— Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gersemi Viðhöfn var í nóvember þegar dýrgripirnir Margrétar saga, Flateyjarbók og Konungsbók eddukvæða voru fluttir úr Árnagarði í Reykjavík í Eddu – hús íslenskunnar, þar sem sýning á þeim og menningarheimi fornritanna var síðan opnuð

Gersemi Viðhöfn var í nóvember þegar dýrgripirnir Margrétar saga, Flateyjarbók og Konungsbók eddukvæða voru fluttir úr Árnagarði í Reykjavík í Eddu – hús íslenskunnar, þar sem sýning á þeim og menningarheimi fornritanna var síðan opnuð. Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra og Guðrún Nordal forstöðumaður Árnastofnunar voru þar í aðalhlutverki við flutningana sem nutu lögregluverndar eins og eðlilegt er þegar menningarlegur gullforði íslensku þjóðarinnar er færður á milli staða.

Framkvæmdir Nýr Landspítali er óðum að rísa af grunni við Hringbraut og miðaði framkvæmdum vel á árinu sem er að líða, þótt enn sé mikið verk að vinna. Stefnt er að því að ljúka byggingarframkvæmdum í lok árs 2027. Þá verða samt eftir stórir áfangar eins og að innrétta og tækjavæða byggingarnar. Eiginleg verklok eru áætluð árið 2029 og verður þá nýtt þjóðarsjúkrahús að fullu komið í notkun.

Gleði Glatt var á hjalla á kosningavöku Samfylkingarinnar vegna alþingiskosninganna í lok nóvember enda hlaut hún mest fylgi allra flokka, 20,8%, og 15 menn kjörna. Flokkurinn hafði þó lengi vel mælst með enn meira fylgi í könnunum.

Ríkisstjórn Ný ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins tók við völdum í landinu rétt fyrir jól. Hún er skipuð sjö konum og fjórum körlum og þrjár konur hafa ekki í annan tíma leitt alla stjórnarflokkana hér um slóðir. Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar er nýr forsætisráðherra, yngst allra í Íslandssögunni, 36 ára að aldri.

Eldgos Þessi mynd var tekin í eldgosinu í janúar, þegar hraun ruddi sér leið alla leið inn í byggðina í Grindavík.

Felldur Ísbjörn var felldur eftir að hafa gengið á land í Jökulfjörðum á Vestfjörðum í september. Hræið var flutt til Reykjavíkur til rannsókna. Af frumskoðun að ráða var um ungan hún að ræða, eins til tveggja vetra gamlan.

Mótmæli Mikill fjöldi mótmælenda kom saman á Austurvelli, þegar Alþingi kom saman eftir jólafrí. Krafan var sú sama og mánuðina á undan; að stjórnvöld beittu sér fyrir tafarlausu vopnahléi fyrir botni Miðjarðarhafs.

Mótmæli Svandís Svavarsdóttir, innviðaráðherra og þáverandi varaformaður Vinstri-grænna, fer af ríkisstjórnarfundi í september þar sem fjallað var um brottvísun hælisleitenda. Mikill hiti var í mönnum fyrir utan.

Altjón Bæjarstjórn Grindavíkurbæjar heimilaði í júní að hefja undirbúning að niðurrifi fjölnota íþróttahússins Hópsins. Íþróttahúsið, sem var byggt árið 2008, fór illa út úr jarðhræringunum í Grindavík og myndaðist stór sprunga undir gervigrasvelli þess.

Hætt Katrín Jakobsdóttir baðst lausnar sem forsætisráðherra þegar hún kom til fundar við forseta Íslands í apríl. Ástæðan var sú að hún ætlaði að bjóða sig fram til einmitt þess embættis. Katrín laut í lægra haldi fyrir Höllu Tómasdóttur í forsetakosningum.

Átök Lögregla beitti piparúða á mótmælendur sem voru samankomnir við Skuggasund í lok maí þar sem fundur ríkisstjórnarinnar var haldinn. Kröfðust mótmælendur þess að Ísland sliti stjórnmálasambandi við Ísrael og að ríkið yrði beitt viðskiptaþvingunum. Mótmælendur voru ósáttir en lögregla sagði mótmælin hafa gengið of langt og ekkert annað verið í stöðunni.

Vopn Mikill viðbúnaður var vegna komu Volodomírs Selenskís forseta Úkraínu til landsins og vopnaðist lögregla af því tilefni. Ekki dagleg sjón á götum Reykjavíkur. Heimsókn leiðtogans gekk vel fyrir sig.