Magnús B. Jóhannesson
Magnús B. Jóhannesson
Gera verður mun á orsök og afleiðingu hærra raforkuverðs. Vegna skortstefnu stjórnvalda er mjög erfitt að auka framboð á grænni orku.

Magnús B. Jóhannesson

Ástandið í grænni orku á Íslandi hefur sjaldan verið verra. Illa gengur að fá leyfi fyrir grænni orku. Auðveldara er að fá leyfi fyrir dísilorkuveri (tvö ár) en grænorkuveri (16 ár) á Íslandi í dag eins og undirritaður benti á í grein sem birtist í Vísi 25. nóvember. Undanfarin ár hefur þurft að skerða raforku á hverjum vetri því ekki er næg orka til í landinu. Spáð er að svo verði einnig næstu ár. Skortsástandið hefur afleiðingar.

Orsök: Skortstefna stjórnvalda

Nú eru afleiðingarnar að koma í ljós af skortstefnunni sem ríkisstjórnir undanfarin ár hafa keyrt í orkumálum landsmanna undir merkjum umhverfisverndar og friðunar lands.

Hluti skýringarinnar er náttúrulegur en annar hluti sjálfskapaður, Íslendingar komu sér í þessa stöðu sjálfir með skortstefnu, aðgerðaleysi og hindrunum.

1. Rammaáætlun. Áætluninni er ætlað að svara einni spurningu: Á að friða ákveðið land eða má nýta það til grænnar raforkuvinnslu? Brátt verður búið að friða um 50% af Íslandi, sem ýmsum þykir nóg. Verkefni sem fara í rammaáætlun taka að meðaltali 16 ár í vinnslu og dæmi um að verkefni hafi tekið 23 ár.

2. Skipulagsmál. Dæmi er um að breytingar á aðalskipulagi hafi tekið allt að sjö árum vegna grænna raforkuverkefna.

3. Umhverfismat þarf að gera þar sem tugir rannsókna fara fram á ýmsum atriðum. Rannsakað er hvernig grænorkuverkefni geta haft áhrif á umhverfið. Slíkar rannsóknir geta tekið þrjú ár.

4. Dæmi er um að umsóknir virkjanaaðila um virkjanaleyfi Orkustofnunar hafi tekið eitt og hálft ár.

5. Virkjunaraðilar grænnar orku þurfa að sækja um ýmiss konar önnur leyfi, sem samtals getur tekið eitt ár.

Hvert mannsbarn sér að ef kerfið er sett upp með þeim hætti sem hér er lýst er nánast útilokað að koma nýjum grænorkuverkefnum í gegnum leyfisveitingaferlið. Framboð hefur því ekki haldið í við eftirspurnina.

Á sama tíma og nánast útilokað er að fá leyfi fyrir grænni orku hafa uppstöðulón vatnsaflsins liðið skort því þurrkar hafa valdið því að lónin fyllast ekki.

Afleiðing: Raforkuverð hefur hækkað og mun hækka meira

Fjallað hefur verið um raforkuverðshækkanir undanfarna daga í fjölmiðlum sem raungerst hafa undanfarið. En þetta er bara byrjunin, því miður. Hvernig má það vera?

Skortstefnan og þetta þunga leyfisveitingakerfi gera það að verkum að framboð og eftirspurn hafa ekki haldist í hendur. Einföld hagfræði bendir til þess að þegar slíkt ástand skapast þá hefur það neikvæð áhrif á verð til neytenda, fleiri slást um að kaupa og yfirboð fara af stað.

Sumir segja að hækkun raforkuverðs sé markaðnum að kenna. Það er misskilningur en árinni kennir illur ræðari. Skortsástandið skapar yfirboð kaupenda á heildsölumarkaði sem eru tilbúnir að greiða meira til að fá vöruna afhenta því þeir þurfa að uppfylla skuldbindingar gagnvart viðskiptavinum sínum á smásölumarkaði. Þannig verður til ástand verðhækkana raforku.

Stjórnvöld hafa ekki gert neitt til að liðka fyrir orsökinni, þ.e. mjög þungu leyfisveitingakerfi. Afleiðingin er hærra raforkuverð sem mun hækka enn meir þegar afleiðingar skortstefnunnar koma betur í ljós því eftirspurnin mun aukast enn frekar á komandi árum vegna m.a. fjölgunar landsmanna.

Íslendingar hafa nú þegar virkjað alla ódýrustu virkjunarkosti sína í vatnsafli og jarðvarma. Raforkuverð frá nýjum kostum mun þurfa að vera hærra. Eina leiðin til að verjast þessu er að bæta vindorku við samsetninguna, en raforkuverð frá vindmyllum hefur lækkað umtalsvert á undanförnum árum.

Afleiðing: Forgangsröðun raforku

Vegna ríkjandi orkuskorts í landinu undanfarin fimm ár er ítrekað verið að fjalla um og kalla eftir að raforku sé forgangsraðað. Slíkt brýtur í bága við samkeppnislög.

Fyrir utan að brjóta í bága við lög er forgangsröðun ekki góð hugmynd því hún mismunar viðskiptavinum og aftengir verðskilaboð markaðarins. Hækkandi raforkuverð er afleiðing (ekki orsök) ástands sem skapað er. Í stað þess að aftengja skilaboðin (skjóta sendiboðann) er mikilvægt að fá upplýsingarnar svo hægt sé að bregðast við orsökinni.

Einungis með auknu framboði skapast eðlilegt ástand milli seljenda og kaupenda til framtíðar. Allt inngrip í markaðinn mun skekkja hann og skapa enn meiri vandamál til lengri tíma litið, sem krefst enn meira inngrips seinna meir.

Lokaorð

Skortsástand grænnar raforku sem stjórnvöld hafa skapað undir merkjum umhverfisverndar hefur valdið íslensku þjóðinni stórkostlegum skaða. Afleiðingin er að koma í ljós núna með hærra raforkuverði til neytenda sem ekki sér fyrir endann á. Leggja verður niður rammaáætlun og straumlínulaga leyfisveitingaferli grænnar orku strax. Langan tíma tekur að byggja ný grænorkuver og ekki seinna vænna að hefjast handa strax svo að hægt verði að koma í veg fyrir stórkostlegan skaða þjóðarinnar á komandi árum.

Höfundur er framkvæmdastjóri StormOrku.

Höf.: Magnús B. Jóhannesson