Ted Sarandos sat fyrir svörum í hlaðvarpi New York Times og ræddi meðal annars markaðsviðhorf sín og áhrif gervigreindar.
Ted Sarandos sat fyrir svörum í hlaðvarpi New York Times og ræddi meðal annars markaðsviðhorf sín og áhrif gervigreindar. — The New York Times/Devin Oktar Yalkin
Ég efast um að nokkurt gervigreindarforrit muni skrifa betra handrit en góður höfundur, né að það muni koma í stað góðra verka með þeirri lendingu að við sjáum ekki muninn.

Lulu Garcia-Navarro

Ef þú ert eitthvað smávegis líkur mér hefurðu klárlega setið í sófanum og horft á Netflix þessa vikuna. Ég elska rómantískt gamanefni, því meira af því sem ég horfi á, því meira af því býður Netflix mér. Þú hefur kannski upplifað þetta sama með heimildarþætti á sviði íþrótta, spennumyndir eða ævisögulegar myndir. Þetta er eitthvað sem við höfum öll vanist. Ég ýti á spilunarhnappinn sama hvað bíður mín, ég hugsa ekkert út í fólkið sem ákveður mína neyslu. Þess vegna langaði mig að tala við Ted Sarandos.

Sarandos er 59 ára og hefur verið hjá Netflix í 24 ár. Hann er aðstoðarforstjóri og hefur yfirumsjón með hinni skapandi hlið miðilsins. Það var undir hans stjórn sem Netflix þróaði öflugt algrím sem veit hvað þú vilt næst.

Sarandos virðist kunna að veita okkur það sem við viljum. Eftir að Netflix tók á því að notendur dreifðu lykilorðum sínum hver með öðrum er fyrirtækið sigurvegari streymisveitustríðanna. Það táknar ekki að allt sé ein sigurganga, en Sarandos hefur, í samstarfi við hinn aðstoðarforstjórann, Greg Peters, komið Netflix í toppsætið. Er það gott fyrir okkur? Eða fyrir menninguna? Ég spurði hann.

Hér á eftir fylgir eftirrit samtals Lulu Garcia-Navarro og Ted Sarandos í „Viðtalinu“. Þessi útgáfa er tilklippt.

Spurt: Mig langar til að heyra þitt mat á því sem nú er að gerast í Hollywood eftir að bíóið hrundi. Myndverin eru að segja fólki upp. Hvernig upplifir þú það sem er að gerast ef það er ekki beinlínis stórsigur Netflix? Þið hafið gjörbylt Hollywood og það hefur smitað út frá sér.

Svarað: Eins og í öllum iðnaði sem tekur breytingum eru það þeir sem ráðin höfðu sem sitja í súpunni og þurfa að verja sitt ríki. Við stukkum inn í bransa í breytingum þegar við byrjuðum að senda DVD-diska í pósti fyrir 25 árum. Við vissum að áþreifanlegir miðlar væru ekki framtíðin. Við fórum að fjárfesta í streymi. Og við fjárfestum meira. Það gerðum við vegna þess að við vissum hvert vindar blésu. Sú var tíðin að DVD-bransinn stóð undir öllum okkar gróða og við íhuguðum virkilega að hætta að bjóða DVD-deildinni á starfsmannafundi. Svo vissir vorum við um hvað í vændum væri.

Spurt: Þú segir nokkuð!

Svarað: Það hljómar kannski ekkert merkilega, en gerði það þó að verkum að allt fyrirtækið komst á þá skoðun að við ættum ekki að fjárfesta í gömlum bransa. Það hindrar okkur í að fjárfesta í nýja bransanum og það er hann sem telur.

Spurt: Verandi í þinni stöðu ertu kannski best í stakk búinn til að móta menningarneyslu fólks. Hvað hefur vakið athygli þína þegar kemur að breyttum smekk Bandaríkjamanna?

Svarað: Við erum að sigla inn í nýtt tímabil þar sem efni og flottar sögur geta komið hvaðanæva. Og þetta efni getur líka lifað hillulífi – núna set ég upp gervigæsalappir með fingrunum – við hliðina á uppáhaldsefninu þínu og þú finnur þér allt í einu frábært efni frá Kóreu, magnaða sögu frá Ítalíu eða perlu frá Spáni sem þú kannski hefðir aldrei uppgötvað ellegar. Þú hefðir kannski aldrei vitað um þetta. Framleiðandi Squid Game [kóreskrar þáttaraðar sem vakið hefur gæsahúð sem aðdáun] sá efnið fyrir sér sem kvikmynd í áratug. Hann hafði nánast gefist upp, teymið okkar í Kóreu lagði sig í líma við að sannfæra hann um að sagan væri frábær, en heimur hennar mun stærri. Hann var spurður hvort hann vildi ekki brjóta þennan heim niður í fleiri eindir og sýna okkur meira. Hann settist þá niður og skrifaði handritið að þáttum sem hlutu meira áhorf en nokkurt annað efni í sögu Netflix í heiminum, þar á meðal í Bandaríkjunum.

Spurt: Hefur streymi reynst menningu heillavænlegt?

Svarað: Já, ég held að það hafi komið menningunni frábærlega. Á einhvern undarlegan hátt held ég að það hafi gert heiminn að öruggari stað. Ég held að þú sért berskjaldaðri gagnvart ólíkum menningarheimum, skilningsríkari og samúðarfyllri í senn. Ég veit ekki hvort þú hefur séð kvikmyndina A Separation frá Íran. Hún fjallar um hjón sem skilja þar í landi og þú skilur við áhorfið hve margt við eigum sameiginlegt.

Spurt: Finnst þér það aldrei horfa þér til smækkunar samt? Hér er ég í minni eigin upplifun af mér og vel það sem mig fýsir bara til þess að vera drekkt í því sama áfram. Kastar þetta ekki rýrð á hugmyndina um sameiginlega menningu?

Svarað: Lítum nú til dæmis á Baby Reindeer, hún hefur lagt Bretlandseyjar að fótum sér. Eins og Netflix virkar tínir algrímið hana upp og kynnir hana fleirum vegna þess að þegar eitthvað verður svona stórt í einu landi er líklegt að fleiri aðdáendur finnist annars staðar. Nú er hún orðin húsgangur um allan heim.

Spurt: Hvað með myndverin í Hollywood sem eru að reyna að framleiða hnattrænar sprengjur? Eitthvað sem gengur í Kína og Bandaríkjunum og verður vinsælt í Argentínu …

Svarað: Ég held að þessi hnattvæðing bandarískra kvikmynda hafi tekið þær úr sambandi við áhorfendur. Ástarsambandið við kvikmyndir hefur beðið hnekki vegna þessa.

Spurt: Þú ert kominn með nýjan kvikmyndastjóra, Dan Lin, sem segir mér að þú sért að breyta um hertækni. Þær gagnrýnisraddir hafa heyrst að Netflix framleiði of mikið efni sem gæti vel verið vandaðra, einkum kvikmyndir. Stendur til að herða róðurinn þar?

Svarað: Ég get ekki fallist á að magn og gæði séu þættir sem eigi í innbyrðis stríði. Við höfum fengið átta tilnefningar til Óskarsverðlauna síðustu fimm árin á Netflix (í ljós kemur að þær eru í raun níu). Kvikmyndaáætlunin okkar hefur reynst vel, hún er bara ekki öll í ykkar þágu. Hún á ekki að vera öll í ykkar þágu.

Spurt: Nú var það ekki ljóst frá upphafi að Netflix kæmist þangað sem það er núna. Bréfin ykkar hrundu um sjötíu prósent 2022 eftir að þið misstuð áskrifendur í fyrsta sinn síðan 2011. Hvað gerir þú sem stjórnandi þegar slíkt gerist?

Svarað: Við getum sveiflast um 200.000 áskrifendur á dag og það var það sem gerðist þá, við fórum í 200.000 áskrifenda mínus. Þetta er það sem þú græðir á því að vera lengi á markaði. Við höfum átt okkur mun myrkari tímabil en á fyrstu dögum okkar, á þeim tíma sem við vorum ekki eina fyrirtækið á almennum markaði.

Spurt: Þið köstuðuð sumum ykkar elstu meginreglum fyrir róða, til dæmis að hleypa auglýsendum ekki inn til ykkar. Þið tókuð upp auglýsingastyrkt áskriftarkerfi. Var það ekki viss U-beygja, að svíkja ykkar eigin kennisetningar?

Svarað: Við vorum aldrei í „harðri andstöðu“ við auglýsingar. Við vildum bara stilla okkur upp á öndverðum meiði við sjónvarp, rétt eins og á DVD-tímanum vildum við vera öðruvísi en vídeóleigurnar að því leyti að það yrðu engar rukkanir eftir á. Hvað er það sem fólki finnst að sjónvarpi? Að horfa á auglýsingar og bíða í viku eftir næsta þætti? Það eina sem við gerðum var að gefa fólki, sem var sama um að fá auglýsingar en vildi lægra verð, valkost, í þessum heimi allsnægta.

Spurt: Mig langar að fá að vita meira um þig sem stjórnanda. Árið 2020 sneristu á sveif með hreyfingunni Black Lives Matter. Þegar Rússar réðust á Úkraínu lokaðirðu á Netflix í Rússlandi. Engu að síður eru aðgerðasinnuð fyrirtæki á útleið. Ég velti því fyrir mér hvað þú segir við þessu?

Svarað: Þegar þú hugsar um fjölbreytileika þá á hann að vera alls staðar, líka í hugsunum okkar sem gerir fyrirtækjum erfitt fyrir að reka pólitíska aðgerðastefnu vegna þess að fólk hefur mismunandi skoðanir, ólíkar hugmyndir og ólíkar hugsanir og þú ert fulltrúi ótal kjósenda. Þess vegna held ég að fyrirtæki ættu að stíga mjög varlega til jarðar í því hvernig þau fara inn í þessar umræður. Stundum þegar um er að ræða algjörlega svarthvítt val, rétt eða rangt – ég er þeirrar skoðunar að lokunin á Rússland hafi verið skýrari ákvörðun en við höfum nokkurn tímann tekið. Það er útilokað að eiga viðskipti við Rússland án þess að eiga viðskipti við þessa ríkisstjórn. Ég leit ekki á þetta sem stjórnmál. Mér fannst bara ekki annað hægt.

Spurt: Þú þekkir til annarra Hollywood-fyrirtækja – svo sem Disney – og nú sjáum við Google taka hart á aðgerðasinnum í sínum röðum. Þú segir að stíga þurfi varlega til jarðar. Hvernig sérðu það fyrir þér hjá fyrirtæki sem ætlar að vera öllum allt?

Svarað: Fólk skynjar heiminn mismunandi. Ég held að það sé mjög erfitt að halda því fram að okkar viðhorf endurspegli viðhorf allra félaga okkar og alls starfsfólksins. Ég hugsa að þangað náum við seint en þangað vil ég ná. Ekki veit ég hvað gerðist núna síðustu tvö árin þegar fólk fór að gera kröfur til yfirmanna stórfyrirtækja í þessum efnum. Það var ekki þannig.

Spurt: Hver er þá keppinautur ykkar núna?

Svarað: Við keppum um skjátíma. Við erum í samkeppni við samfélagsmiðla, YouTube og önnur streymiforrit, tölvuleiki.

Spurt: YouTube er stærra fyrirbæri en þið. Það er að mestu ókeypis. Þið eruð það ekki. Hvernig keppirðu við ókeypis keppinauta?

Svarað: Þú þarft að vera greiðslunnar virði alltaf. Vera betri alltaf, við efnisvalið og það sem er á bak við það, að taka umræðuna frá öllum aðflugshornum og skapa þörfina fyrir að verða að sjá eitthvað.

Spurt: Litið til framtíðar, hvað óttastu einkum?

Svarað: Ég hef mestar áhyggjur af innbyrðis stjórnun. Hér er annað fyrirtæki á ferð núna með 270 milljónir áskrifenda um allan heim en þegar ég byrjaði og vorum við með 175.000 áskrifendur í Bandaríkjunum sem fengu senda DVD-diska. Þetta snýst um hvernig þú þróar fyrirtækið, hvernig þú forðast fortíðarþrána og dettur ekki í einhverja einu sinni var-rómantík. Kvikmyndir, tölvuleikir, sjónvarp og uppistand – öll þessi fyrirbæri eru raunveruleg list. Annað væri bara að drepa tímann og þá hefði ég áhyggjur af TikTok.

Spurt: Dómgreindar er þörf í öllum afþreyingargeirum. Hvað passar ekki fyrir Netflix?

Svarað: Ég held að við því sé ekkert eitt svar. Besta útgáfan af einhverju gæti virkað vel fyrir Netflix en það hefur þó ekki sýnt sig enn. Margt er augljóst, við munum ekki rjúfa áhorf fyrir fréttir og svoleiðis, því sinna nægilega margir aðrir. Fólk lítur ekki til okkar í þeim efnum.

Spurt: Eitt langar mig virkilega að vita um þinn sjónarhól og það er hvernig gervigreind muni hafa áhrif á sköpunarþáttinn.

Svarað: Ég er þeirrar skoðunar að gervigreind sé bara eðlilegt framhald þess sem er að gerast um þessar mundir innan skapandi greina. Sýndarsvið [e. volume stages] komu ekki í stað kvikmyndatöku á staðnum. Handritshöfundar, leikstjórar og ritstjórar munu nota gervigreind sem verkfæri til að sinna störfum sínum betur og skila betri afköstum og meiri gæðum. Í besta falli verður hægt að gera hið ómögulega á skjá. Hugsaðu þér það risaskref sem er á milli teikningar í höndunum og tölvuteikningar og sjáðu hve margir fleiri starfa nú við teiknun en áður. Manstu hvað allir andæfðu myndbandstækjunum? Áratugum saman neituðu kvikmyndaverin að selja sjónvarpinu sýningarrétt. Allar tækniframfarir í afþreyingarbransanum mættu andstöðu áður en þær sönnuðu sig. Ég sé ekki að þetta verði neitt öðruvísi.

Spurt: Munurinn er kannski að öll þessi fyrirbæri voru verkfæri sem nýttust til að rýmka sköpunarsviðið. Nú eru margir á því að gervigreindin komi í stað skaparanna.

Svarað: Ég hef meiri trú á mannfólkinu en svo. Ég efast um að nokkurt gervigreindarforrit muni skrifa betra handrit en góður höfundur, né að það muni koma í stað góðra verka með þeirri lendingu að við sjáum ekki muninn. Gervigreindin mun ekki svipta okkur störfunum, manneskjan sem notar gervigreindina gæti gert það.

© 2024 The New York Times Company