Ólétt kona í ómskoðun í New York. Fæðingartíðni hefur dregist saman víða í heiminum, einkum þar sem meiri velmegun er að finna.
Ólétt kona í ómskoðun í New York. Fæðingartíðni hefur dregist saman víða í heiminum, einkum þar sem meiri velmegun er að finna. — The New York Times/Gabriella Angotti-Jones
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við ættum almennt að fagna því að halda fólksfjölda í horfinu eða jafnvel að einhver fækkun verði.

Ezra Klein

Um langt skeið hefur helsta mannfjöldavandamálið í almennri umræðu verið offjölgun.

En nú hefur það áhyggjuefni bæst við að við stefnum í átt að fólksfækkun. Eftir því sem lönd verða ríkari um allan heim lækkar fæðingartíðni.

Raunin ætti augljóslega ekki að vera sú að samfélög eignist færri börn eftir því sem þau verða ríkari. Peningar gera lífið auðveldara. Ef þú ert betur fær um að sjá fyrir börnunum þínum ætti það að vera auðveldara að eiga fleiri börn. En fæðingartíðni heldur áfram að lækka.

Jennifer Sciubba er stjórnmálafræðingur, lýðfræðingur og höfundur bókarinnar „8 Billion and Counting“. Hún sat fyrir svörum um merkingu þessara mannfjöldatalna á mismunandi svæðum í heiminum og hver þróunin gæti orðið.

Eftirfarandi er stytt afrit af samtali Ezra Klein og Jennifer Sciubba á The Ezra Klein Show.

EK: Segðu mér hvað heildarfæðingartíðni merkir.

JS: Heildarfæðingartíðni er meðalfjöldi barna sem hver kona eignast á ævinni. Það er frábær mælikvarði vegna þess að ein tala getur gefið upplýsingar til samanburðar á mismunandi stöðum og mismunandi tímum.

EK: Hvernig myndir þú lýsa heildarfæðingartíðni samtímans og hve misjöfn er hún eftir stöðum?

JS: Á síðustu öld varð veldisvöxtur í mannkyni, úr 1,6 milljörðum í upphafi aldarinnar í 6,1 milljarð í lok hennar. Konur eiga að meðaltali um 2,2 börn um allan heim þessa dagana, sem er um það bil það sem þarf til að viðhalda fólksfjölda. En á þessari öld er mikill munur milli svæða í heiminum; fæðingartíðni er mjög lág sums staðar en há eins og fyrr annars staðar.

EK: Meðal ríkra og vel menntaðra þjóða eignast fólk færri börn. Af hverju leiðir auðlegð til færri barna?

JS: Gildi og viðmið hafa breyst gríðarlega. Ég á tvö börn en ég tel margt annað í lífinu einnig mikilvægt. Ég met það mikils að eiga tíma með vinum, tíma með maka mínum. Ég met feril minn mikils.

Og ég held að það sé þessi breyting á gildismati, að eftir því sem við erum meira menntuð, eftir því sem við höfum meiri möguleika á að afla tekna utan heimilisins, eftir því sem lífskjör okkar batna, þá breytist fjöldi barna sem við viljum eiga vegna þess að barneignir eru í samkeppni við annað sem við viljum.

EK: Í jaðartilfellum – ég er með Suður-Kóreu í huga, þar sem mér skilst að heildarfæðingartíðni sé undir einum – hefur ekki tekist að snúa þróuninni við. Hvers vegna hefur opinber stefna stjórnvalda ekki meiri áhrif?

JS: Stefna stjórnvalda getur verið nokkuð áhrifarík í þá átt að færa samfélag með háa fæðingartíðni yfir í lægri fæðingartíðni. Slíkt virkar hins vegar almennt ekki í hina áttina. Þess vegna tel ég að þetta sé þróun til langs tíma.

Sem vísindamenn viljum við einangra breytu á sama hátt og stjórnmálamenn gera. Ef hægt er að finna eina eða tvær meginástæður fyrir lágri fæðingartíðni er væntanlega hægt að marka stefnu til að snúa taflinu við. En það er mjög erfitt að einangra einstaka breytu sem hægt er að leggja til grundvallar opinberri stefnu. Og þá kemur aftur upp vandamálið hvernig hægt er að einangra og skilgreina almenn gildi og almenna menningu.

Jaðardæmin geta gefið okkur einhver svör við því. Um alla Austur-Asíu, þar sem heildarfæðingartíðni er sums staðar með því allra lægsta sem gerist í heiminum, eru sameiginlegir þættir. Ég man þegar ég komst að því að ungar japanskar konur væru í raun rægðar í fjölmiðlum fyrir að lifa mjög einstaklingsmiðuðu lífi, frekar en að gifta sig og eignast börn. Og ég held að það sé dæmigert fyrir höfnun á fyrri gildum.

Margir telja að hjónaband sé ekki lengur nauðsynlegt til að eiga gott líf. Það er hægt að fá vinnu. Það er hægt að afla launa upp á eigin spýtur. Og í raun er hjónaband ekki aðeins ónauðsyn, heldur gæti það í raun haft íþyngjandi áhrif vegna samskipta kynjanna innan heimilisins.

Í Suður-Kóreu er feðraorlof í boði en menningin er þannig að fáir nýta sér þann kost og slíkt takmarkar getu ríkisvaldsins til að breyta stöðunni. Það er kannski ekki ómögulegt en rannsókna er þörf. Hvernig er hægt að breyta menningunni með aðkomu ríkisins?

EK: Rúmenía er skelfilegt dæmi um aðkomu stjórnvalda en hvaða önnur dæmi standa upp úr í þínum huga? Og bar einhver stefna árangur til langs tíma?

JS: Margt fólk sem er að reyna að hækka fæðingartíðni er einungis að reyna að hindra fólksfækkun. Ástæðan er sú að þá helst aldurssamsetningin jöfn, stöðugur fjöldi fólks er að fæðast, eldast inn á vinnumarkaðinn og eldast út af honum.

Hvernig getur ríkið fengið almenning til að hækka nógu mikið til að íbúum fjölgi? Nú, það er hægt að svipta fólk einstaklingsbundnum réttindum. Ég er ekki að tala fyrir því. En það eru dæmi um það. Nicolae Ceausescu í Rúmeníu sagðist vilja fleiri rúmensk börn. Og þar var fæðingartíðnin þegar lág.

Hvað gerði hann? Hann gerði öfugt við það sem Kínverjar gerðu í eins barns stefnunni; hann hindraði aðgang að getnaðarvörnum og löglegum fóstureyðingum. Og það leiddi til hærri fæðingartíðni. Dánartíðni mæðra hækkaði líka. Þarna birtust stór samfélagsleg vandamál.

Og fæðingartíðnin var aðeins há á meðan þrýstings frá Ceausescu naut við. Um leið og hann var farinn lækkaði hún aftur. Við höfum í raun ekki dæmi þar sem fæðingartíðnin í samfélagi fer langt niður og hækkar síðan aftur þannig að fólksfjölgun verði, og allir eru ánægðir.

EK: Er lág fæðingartíðni ógn? Manni dettur í hug að ríki með fæðingartíðnina 2,2 eða 2,5 kunni að vera sterkari en ríki þar sem fæðingartíðnin er 1,4 eða 1,2.

JS: Ef við skoðum hvernig fæðingartíðnin á heimsvísu hefur lækkað úr sex, sjö börnum á hverja konu niður í tvö núna, þá er þetta jákvæð þróun. Það er markmið sem við stefndum að áratugum saman.

Það er dásamlegt að nú getum við eignast færri börn og treyst því nokkurn veginn að þau muni komast á fullorðinsaldur. Þannig ná samfélög þessum lýðfræðilegu umskiptum frá hárri í lága fæðingartíðni. Við ættum því almennt að fagna því að halda fólksfjölda í horfinu eða jafnvel að einhver fækkun verði. Það tel ég ekki áhyggjuefni.

Mér er hins vegar brugðið þegar fæðingartíðnin er mjög lág. Ef þú segðir mér frá ímynduðu landi þar sem fæðingartíðni er sjö börn á hverja konu, og það væri það eina sem þú segðir mér, gæti ég málað mynd af því landi fyrir þig. Og ég gæti sagt þér margt um það land sem væri líklega ekki frábært. Sennilega nytu konur og stúlkur ekki menntunar. Sennilega væri heilbrigðisþjónustan léleg. Engin störf í boði og stjórnsýslan léleg.

Á hinn bóginn, ef þú segðir mér frá landi þar sem fæðingartíðni væri í kringum eitt barn á hverja konu myndi það líka benda til samfélags sem væri laskað að einhverju leyti.

Þó að lág fæðingartíðni sé almennt af hinu góða þurfum við að skilja mjög lága fæðingartíðni miklu betur til að vita hvort slíkt ástand endurspeglar svartsýni á framtíðina. Barneignir eru besta leiðin til að lýsa trú á bjarta framtíð. En ef fólk hefur miklar áhyggjur af framtíðinni vill það síður eignast börn.

Eða hefur fólk kannski bara ekki efni á að kaupa húsnæði á yngri árum? Finnst því það vera einangrað og óöruggt? Og ef sú er raunin ættum við að kappkosta að leysa þau vandamál. Kannski myndi fæðingartíðni þá hækka. En tilraunir til að hækka fæðingartíðnina taka kannski ekki á orsökum þess að hún er lág til að byrja með.

EK: Það er mikið talað um að það sé óheyrilega dýrt að eignast börn. En auðvitað er það fólk sem eignast fleiri börn almennt fátækara. Hvernig líst þér á þá þróun að uppeldi hefur orðið bæði fjármagns- og tímafrekara eftir því sem fólk hefur fengið meira fjármagn og tíma til að fjárfesta í því?

JS: Ég held að það sé ein stærsta ástæða þess að fólk eignast færri börn í Bandaríkjunum. Þetta snýst augljóslega ekki bara um peninga því við höfum öll meira á milli handanna núna en áður var. Þetta snýst í raun um spennu og streitu. Ég á vini sem eiga krakka sem fara í keppnisferðalög í hafnabolta, sem er mjög dýrt og tímafrekt. Og ein vinkona mín, sem er heimavinnandi móðir, spyr hvernig fólk fari að ef báðir foreldrar eru útivinnandi? Og svarið er auðvitað að annaðhvort er fólk á kvíðalyfjum eða það fær utanaðkomandi hjálp, sem er ekki endilega einfalt. Uppeldið krefst bara svo mikillar orku. Og þannig er menningin núna.

Í Suður-Kóreu hafa stjórnmálamenn talað um að reyna að breyta sumum kröfum í inntökuprófum til að draga úr þrýstingi um fullkomnun hjá hverju barni, í þeirri von að viðhorfið til barnafjölda breytist. Þannig að tíminn og orkan skipta miklu máli. Það eru bara 24 klukkustundir í sólarhringnum.

EK: Sumt fólk hefur áhyggjur af neikvæðum áhrifum mannkynsins á jörðina. En það er líka viðhorf að hröð fólksfækkun myndi valda alvarlegri röskun á valdajafnvægi og félagslegum stöðugleika. Hvernig horfir það við þér?

JS: Það er mjög mannlegt að hafa áhyggjur af íbúafjölda jarðar. Á sjöunda áratugnum fannst okkur fólki vera að fjölga of hratt en nú erum við uggandi yfir því að okkur fækki of hratt.

Mér líkar ekki það viðhorf að ef við eignumst ekki börn muni samfélög gliðna í sundur. Þau munu breytast, en þau breytast alltaf. Stundum til hins betra, stundum til hins verra.

En hvers vegna skiptir lág fæðingartíðni máli? Við höfum talað mikið um börn. En þegar öllu er á botninn hvolft er aðalatriðið að lág fæðingartíðni leiðir til samfélags með hærri meðalaldur. Og síðan mannfærra samfélags. Fólk leggur það að jöfnu við öldrun einstaklings. Við höfum hræðilegt og svartsýnislegt viðhorf gagnvart öldrun einstaklinga. Og ef við vörpum því viðhorfi yfir á öldrun þjóða finnst okkur heimshorfurnar dapurlegar.

EK: Hvernig telur þú að samfélög þar sem fæðingartíðnin er komin niður fyrir 2 ættu að haga sínum málum?

JS: Ég er að reyna að finna jafnvægi; lýðfræðileg samsetning er mikilvæg en ekki svo mikilvæg að það eigi að taka af fólki réttindi eða einbeita sér eingöngu að þessum mannfjöldatölum þannig að það gleymist að sinna sjálfu fólkinu.

En ég held líka að það sé mikilvægt fyrir okkur að styðja fjölskyldur og börn í þeim tilgangi að styðja fjölskyldur og börn, því hver er tilgangurinn annars?

Oft gleymum við að þessar stóru tölur í umræðunni eru bara samansafn af fjölmörgum einstökum ákvörðunum. Og ég vil búa í samfélagi sem lítur björtum augum til framtíðar, þar sem eru börn og eldra fólk og fólk á vinnualdri. Og fyrir mér er það í raun tilgangurinn með þessu öllu saman, að sjá okkur öll sem verðmætar manneskjur.

© 2024 The New York Times Company