Í Tímamótum er fjallað um gervigreind, dvínandi fæðingartíðni, ógnarstjórnir og arfleifð Oppenheimers

Tvær styrjaldir hafa sett svip sinn á þetta ár. Brátt verða þrjú ár liðin frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu og rúmt ár er síðan Hamas framdi grimmilegt hryðjuverk í Ísrael og stríð hófst á Gasa. Afleiðingarnar af þessum stríðum hafa verið skelfilegar og mannfallið yfirgengilegt.

Komið hafa fram áhyggjur af því að bæði þessi stríð gætu þróast á versta veg. Allt gæti farið í bál og brand í Mið-Austur­löndum og átökin magnast í Úkraínu. Hafa Rússar jafnvel hótað að beita kjarnorkuvopnum.

Kjarnorkuvopnum hefur tvisvar verið beitt í stríði. Það var þegar Bandaríkjamenn vörpuðu kjarnorkusprengjum á Hiroshima og Nagasaki í Japan. Morgunblaðinu í dag fylgir blaðið Tímamót, sérblað Morgunblaðsins í samvinnu við The New York Times. Þar er að finna grein eftir Charles Oppenheimer. Afi hans var J. Robert Oppenheimer, sem var höfuðpersóna einnar vinsæl­ustu myndar ársins 2023. Hann stýrði smíði sprengjanna sem varpað var á Japan og þekkja hann margir sem „föður kjarnorkusprengjunnar“.

Charles Oppenheimer stýrir verkefni, sem kennt er við afa hans og snýst um að koma á samvinnu í afvopnunarmálum því að fullnaðarsigur sé ekki lengur möguleiki í stríði.

Í greininni segir hann að kjarnaklofnun, sem er undirstaða kjarnorkusprengjunnar, verði með okkur til frambúar: „Við getum notað hana til að búa til ótakmarkaða orku án kolefnislosunar eða notað hana til að búa til sprengjur. Við getum unnið saman og notað kjarnaklofnun til að bjarga heiminum eða til að eyða honum.“

Oppenheimer áttar sig á því að átök muni alltaf eiga sér stað og séu í mannlegu eðli. En það sé samvinna einnig. „Oppenheimer-verkefnið hefur það að markmiði að leiða vísindaleiðtoga heimsins saman til að ræða stefnu sem byggist á þessu viðhorfi,“ skrifar hann og bætir við síðar: „Tilvist okkar sem tegundar er háð getu okkar til samvinnu við þá sem tilheyra öðrum ættbálkum, þá sem við teljum til óvina okkar. Við munum finna leið til að vinna saman, ekki vegna þess að það er pólitískt þægilegt að gera það, heldur vegna þess að við höfum ekkert val. Við erum dæmd til samvinnu.“

Þessi orð kunna að hljóma eins og draumórar, en hefðu verið í fullkomnu samræmi við tíðarandann fyrir rúmum þrjátíu árum þegar járntjaldið var nýfallið og þróunin í heiminum virtist vera í átt til aukins lýðræðis og opins stjórnarfars. Nú eru viðsjár miklar í heiminum og hann er að skiptast upp í valdablokkir.

Á slíkum tímum er mikilvægt að raddir eins og rödd Oppenheimers fái að heyrast, raddir sem reyna að koma viti fyrir heiminn.

Í Tímamótum er fjallað um fleiri mál, sem setja mark sitt á samtíma okkar.

Dmitrí Múratov er rússneskur blaðamaður, sem fékk friðarverðlaun Nóbels. Hann lýsir því í grein í Tímamótum hvernig stríð, ritskoðun og kúgun eru orðin að þeim þremur tækjum sem ríkisstjórn Rússlands noti til að byggja upp nýtt ríki – þar sem réttindi ríkisins séu metin hærra en réttindi einstaklingsins. Rússland sé orðið að hernaðarríki, þar sem dauði í þágu móðurlandsins sé mikilvægari en lífið.

Rithöfundurinn Ahmed Naji frá Egyptalandi lýsir því í grein í blaðinu hvernig herforingjastjórn Abdels Fattahs al-Sisis stjórnar með ógn og kúgun og hendir öllum þeim, sem dirfast að andæfa, í fangelsi. Naji sat sjálfur inni og er nú í útlegð í Bandaríkjunum. Hann segir að orðið hafi bakslag í Mið-Austurlöndum og nefnir að nú einblíni Bandaríkjamenn og vestrænir bandamenn þeirra fyrst og fremst á að styðja hernað Ísraels og allt tal í áranna rás um að hlúa að lýðræði og málfrelsi sem grundvelli stöðugleika í þessum heimshluta sé svo gott sem horfið.

Í blaðinu er ekki aðeins fjallað um skuggahliðarnar. Gervigreindin vekur Anant Agarwal, prófessor í rafmagnsverkfræði og tölvunarfræði við MIT, bjartsýni um að gervigreindartólið geti létt endurtekningarsamri vinnu af kennurum og boðið upp á leið „út fyrir kassann“ sem gæfi tækifæri til að búa til kennslustofur þar sem nám verði persónumiðað og kraftmikið og sniðið að þörfum hvers nemanda.

Við áramót er tilvalið að taka stöðuna og í Tímamótum gefst lesendum tækifæri til að fara á dýptina í greinum innlendra og erlendra höfunda um það sem er efst á baugi um þessar mundir.