Að venju hækka ýmis gjöld og gjaldskrár ríkis og sveitarfélaga um áramótin. Hækkun svonefndra krónutölugjalda hjá ríkinu er þó minni að þessu sinni en ef miðað væri við almennar verðlagsbreytingar, eða 2,5%, og einnig minni en á síðasta ári þegar gjöldin voru hækkuð um 3,5%

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Að venju hækka ýmis gjöld og gjaldskrár ríkis og sveitarfélaga um áramótin. Hækkun svonefndra krónutölugjalda hjá ríkinu er þó minni að þessu sinni en ef miðað væri við almennar verðlagsbreytingar, eða 2,5%, og einnig minni en á síðasta ári þegar gjöldin voru hækkuð um 3,5%.

Þannig hækka svonefndir nefskattar, útvarpsgjald og gjald í framkvæmdasjóð aldraðra, um 2,5% um áramótin. Útvarpsgjaldið verður 21.400 krónur og gjald í framkvæmdastjóð aldraðra 14.093 krónur.

Krónutölugjöld á eldsneyti, áfengi, tóbak o.fl. hækka einnig um 2,5% um áramót en svonefnt kolefnisgjald hækkar um 59%. Samkvæmt útreikningum Félags íslenskra bifreiðaeigenda má gera ráð fyrir að almennt verð á bensínlítra hækki af þessum sökum um 10,70 krónur og verði 323,80 krónur og verð á litra af dísilolíu hækki um 11,50 krónur og verði 328,40 krónur.

Þá má, samkvæmt upplýsingum frá ÁTVR, reikna með að hækkun áfengisgjaldsins leiði til 1,3-1,9% verðhækkunar eftir tegundum. Þannig hækki flaska af algengu rauðvíni um 37 krónur og verði 2.636 krónur og hálfs lítra dós af 5% bjór hækki um sjö krónur og verði 476 krónur. Þá mun verð á sígarettukartoni hækka um 1,7% og verða 13.575 kr. eftir áramót. Nýtt gjald verður síðan lagt á nikótínvörur, vökva í einnota rafrettum og vökva til áfyllingar fyrir rafrettur. Fer gjaldið eftir styrk nikótíns í vörunum.

Hjá Reykjavíkurborg er almennt gert ráð fyrir að gjaldskrár þjónustugjalda hækki um að jafnaði 3,5% þótt hver og einn gjaldskrárliður hækki eftir atvikum meira eða minna. Sem dæmi má nefna að 10 miða sundkort fyrir fullorðna hækkar um 3,6% úr 6.080 krónum í 6.300 kr. Þá hækka bílastæðagjöld um 4,5-7,7% eftir svæðum.

Loks má geta þess að skv. almennum kjarasamningum hækka laun um áramótin um 3,5% en þó að lágmarki um 23.750 krónur á mánuði.