— Sara Jane Ho
Sara Jane Ho Fólk fer iðulega í baklás yfir hugmyndinni um „kurteisisvenjur“. Mörgum finnst þær vera yfirstéttarforngripur liðins tíma, sem snúist um að muna hvaða gaffal eigi að nota við kvöldverðarborðið

Sara Jane Ho

Fólk fer iðulega í baklás yfir hugmyndinni um „kurteisisvenjur“. Mörgum finnst þær vera yfirstéttarforngripur liðins tíma, sem snúist um að muna hvaða gaffal eigi að nota við kvöldverðarborðið. Fólki finnst orðið jafnvel þrúgandi eins og það sé að reyna að stjórna og hemja, en kurteisisvenjur eru ekki óbifanlegt hugtak.

Kurteisisvenjur eru þvert á móti skapandi hegðun sem ræðst af samhenginu og snýst um að draga fram bestu mögulegu útgáfuna af okkur sjálfum. Þær hafa einnig orkuna til að laga sig að þörfum okkar breyttu tíma. Það þarf ekki að fylgja hefðum fortíðarinnar bara til þess að hlýða kurteisisvenjum, en að kynna sér hvers vegna grundvallarhefðir komust á hjálpar til við að útskýra ástæðurnar fyrir hegðun okkar.

Hinn forni uppruni handabandsins var að sýna öðrum að maður væri ekki vopnaður. Að sama skapi varð sú venja að skála til svo að gestgjafar gætu sýnt út á við að þeir væru ekki að eitra fyrir gesti sína: Glösum er slegið saman þannig að áfengið skvettist yfir í drykkjarílát næsta manns. Margvíslegir þættir úr kurteisisvenjum, sem eru sameiginlegar milli menningarheima, eiga sér djúpar rætur í tortryggni í garð nágranna okkar. Það eru ekki fréttir að slík tortryggni fari vaxandi og þræðirnir í samfélaginu séu að rakna upp. Daglega lesum við nýjar féttir af sögulegum dónaskap og stundum jafnvel ofbeldi.

Öldum saman hafa kurteisisvenjur átt þátt í að slípa hvössu brúnirnar af félagslegu misvægi. Á okkar tímum geta þær slegið á hina eitruðu skautun og gert okkur kleift að búa í samlyndi við granna okkar jafnvel þótt – og kannski sérstaklega þegar – við erum ósammála.

Að sýna virðingu í samskiptum, hlusta fyrir alvöru og lagni í að leysa ágreining eru dæmi um hvernig við getum notað kurteisisvenjur til að koma okkur saman við aðra á tímum óstöðugleika í heiminum. Flokkadrættir kunna að valda klofningi í okkar heimi, en þegar ólíkir hópar stefna að því að ná sömu markmiðum geta kappræður verið uppbyggilegar ef báðir aðilar hafa kurteisisvenjur í huga.

Okkar tímar kalla á að kurteisleg samskipti verði endurvakin í okkar borgaralega samfélagi. Grunngildi kurteisisvenja eru illilega vanmetin, en þær geta hjálpað okkur að ná saman því að þær minna okkur á það að við deilum mennskunni.

Sara Jane Ho er stofnandi Sarita-stofnunarinnar þar sem kenndir eru mannasiðir, stjórnandi þáttarins Mind Your Manners á Netflix og höfundur bókarinnar Mind Your Manners: How to Be Your Best Self in Any Situation.

© 2024 The New York Times Company og Sara Jane Ho