Edie Falco fór með hlutverk Carmelu Soprano í samnefndum sjónvarpsþáttum. Hún er hin eina sanna mafíueiginkona. Hér er hún hlaðin veraldlegum auði, með Rolex-úr og ríkulegt demantahálsmen ásamt tennisarmbandi úr sama efnivið. Því miður geta flottheit sem þessi ekki framkallað lífshamingjuna þótt pallíetturnar og demantarnir skíni skært í góðum birtuskilyrðum.
Edie Falco fór með hlutverk Carmelu Soprano í samnefndum sjónvarpsþáttum. Hún er hin eina sanna mafíueiginkona. Hér er hún hlaðin veraldlegum auði, með Rolex-úr og ríkulegt demantahálsmen ásamt tennisarmbandi úr sama efnivið. Því miður geta flottheit sem þessi ekki framkallað lífshamingjuna þótt pallíetturnar og demantarnir skíni skært í góðum birtuskilyrðum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mafíustíllinn á ekkert skylt við stílinn á íslenskum og erlendum glæpahópum sem hafa komist upp á kant við íslensk yfirvöld vegna refsiverðs verknaðar, enda lítill klassi yfir þeim.

MARTA MARÍA WINKEL

JÓNASDÓTTIR

er fréttastjóri dægurmála mbl.is og höfundur Smartlands. Hún hefur starfað hjá Árvakri frá 2011. Hún hóf blaðamannsferil sinn árið 2001 og hefur á ferli sínum ritstýrt lífsstílstímaritum og gefið út fjórar bækur.

Það var margt í gangi í glansheimi tískunnar 2024. Eitt af því sem einkenndi árið voru þyngdarstjórnunarlyf en landsmenn vörðu rúmum tveimur milljörðum króna í þyngdarstjórnunarlyfið Wegovy á fyrstu ellefu mánuðum ársins. Langstærstur hluti er einstaklingar sem fá lyfið uppáskrifað af lækni en mæta ekki skilyrðum fyrir greiðsluþátttöku frá Sjúkratryggingum Íslands.

Þessar upplýsingar gefa til kynna að mantran „að hreyfa sig meira og borða minna“ virðist vera alger ósannindi. Ef þessi mantra virkaði hefði fólk gert eitthvað annað við þessa milljarða en að sprauta sig í magann með þeim. En hvað gerist þegar fólk mjókkar svona ógurlega mikið? Jú, lífið umturnast.

Fólk breytir um fatastíl, hárgreiðslu og fer að haga sér öðruvísi. Það fer að leyfa sér að skína í stað þess að fela sig í myrkrinu. Það er þó annað sem gerist þegar fólk skreppur saman á augabragði. Öll fylling fer úr andlitinu og þá er bara eitt til ráða; að fara á fullri ferð inn í sprautuheiminn með því að fylla í allar nýju hrukkurnar sem myndast í andlitinu. Lýtalæknar og húðlæknar hafa sjaldan haft meira að gera. Það er því óhætt að segja að „Ozempic Face“ eða Ozempic-andlit hafi verið einn af heitustu tískustraumum ársins þótt enginn vilji náttúrlega kannast við að hafa umbreyst á þennan hátt á árinu.

Hvers vegna voru allir svona þyrstir?

Það voru þó ekki allir á þyngdarstjórnunarlyfjum því hinir spangóluðu í gegnum árið í spandex-buxum og Hoka-strigaskóm með Stanley-brúsa í hendi. Lýðheilsuleiðtogar heimsins hafa reynt að koma vitinu fyrir fólk í áraraðir með þann boðskap í farteskinu að fólk þyrfti að drekka átta glös af vatni á dag. Þessi mannskapur talaði fyrir daufum eyrum þar til markaðsstjórar Stanley náðu óvænt í gegn. Stanley-brúsar eru meira í ætt við tanka því í þá komast 1,18 lítrar af vökva. Stóra spurningin sem enn er ósvarað er væntanlega: Hvað var fólk með í Stanley-tankinum?

Rándýrt útlit

Nú svo var mafíuútlitið sem var fyrirferðarmikið á árinu. Erlendis er tískustraumurinn kallaður „Mob Wife“ og er vísun í klæðaburð og snyrtingu eiginkvenna mafíuforingja í þekktum sjónvarpsþáttum eins og Sopranos. Það sem einkennir mafíuútlitið er loðfeldir, demantar, gullúr, hlébarðamunstur og rúskinnsstígvél með himinháum hæl sem ná alveg upp að hnjám. Silkiskyrtur og kasmírull eiga líka upp á pallborðið og sömuleiðis leðurkápur, rúskinnskápur og vandaðar dúnúlpur. Útvíðar buxur, gullbelti og allt það. Allt dýrt og vandað og vel saumað og því ekki hægt að leika þetta eftir með því að kaupa varning á Temu. Og mafíustíllinn á ekkert skylt við stílinn á íslenskum og erlendum glæpahópum sem hafa komist upp á kant við íslensk yfirvöld vegna refsiverðs verknaðar, enda lítill klassi yfir þeim.

Misheppnuð tilraun til áhrifa

Og talandi um lítinn klassa. Það var eftir því tekið hvað Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins var í þröngum jökkum á árinu. Það var erfitt fyrir hann að seilast í vasa skattgreiðenda í þessum klæðnaði og kjörþokki minnkaði. Það er því kannski ekkert skrýtið að flokkurinn hafi fengið afleita kosningu 30. nóvember. Og það voru fleiri tískuslys sem höfðu áhrif á útlit kosninganna. TikTok-myndbönd stjórnmálaflokkanna voru sum hver ansi misheppnuð. Eitt versta myndbandið var þegar Guðrún Hafsteinsdóttir fyrrverandi dómsmálaráðherra sagði ungviðinu á TikTok að hún væri hin sanna Ísdrottning. Stundum er betra heima setið en af stað farið eins og sagt er. Þótt Halla Tómasdóttir hafi halað inn atkvæði og neglt sig inn í forsetaembættið með Höllu T House mix á TikTok þá geta ekki allir leikið það eftir. Þetta er svona eins og með textaverkin sem hafa verið svo ofurvinsæl. Þótt setningar verkanna geti verið æðislegar á áttunda vodka-í-kók-glasinu í Húnaveri þá viltu kannski ekki endilega láta minna þig á þetta fyllerí dagsdaglega. Og kannski ekki hafa það á besta stað í stofu.