Við stjórnarskiptin blasa við stórverkefni til varnar landi og þjóð. Þau verða ekki leyst með ESB-aðild.

Vettvangur

Björn Bjarnason

bjorn@bjorn.is

Ársins 2024 verður minnst vegna stjórnmálaumbrota í lýðræðisríkjum austan og vestan Atlantshafs. Samhliða hafa tengsl milli einræðisríkja styrkst vegna stríðsreksturs í Úkraínu. Þá hafa valdahlutföll fyrir botni Miðjarðarhafs gjörbreyst, Ísrael í hag.

Allt eru þetta stórtíðindi. Alþjóðaathygli hefur þó lítið beinst að stjórnarskiptunum hér fyrir réttri viku, 21. desember. Þau skipta þó mestu fyrir okkur á heimavelli og fylgja góðar óskir nýrri stjórn.

Samfylkingin eignast forsætisráðherra, Kristrúnu Frostadóttur, í annað skipti í 25 ára sögu sinni. Þrána eftir að flokkurinn næði embættinu mátti merkja af stappi, blístri og hrópum sem bárust úr salnum í Tjarnarbíói þegar flokksstjórnin kom saman til að samþykkja ríkisstjórnina. Myndir úr anddyri bíósins sýndu að fundarmenn komust við vegna upphefðar flokksins.

Engar sambærilegar myndir birtust vegna fundarhalda á vegum Flokks fólksins enda eru þar engin ráð eða nefndir. Inga Sæland flokksformaður ræður því sem hún vill og tók lagið hvað eftir annað af gleði, meira að segja á fyrsta fundi ríkisstjórnarinnar.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar er sú eina í hópnum sem hefur setið áður við ríkisstjórnarborðið. Hin 10 eru þar nýliðar, ein hefur aldrei áður setið á þingi, Alma Möller heilbrigðisráðherra, annar situr ekki á alþingi, Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra.

Utanríkisráðherra Þorgerður Katrín sat fjögurra tíma fund með samstarfsfólki sínu í ráðuneytinu á Þorláksmessu og ræddi stöðu Íslands í heiminum. Þar hefur hún væntanlega verið upplýst um þá skoðun utanríkisráðuneytisins að ESB-aðildarviðræðum Íslands var slitið árið 2015 eins og segir í opinberum gögnum frá ráðuneytinu, nú síðast 8. nóvember 2024.

Allar hártoganir hér á heimavelli um stöðuna gagnvart ESB að þessu leyti hljóma forkostulega í Brussel. Framkvæmdastjórn ESB hefur réttilega tekið Ísland af lista ESB-umsóknarríkja. Heimti Þorgerður Katrín að þessum ákvörðunum eigin ráðuneytis og stjórnvalda ESB verði breytt í samræmi við rangt orðalag í sáttmála nýju ríkisstjórnarinnar er það vísbending um að einskis verði svifist til blekkinga vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar um ESB-aðildarumsókn sem boðuð er árið 2027.

Um stjórnarsáttmálann í heild má segja að til hans hafi verið kastað höndum. Ráðherrar eru ekki á einu máli um hvað í orðalagi hans felst. Mátti ráða af ummælum forsætisráðherra eftir fyrsta ríkisstjórnarfundinn að þar hefðu ráðherrar leitast við að komast að sameiginlegri niðurstöðu um hvað í sáttmálanum fælist. Við sáttmálasmíðina var leitað aðstoðar starfsmanna Alþýðusambands Íslands enda lýsti forseti ASÍ sérstakri ánægju yfir efni hans.

Allt skýrist þetta og vonandi skilja ráðherrarnir til dæmis fljótt að þeir þurfa ekki að taka afstöðu til bókunar 35 við EES-samninginn heldur einungis að breyta orðalagi á EES-lögunum frá 1993 til að tryggja betri réttarstöðu Íslendinga á innri markaði Evrópu.

Í stjórnarsáttmálanum er ekki minnst á varnarsamninginn við Bandaríkin. Það er einkennileg gleymska á tímum þegar meira kann að reyna á samninginn en jafnvel nokkru sinni frá því að hann var gerður árið 1951. Í sáttmálunum segir: „Mótuð verður öryggis- og varnarmálastefna.“ Hvað felst í þessum orðum? Hverjir verða kallaðir til þessarar stefnumótunar?

Ólíklegt er að minna þurfi Bandaríkjastjórn undir forsæti Donalds Trumps á varnarsamninginn eða gildi Norður-Atlantshafs og norðurslóða fyrir heimavarnir Bandaríkjanna.

Trump dró sjálfur athygli að því hve mikilla öryggishagsmuna Bandaríkjamenn hefðu að gæta á okkar slóðum þegar hann bar að nýju víurnar í Grænland á dögunum. Grænlendingar líta æ oftar til vesturs þegar þeir huga að öryggi sínu þótt þeir vilji ekki verða 51. ríki Bandaríkjanna. Danir kynntu á aðfangadag áætlun um milljarða útgjöld í þágu varna Grænlands og norðurslóða.

Hér hefur áður verið vakin athygli á að Kanadastjórn birti 6. desember 2024 sögulegt stefnuskjal um utanríkisstefnu sína á norðurslóðum, Arctic Foreign Policy. Kanadastjórn hefur skilgreint Norðvestur-Atlantshaf sem ábyrgðarsvæði sitt innan NATO. Óljóst er hvað í þeim orðum felst en með íslensku frumkvæði mætti ef til vill hafa áhrif á það.

Mikilvægi öryggis- og varnartengslanna milli Íslands og NATO-ríkjanna í Norður-Ameríku er gagnkvæmt og inntak tengslanna mun skýrara en milli Íslands og ESB-ríkjanna. Því má velta fyrir sér hvort tengslin við Norður-Ameríkuríkin hættu að verða tvíhliða gengi Ísland í ESB. Tæki utanríkis- og varnarmálaþjónusta Evrópusambandsins málin í sínar hendur? Það yrði söguleg afturför, andstæð þjóðarhagsmunum.

Óljós afstaða Trumps til þátttöku í vörnum meginlands Evrópu hefur knúið forystumenn ESB-landanna til að huga að auknu varnarsamstarfi og meiri evrópskum stuðningi við Úkraínu.

Óvissa í Evrópu minnkar ekki við stjórnarkreppu í Þýskalandi og þingkosningar þar 23. febrúar 2025 og vandræði Emmanuels Macrons Frakklandsforseta eftir að hann missti meirihluta á franska þinginu.

Það er pólitískt tómarúm á toppnum í Evrópu þegar stríð er háð í austurhluta hennar við einræðisherra sem hefur fullveldi ríkja og landamæri að engu vegna eigin stórveldisdrauma.

Við stjórnarskiptin blasa við stórverkefni til varnar landi og þjóð. Þau verða ekki leyst með ESB-aðild. Þvert á móti sýna skref í þá átt rangt mat á hvernig öryggi þjóðarinnar verður best tryggt í bráð og lengd.