Heimurinn hefur aldrei verið betri, en sjaldan hættulegri. Hann er betri vegna stórkostlegra framfara í krafti viðskiptafrelsis og tækniþróunar. Fátækt hefur minnkað, heilsufar batnað, tækifærum fjölgað, umburðarlyndi aukist (á Vesturlöndum). En líkur á þriðju heimsstyrjöldinni hafa sjaldan verið meiri. Öxulveldin, Rússland, Kína, Íran og Norður-Kórea, brýna ekki aðeins vopnin, heldur nota, að vísu með misjöfnum árangri. Eitt merkilegasta fyrirbæri ársins 2024 var, hvernig smáríkinu Ísrael tókst að jafna um andstæðinga sína, hryðjuverkasamtökin Hamas og Hesbollah og bakhjarl þeirra, Íran. Þetta olli falli harðstjórans Assads í Sýrlandi, sem hvorki Íran né Rússland hafði afl til að afstýra. Pútín hefur ekki heldur tekist að leggja Úkraínu að velli. En Xi leynir því ekki, að hann bíður færis að hertaka Taívan eftir að hafa rofið alla samninga um Hong Kong. Og þótt Norður-Kórea sé smáríki, getur það gert óskunda.
Hvernig verða hætturnar minnkaðar? Se vis pacem, para bellum, sögðu Rómverjar. Viljirðu frið, skaltu búa þig undir stríð. Vesturlönd verða að vera svo sterk, að Öxulveldin þori ekki að ráðast á þau. Jafnframt hljóta þau að styðja af alefli Úkraínu og Ísrael, útverði vestrænnar menningar, hvort í sínum heimshluta. En ólíkar aðstæður krefjast ólíkra lausna. Í Úkraínu er eina haldbæra lausnin vopnahlé og atkvæðagreiðslur í umdeildum héruðum um, hvort íbúar vilja vera í Rússlandi eða Úkraínu, eins og gert var í Slésvík 1920, þegar íbúar völdu á milli Danmerkur og Þýskalands. Í Ísrael er eina haldbæra lausnin sú, sem Trump beitti sér fyrir með Abrahamssáttmálanum 2020, samstarf við Arabaríkin, en fullur sigur á hryðjuverkasamtökum. Bandamenn gerðu ekki vopnahlé við þýska nasista í ársbyrjun 1945, heldur sigruðu þá. Arabaríkin verða líka að taka við þeim Aröbum, sem ekki una sér í Ísrael. Taívan ætti að fara að dæmi Finnlands og stórefla eigin varnir, þótt það geti ólíkt Finnlandi 1939 vonast til þess, að hjálp berist, ráðist Xi á það.