ANDREA SIGURÐARDÓTTIR
er fréttastjóri viðskipta á Morgunblaðinu og hefur mikið fjallað um viðskipti, athafnalíf og stjórnsýslu.
Líkt og undanfarin ár hefur íslenskt viðskipta- og efnahagslíf litast af þrálátri verðbólgu og háum vöxtum á árinu sem nú er að líða. Nokkuð var um gjaldþrot meðal rótgróinna fyrirtækja. Opinberar tölur yfir gjaldþrot ársins liggja ekki enn fyrir en þau voru með mesta móti meðal fyrirtækja í virkum rekstri árið 2023. Sú tilfinning læðist að manni að þau hafi ekki verið færri í ár.
Það hillir þó undir bjartari tíma. Verðbólga hefur haldið áfram að hjaðna á árinu. Í árslok 2023 mældist ársverðbólga 7,7% en hún mælist nú 4,8%. Vaxtalækkunarferli peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands hófst í byrjun október en fram að því höfðu stýrivextir Seðlabankans verið 9,25% í á fjórtánda mánuð.
Til marks um aukna bjartsýni hefur úrvalsvísitala íslensku kauphallarinnar (OMXI15) hækkað um 13% á árinu. Reyndar var fátt um dýrðir framan af ári á markaðinum en í febrúar tók vísitalan að lækka og náði hún lágpunkti á árinu í lok júní þegar hún hafði lækkað um 8,5% á árinu. Það var ekki fyrr en í september sem það fór að blása kröftuglega í seglin, en frá 11. september sl. hefur vísitalan hækkað um 23%.
Sigrar og sorgir í viðskiptalífinu
Eftir töluverðar þreifingar, ítrekuð tilboð og framlengda fresti var yfirtaka JBT á Marel loks samþykkt með miklum meirihluta og öll skilyrði yfirtökutilboðsins um leið uppfyllt. Yfirtakan tekur formlega gildi strax á nýju ári. Þetta eru góðar fréttir fyrir hluthafa Marel og íslenskan hlutabréfamarkað sömuleiðis, enda mun fjármagn streyma inn á markaðinn í kjölfar sölunnar og er sú innspýting kærkomin.
Hluthafar Kviku geta sömuleiðis fagnað góðri uppskeru, en bankinn seldi TM á árinu til Landsbankans. Enn er blessunar Samkeppniseftirlitsins beðið en líklegt þykir að hún fáist. Kvika fékk sitt út úr kaupunum á TM á sínum tíma og losar nú um fjármagn til þess meðal annars að undirbyggja frekari vöxt. Eftir situr þó sú athyglisverða ákvörðun þáverandi bankaráðs að fara gegn vilja eiganda síns og þenja út eignarhald ríkisins á fjármálamarkaði, sem mörgum þótti nóg fyrir.
Samfélagið á Akranesi varð fyrir miklu áfalli þegar Skaginn 3X fór í þrot. Framan af var ekki útlit fyrir að tækist að selja eignir þrotabúsins í einu lagi, eins og vonir stóðu til. Öll von virtist úti þegar þær góðu fregnir bárust að samningar hefðu náðst um sölu eignanna til Kapp.
Bræðurnir Sigurður Gísli og Jón Pálmasynir, eigendur IKEA á Íslandi, seldu á árinu rekstur IKEA í Eystrasaltsríkjunum. Söluverð liggur ekki fyrir en ætla má að það nemi tugmilljörðum og eru viðskiptin með þeim allra stærstu á Íslandi á síðari árum.
Lítið var um almenn hlutafjárútboð á árinu og reyndist uppskeran rýr í þeim sem þó fóru fram. Íslandshótel efndu til útboðs er til stóð að skrá félagið á markað, en hættu við hvort tveggja þegar ljóst varð að áskriftir fengjust ekki í alla boðna hluti. Þá hélt Play almennt útboð fyrr á árinu en lítill áhugi var fyrir því. Stefnt var á almennt útboð á eftirstandandi hlut ríkisins á Íslandsbanka á árinu en ekkert varð úr því.
Vonandi verður meiri stemning fyrir almennum hlutafjárútboðum á komandi ári, en það hefur sýnt sig að þau ýta undir þátttöku almennings á hlutabréfamarkaði. Óbein þátttaka almennings í gegnum lífeyrissjóði veitir ekki sömu jarðtengingu við hjartslátt atvinnulífsins og bein þátttaka gerir. Bein þátttaka eykur skilning á því hversu samofnir hagsmunir almennings og atvinnulífs eru. Í þeim efnum mættu stjórnvöld horfa til Svíþjóðar en þar hefur tekist vel til við að virkja almenning til þátttöku.
Of snemmt að fagna
Það er mikilvægt að hafa í huga að fyrrnefndur efnahagsbati er sýnd veiði en ekki gefin. Stýrivextir eru enn mjög háir, 8,5%, og verðbólga er enn töluvert yfir markmiði. Áframhaldandi hjöðnun verðbólgu er ekki sjálfgefin og vaxtalækkunarferli getur hæglega tafist eða snúist upp í andhverfu sína ef einhverjum af örmum hagstjórnar verður handvömm á.
Vaxandi endurfjármögnunarþörf ríkissjóðs er verulegt áhyggjuefni í þessu samhengi. Ríkissjóður hefur undanfarin misseri einkum fjármagnað sig til skamms tíma á víxlum með afleitum vaxtakjörum, eflaust í von um að innan skamms geti ríkissjóður tryggt sér hagstæðari langtímakjör með lækkandi vöxtum. Þegar ríkissjóður hefur loks endurfjármögnun er hætt við að ruðningsáhrifin verði mikil og hægi á því að vænt lækkun vaxta skili sér til heimila og atvinnulífs.
Það er sannarlega ánægjulegt að sjá ríkisfjármálin í forgrunni í nýjum stjórnarsáttmála. Það er mjög jákvætt að sjá þar áform um stöðugleikareglu og stöðvun hallarekstrar, hagræðingu, einföldun stjórnsýslu og sameiningu stofnana. Það væri til mikilla heilla yrðu fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar að veruleika, en að teknu tilliti til þeirra útgjalda sem sáttmálinn felur í sér verður verk að vinna fyrir Kristrúnu Mjöll Frostadóttur forsætisráðherra og Daða Má Kristófersson fjármálaráðherra að sannfæra markaðinn um að markmið þeirra séu raunhæf. Að líkindum mun reyna töluvert meira á aðhald á tekjuhliðinni – þ.e. skrautyrði yfir skattahækkanir – en látið hefur verið að liggja hingað til.
Daðrað við sjúka manninn
Þá er á dagskrá ríkisstjórnarinnar atkvæðagreiðsla um að hefja viðræður um inngöngu í Evrópusambandið (ESB) að nýju. Í kappræðum leiðtoga flokkanna á vettvangi Morgunblaðsins sagðist Kristrún Frostadóttir ekki myndu hefja aðildarviðræður ef þjóðin væri klofin í afstöðu sinni til aðildarinnar og að verulegan meirihluta þyrfti til. Hugur þjóðarinnar til aðildar að ESB er reglulega mældur og það liggur fyrir að þjóðin hefur lengi verið klofin í afstöðu sinni og afar ólíklegt að það muni breytast í náinni framtíð. Það stefnir því allt í að fleiri hundruð milljónum verði kastað á glæ þegar ljóst má vera að ekkert verður úr slíkum hugmyndum.
Ísland hefur aðgang að því eftirsóknarverðasta sem ESB hefur upp á að bjóða í gegnum EES-samninginn, það er fjórfrelsinu. Það er undarlegt að íslensk stjórvöld vilji leggjast í eina sæng með hagkerfi sem á fátt sameiginlegt með því íslenska. Hagkerfi sem hefur verið svo veikburða um árabil að jafnvel neikvæðir vextir hafa ekki dugað til þess að blása í það lífi. Evrópa hefur hvað eftir annað brugðið fyrir sjálfa sig fæti með æ þyngra regluverki sem hefur dregið úr samkeppnishæfni álfunnar. Ef fram heldur sem horfir munu lífsgæði í álfunni verða eftirbátur annarra þeirra hagkerfa í heiminum sem við viljum bera okkur saman við.
Þýskaland, sem er einn helsti burðarstólpi ESB, hefur á nýjan leik hlotið viðurnefnið sjúki maðurinn í Evrópu, eins og tíðkaðist í kringum 1990.
Nýting auðlinda er forsenda velsældar
Hugmyndafræði andstæðinga nýrrar grænnar orkuöflunar hefur litað alla stjórnsýslu og meðferð virkjunarkosta. Það hefur tafið orkuöflun úr hófi fram og flækt ákvarðanir sem ættu að vera viðskiptalegar hjá orkufyrirtækjum.
Það er gömul saga og ný að fólk taki hlutum sem gefnum og átti sig ekki á mikilvægi þeirra fyrr en á reynir. Náttúruhamfarir á Suðurnesjum drógu athygli landans að orkuöryggi, sem víða um land er ábótavant.
Fiskmjölsverksmiðjur munu ekki fá orku fyrir komandi vertíð, þrátt fyrir ágæta stöðu í lónum. Verksmiðjurnar munu brenna olíu við framleiðslu sína og að sjálfsögðu greiða fyrir það tvöfalt kolefnisgjald á við síðasta ár, en gjaldið hækkar nú um áramótin.
Mikilvæg skref voru stigin í viðskiptum með raforku í apríl þegar fyrsta íslenska raforkukauphöllin, Vonarskarð, hóf starfsemi. Viðskipti fóru fram fyrir á annan tug milljarða á árinu. Það er ekkert nýtt að viðskipti milli aðila eigi sér stað um raforku, en áður fóru þau fram með óformlegri hætti, til dæmis í síma eða með tölvupósti. Markaðurinn gerir það að verkum að nú er hægt að nálgast opinberar verðupplýsingar sem geta leitt til betri viðskiptaákvarðana á markaðinum og veitt stjórnvöldum skýrari sýn á stöðu orkubúskapar þjóðarinnar. Mikilvægt er þó að hafa í huga að umrætt verð endurspeglar aðeins lítið magn raforku í tiltekinn tíma, en ekki almennt orkuverð.
Því ber að fagna að framkvæmdir eru nú að hefjast við Hvammsvirkjun auk Búrfellslundar. Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar sagði í Dagmálum í vetur afar mikilvægt að ný ríkisstjórn kæmi nýjum orkukostum í ferli strax á fyrsta þingi svo ekki yrði frekari töf á orkuöflun, en gera má ráð fyrir fjögurra ára meðferðartíma næstu orkukosta í kerfinu að óbreyttu, áður en framkvæmdir gætu hafist.
Það er ekki nóg að vera þjóð rík að auðlindum til að lifa við velsæld, auðlindirnar þarf að hagnýta. Til þess þarf fjármagn, vilja til þess að taka áhættu, og samkeppnisfærni. Ekkert af þessu er sjálfsagt og væri óskandi að sjá jákvæðari viðhorf í samfélaginu til þeirra sem skapa verðmæti úr auðlindum okkar, á láði og legi.
Í stað þess að einblína á hvernig megi skattleggja arð af auðlindum upp í rjáfur færi betur á að umræðan snerist um það hvernig megi skapa hér umhverfi sem eykur samkeppnishæfni og hámarkar arð, um leið og skipting hans er sanngjörn og hvetjandi. Þess háttar hugarfar væri heillavænlegra fyrir land og þjóð til lengri tíma, því eins og áður hefur verið komið inn á eru hagsmunir almennings og atvinnulífs þétt samofnir. Með því að ganga í takt í átt að sameiginlegum markmiðum eru okkur allir vegir færir og framtíðin björt.