Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Fátt ef nokkuð virðist vera að gerast hvað framkvæmdir við Sundabraut varðar.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson

Áhugaleysi um lagningu Sundabrautar yfir Elliðaárvog virðist algjört hjá ríki og borgarstjórn. Sú framkvæmd myndi m.a. létta verulega á umferðarþunga milli Reykjavíkur og Mosfellsbæjar og jafnframt stytta akstursleiðina milli Reykjavíkur og Vestur- og Norðurlands.

Tillaga í borgarstjórn

Í borgarstjórn 21. mars 2017 var eftirfarandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins samþykkt samhljóða:

„Borgarstjórn samþykkir að hefja viðræður við innanríkisráðuneytið um Sundabraut. Markmið þess er að vinna að arðsemismati og kostnaðargreiningu, ákveða endanlega útfærslu og legu brautarinnar og tímasetja framkvæmdir.“

Skorað á borgaryfirvöld

Ljóst er að lítið sem ekkert kom út úr viðræðum við ríkið um málefni Sundabrautar. Eins og staðan á þessu mikilvæga verkefni er í dag virðist fátt ef nokkuð vera að gerast hvað framkvæmdir við brautina varðar. Ugglaust hafa einhverjar viðræður átt sér stað milli ríkis og borgaryfirvalda um tímasetningu á byggingu Sundabrautar, sem síðan lítið er gert með. Borgaryfirvöld ættu að upplýsa borgarbúa um stöðu þessa mikilvæga máls.

Skorað er á borgaryfirvöld að beita sér enn frekar fyrir því í viðræðum milli borgar og samgönguráðuneytisins að þessari mikilvægu framkvæmd verði hraðað sem allra mest.

Höfundur er fv. borgarstjóri.

Höf.: Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson