Jól Kevin var kannski óþarflega grimmur.
Jól Kevin var kannski óþarflega grimmur. — Ljósmynd/20th Century Fox
Eins og fleiri nýtir ljósvaki jólahátíðina til þess að horfa á kvikmyndir með jólaívafi. Undanfarið hafa jólahryllingsmyndir fyrst og fremst orðið fyrir valinu. Wind Chill, A Christmas Horror Story, Terrifier 3 og The Advent Calendar eru þeirra á…

Gunnar Egill Daníelsson

Eins og fleiri nýtir ljósvaki jólahátíðina til þess að horfa á kvikmyndir með jólaívafi. Undanfarið hafa jólahryllingsmyndir fyrst og fremst orðið fyrir valinu. Wind Chill, A Christmas Horror Story, Terrifier 3 og The Advent Calendar eru þeirra á meðal. Allt þrusufínar kvikmyndir. Eða kannski er engin þeirra það. Ljósvaki hafði allavega gaman af þeim þrátt fyrir helst til mikið af hundalógík í öllum fjórum.

Það koma varla jól án þess að horft sé á að minnsta kosti aðra af Home Alone-myndunum, helst báðar. Nei, við teljum ekki með myndirnar sem komu á eftir númer tvö. Ljósvaka tókst nýlega að horfa aftur á Home Alone 2: Lost in New York, og þótt hún flokkist sem gamanmynd er hægt að færa rök fyrir því að þar gæti mikils hryllings. Tveir ræningjar vilja koma piltinum Kevin McCallister fyrir kattarnef og hann launar þeim það með einhverju svívirðilegasta ofbeldi sem fest hefur verið á filmu.

Kannski ekki alveg, sjá til dæmis Terrifier 3 hvað svívirðilegt ofbeldi varðar, en Kevin vinur okkar hefði ekki þurft að pynda Harry og Marv svona óskaplega. Það er sannarlega mikill kvalalosti sem býr innra með Kevin. Kannski er tímabært fyrir ljósvaka að horfa á fallegri jólamynd næst. Þær hljóta að leynast einhvers staðar.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson