Árni Yngvason fæddist 27. apríl 1946 í Árnesi í Trékyllisvík, Strandasýslu. Hann lést í Orihuela í Alicante-sýslu á Spáni 21. nóvember 2024.

Foreldrar hans voru séra Yngvi Þórir Árnason f. 17.9. 1916, d. 4.2. 1991, og Jóhanna Helgadóttir prestsfrú, f. 27.9. 1927, d. 6.2. 2022.

Árni ólst upp á Prestbakka í Hrútafirði og var elstur í tíu systkina hópi. Á eftir honum komu þríburarnir Gísli, Helgi og Ragnheiður. Þar næst Sigurbjörg, Eysteinn, Hulda, Guðmundur, Magnús og síðust Þórdís. Gísli, Helgi og Sigurbjörg eru látin.

Eftirlifandi eiginkona Árna er Sigrún Bergmann Baldursdóttir verslunarkona. Börn Árna eru fimm talsins: 1) Sveinbjörn Ragnar, maki Kristín Harpa, sonur þeirra er Axel Hjörtur. 2) Sigrún Halla, maki Hannes Hrafn, dætur Sigrúnar eru Snædís og Sóley. 3) Hilmar Þór. 4) Hafsteinn Bergmann. 5) Thelma Bergmann, maki Atli Rúnar, börn eru Sesar Jan, Ísold Svana, Úlfur Árni og Frosti Jóhann.

Árni gekk í Reykjaskóla. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1965. Eftir það lagði hann stund á nám við læknadeild Háskóla Íslands í tvö ár, en lauk ekki námi. Árið 1978 lauk Árni atvinnuflugmannsprófi. Árið 1981 öðlaðist hann flugstjóraréttindi (ALTP).

Árni var flugrekstrarstjóri hjá Leiguflugi Sverris Þóroddssonar frá árunum 1978-1985, samhliða því að vera flugmaður hjá fyrirtækinu. Árni starfaði einnig hjá Arnarflugi frá árunum 1985-1991. Á árum sínum sem flugmaður sinnti hann einnig sjúkraflugi.

Árið 1991 stofnaði Árni ásamt Sigrúnu eiginkonu sinni byggingarvöruverslunina Vídd. Í byrjun fluttu þau Árni og Sigrún inn náttúrustein, sem prýðir meðal annars Ingólfstorg og Gerðarsafn (Listasafn Kópavogs) svo dæmi séu nefnd. Fljótlega fóru þau út í innflutning á flísum og öðrum byggingarvörum. Vídd er í dag rekið af fjölskyldu Árna.

Minningarathöfn fer fram í dag, 28. desember 2024, á heimili Árna.

Ég heyri lykil snúast í skráargatinu á útidyrahurðinni á Sæbóli. Ég tek á rás niður stigann. Ég sé pabba með brúnu leðurskjalatöskuna sína, nýkominn heim úr vinnu, þreyttan eftir langan dag. Ég hoppa í fangið á honum. Hann lyftir mér og faðmar mig. Það var enginn faðmur jafn hlýr og öruggur. Hann var nefnilega öryggið, áttavitinn og kletturinn. Þegar á reyndi stóð hann sem fjall í stormi, haggaðist ekki, heldur var staðfastur og kyrr. Heiðarleiki og réttsýni voru gildin hans. Ég mun ávallt minnast hans sem fyrst og síðast góðmennis, sem stóð með því sem var rétt, en ekki því sem hentaði. Hann kenndi mér að efast og vera spyrjandi. Taka ekki öllu sem sagt væri sem gefnum hlut og að ekki væru allir viðhlæjendur vinir. Vinsældir skiptu litlu ef þær væru byggðar á falsi, og að maður væri heppinn ef maður ætti einn góðan vin.

Pabbi var alinn upp í Hrútafirði ásamt systkinum sínum. Einangrunin í gamla daga í sveitinni hefur kveikt upp í ímyndunarafli ungra barna og líklega margir draumar kviknað í firðinum fyrir norðan. Draumar sem mörg þeirra eltu um víða veröld. Sigrar og ósigrar, eins og gerast í alvöruævintýrum. Pabbi var nefnilega ævintýramaður. Þegar ég kem í þennan heim var hann flugmaður. Það er fjölmargt áhugavert við flugmannsferil pabba. Hann sinnti meðal annars sjúkraflugi og þótti frekar áhættusækinn í faginu. Því verra sem veðrið var, því skemmtilegra þótti pabba að fljúga. Það kemur þeim ekki á óvart sem þekktu manninn. Mér er minnisstæð sagan sem mér var sögð af því þegar pabbi kom fljúgandi inn að Prestbakka þar sem foreldrar hans bjuggu. Hann lék sér að því að fljúga undir rafmagnslínur. Amma þoldi þessa skemmtun illa og skreið upp í rúm og breiddi sæng yfir höfuð sér í áhyggjukasti. Að öðru leyti var pabbi samt andstæðan við áhættusækni. Hann keypti sér mótorhjól þegar ég var í kringum tvítugt, en seldi það fljótt þegar honum fannst við systkinin aðeins of áhugasöm um gripinn. Hann var nýjungagjarn, og var sennilega einn fyrsti apple-maður landsins. Þegar Teslur komu svo á markaðinn var pabbi fljótur að átta sig á þeirri nýjung. Þrátt fyrir að vera búinn að glíma við eftirköst heilablæðingar lét hann það ekki stoppa sig í að fá sér Teslu, bíl með tölvuskjá sem mælaborð.

Þegar ég var lítil sá ég ekki fram á að geta andað ef pabbi hyrfi inn í eilífðina, og tilkynnti honum að ég ætlaði að deyja með honum í flugslysi. Honum fannst það auðvitað fáránleg hugmynd.

Elsku pabbi, hvernig erum við bara hér? Þegar ég skutlaði þér og mömmu upp á Keflavíkurflugvöll í október hafði ég ekki minnsta grun um að ég kæmi sjálf mánuði seinna að sjá þig í hinsta sinn, og fljúga svo með þig heim í kari. Tilhugsunin um þá ferð er sem rýtingur í brjósti sem ég næ ekki að losa út, því ég veit að ef ég losa hann þá fer bara að fossblæða. Það sem heldur mér gangandi er að ég finn að þú ert enn með okkur, ég finn fyrir styrk þínum. Þú ert hérna enn þótt við sjáum þig ekki. Enda vanur að passa upp á þitt fólk.

Elska þig, og get ekki beðið eftir að faðma þig aftur.

Thelma Bergmann Árnadóttir.

Kletturinn í fjölskyldunni er farinn og það er óraunveruleg tilhugsun. Farinn er maður sem stóð af sér nokkra blóðtappa, heilablæðingu og krabbamein en stóð keikur eftir. Pabbi hætti að fljúga skömmu áður en Arnarflug leið undir lok. Hann hóf eigin rekstur með granít og náttúrusteina. Það er magnað að hugsa til þess hvernig honum tókst að búa til viðskiptasambönd erlendis, fyrir tíma internets og tölvupósts. Fyrirtækið hans Vídd ehf. byrjaði heima á Sæbólsbrautinni þar sem hann setti upp skrifstofu í kjallaranum og á þriðju hæð hússins var telefax-tækið. Minningin að sjá hann hlaupa upp og niður hæðir hússins er því ljóslifandi fyrir manni. Árið 1993 opnaði hann fyrstu verslunina á Suðurlandsbraut 6 og varð rekstur þess mjög farsæll um árabil og er það fyrirtæki í dag í höndum okkar barna hans.

Hann sótti sér gjarnan þekkingu í bókabúðir með kaupum á tímaritum um tiltekin málefni. Þetta átti sérstaklega við um allt sem snerti nýja tækni. Hann var fyrstur til að sýna manni hvernig netið virkaði þegar það var nýkomið. Hann var einnig sá fyrsti til að fá sér farsíma. Hans áhugamál var ljósmyndun, þannig átti hann allt það nýjasta í myndavélabúnaði. Honum þótti ekki tiltökumál að fjárfesta í nýjum græjum. Að öðru leyti var hann afar sparsamur og hafði óþol fyrir bruðli.

Sólarlandaferðir voru bruðl í hans huga. Við fjölskyldan náðum þó einni Kanaríferð saman í heilar tvær vikur. Ferðalög voru því bundin við einhvern tilgang, yfireitt reksturinn. Ánægjulegustu stundirnar voru þó ferðalögin á Íslandi. Að keyra þvert yfir landið, upp á hálendið eða undir jöklum. Það var þó ekki fyrr en hann var sestur í helgan stein að sólarlönd fengu loksins tækifærið þegar hann átti sína síðustu daga á Spáni.

Við ferðuðumst einnig saman á vörusýningar erlendis. Í þessum ferðum kynntist ég pabba betur. Hann var minn helsti mentor. Í fyrstu ferðunum fékk maður kennsluna hvernig ætti að bera sig að í viðskiptum við erlenda aðila. Hvernig ætti að haga sér, hvað ætti að gera og hvað ætti alls ekki að gera. Fyrir þetta er ég þakklátur og þegar ég lít til baka var þetta dýrmæt lífsreynsla. Ég varð þess fljótt áskynja hvað hann naut mikillar virðingar erlendis. Í þá þrjá áratugi sem hann var í flísabransanum féll aldrei skuggi á orðspor hans. Hann stóð við allar sínar skuldbindingar. Eftir bankahrunið 2008 var orðspor Íslands í ruslinu, þá naut hann samt trausts og velvildar í krefjandi aðstæðum.

Það var alltaf gott að leita ráða til hans með alls konar verkefni. Hann var mér og Thelmu stoð og stytta í gegnum námið okkar. Allt frá aðstoð við algebru í grunnskóla yfir í að fínpússa texta fyrir ritgerðirnar í meistaranámi. Eftir stendur minning um merkan mann. Ég á eftir að sakna hans mikið, sérstaklega þegar ég þarf á góðum ráðum að halda.

Hvíldu í friði elsku pabbi.

Hafsteinn.

Það er með miklu þakklæti í hjarta sem ég skrifa um tengdaföður minn Árna Yngvason. Það má segja að okkar samskipti hafi byrjað svipað og mynd eftir David Attenborough. Árni var á þeim tíma aðalljónið og höfuð fjölskyldunnar. Ég var þá ungt ljón og nýbúinn að kynnast dóttur hans. Til að gera söguna ekki of langa þá áttum við nokkrar rimmur í byrjun þar sem unga ljónið sem allt þóttist vita tókst á við það gamla um gömlu leiðirnar og hvernig ætti að gera hlutina. Það var einmitt í þessum rimmum sem úr varð mikill vinskapur og virðing. Í raun svo mikill að sonur okkar Thelmu var skírður í höfuðið á Árna. Fyrirtækið hans Árna, Vídd, var það sem átti allan hans tíma og stundir. Þau Sigrún byrjuðu með það sem lítið „startup“-fyrirtæki í bílskúrnum heima hjá sér í Kópavoginum. Með þrautseigju og elju byggðu þau hjónin upp sterkt fjölskyldufyrirtæki. Það var þar sem við Árni eyddum saman mestum tíma, þar sem ég var svo lánsamur að fá að vinna með honum og læra af honum. T.d. hef ég verið svo heppinn að fá að hitta og kynnast mörgum af hans viðskiptafélögum frá Ítalíu og það var ekki fyrr en ég fór út sjálfur til Ítalíu að ég áttaði mig almennilega á hvers konar goðsögn hann er þar í bransanum. Árni var að flytja inn til litla Íslands meira magn af flísum en mörg fyrirtæki í fjölmennari borgum á Norðurlöndunum. Börnin okkar eiga eftir að sakna afa síns mikið. Það er með þakklæti sem ég vil minnast þín, þakklæti fyrir allt það sem þú hefur kennt mér og þakklæti fyrir allt það sem þú hefur gefið mér. Ég kveð þig í bili með söknuð í hjarta og því loforði að passa upp á okkar fólk.

Þinn vinur,

Atli Rúnar.

Afi minn hann Árni var klárasti maður sem ég þekkti. Hann elskaði stærðfræði eins og ég. Hann tók líka flottustu myndirnar og tók svo margar fallegar myndir af mér þegar ég var eins árs til fjögurra ára áður en hann varð veikur. Hann fann líka upp á besta ísnum; vanilluís með Egils-appelsíni í glasi.

Sakna þín, þín afastelpa,

Ísold Svana.