu 2024 segir Knútur að árið verði það tekjuhæsta til þessa, bæði hvað garðyrkjuna og ferðaþjónustuna varðar. „Við erum að auka veltuna um þrjú hundruð milljónir króna á milli ára, upp í 1,6 milljarða. Gestafjöldinn hefur aukist mikið en hann stefnir í 300 þúsund fyrir árið í heild.“
Knútur segir að vinsældir vínstofunnar nýju eigi þar drjúgan hlut að máli.
Um níutíu manns starfa hjá Friðheimum eftir kaupin á Jarðarberjalandi.
„Ég er sérstaklega ánægður með hve vel gekk á árinu því í byrjun 2024 var maður ekki viss um þróun ferðamennskunnar í landinu. Hún hefur sem betur fer tekið við sér eftir því sem liðið hefur á árið,“ segir Knútur að lokum.