Gustavo Dudamel er hér í Los Angeles ásamt meðlimum Coro de Manos Blancas, sem er hópur tónlistarmanna frá Venesúela sem nota bæði röddina og táknmál Venesúela á tónleikum sínum. Hópurinn er hluti af tónlistarmenntakerfi Venesúela, El Sistema, sem hlúði að Dudamel þegar hann var ungur tónlistarmaður.
Gustavo Dudamel er hér í Los Angeles ásamt meðlimum Coro de Manos Blancas, sem er hópur tónlistarmanna frá Venesúela sem nota bæði röddina og táknmál Venesúela á tónleikum sínum. Hópurinn er hluti af tónlistarmenntakerfi Venesúela, El Sistema, sem hlúði að Dudamel þegar hann var ungur tónlistarmaður. — The New York Times/Michael Tyrone Delaney
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stundum er erfitt að ímynda sér heim þar sem við getum lifað saman í sátt og samhljóm. En reynsla mín af því að vinna með sinfóníuhljómsveitir vítt og breitt um heiminn gefur mér von, og ég trúi því í raun að listin geti sýnt okkur betri leið til þess að ná framförum.

Gustavo Dudamel

er tónlistarstjóri Fílharmóníuhljómsveitar Los Angeles.

Ég hef að undanförnu verið að hugsa um sambandið á milli einstaklingsins og samfélagsins – og þá sérstaklega hvernig eigi að ná jafnvægi milli persónulegra þarfa okkar við þarfir hins stærra samfélags. Þessi spurning er sérstaklega þörf á núverandi stundu. Sem einstaklingum líður mörgum okkar eins og við séum útskúfuð, einangruð og hjálparlaus, og eigum erfitt með að finna hlutverk okkar, við þurfum að hrópa til þess að í okkur heyrist, og erum á stanslausum hlaupum bara til þess að geta verið kyrr. Sem samfélag er meiri misklíð en nokkru sinni fyrr, við erum sett í bergmálshella af samfélagsmiðlum og göbbuð með falsfréttum, á meðan lýðræði okkar er ógnað af sífellt öfgakenndari stjórnmálaskoðunum. Stundum er erfitt að ímynda sér heim þar sem við getum lifað saman í sátt og samhljómi. En reynsla mín af því að vinna með sinfóníuhljómsveitir vítt og breitt um heiminn gefur mér von, og ég trúi því í raun að listin geti sýnt okkur betri leið til þess að ná framförum.

Hljómsveitin er á marga vegu hin fullkomna samlíking fyrir sambandið á milli einstaklingsins og samfélagsins. Sem hljómsveitarstjórinn stýri ég samansafni hljóðfæraleikara, á sama tíma og ég er sá eini sem framleiðir ekkert hljóð. Ég get deilt hugmyndum og sett fram sýn mína til tónlistarmannanna, en ég er ekkert án þeirra. Við höfum öll okkar eigið hlutverk, en á sama tíma verðum við líka að hlusta á aðra í kringum okkur til þess að tryggja að við séum að búa til samhljóm, ekki hávaða. Jafnvel þegar við erum ósammála finnum við leiðir til þess að vinna saman að okkar sameiginlega markmiði.

Þessi samhljómur sem hljómsveitin býr til getur mögulega náð til fólks langt frá sjálfu sviðinu. Ég hef séð foreldra með algjörlega andstæðar stjórnmálaskoðanir sitja saman í salnum á meðan börn þeirra spila saman á sviðinu hlið við hlið.

Tónlistin gefur líka einstaklingnum öflugan tilgang – tilgang sem hægt er að beisla öllum til hagsbóta. Þegar þú gefur barni hljóðfæri gefurðu því sjálfsmynd. Þú minnir þau á að þau hafa rödd og að rödd þeirra skiptir máli. Ég hef séð þetta ótal sinnum á ævi minni – með tónlistarfólkinu í Hljómsveit unga fólksins í Los Angeles í Beckmen YOLA-ungdómsmiðstöðinni í Inglewood í Kaliforníu, hjá nemendum sem komu víðs vegar að úr New York-borg við Fiorello H. LaGuardia-háskólann í tónlist, listum og sviðslistum – og í mínu eigin lífi, sem ungt barn að búa til tónlist með vinum mínum í El Sistema, tónlistarnámsskránni í Venesúela.

Það sem skiptir mestu máli er að listin gefur okkur von. Hún leyfir okkur að sjá fyrir okkur betri framtíð fyrir mannkynið, og að við verðum þeir borgarar sem búa til þá framtíð. Land mitt, Venesúela, gengur nú í gegnum miklar áskoranir. Þrátt fyrir það náði ég í sumar, í miðju umrótsins, að standa á sviði Carnegie Hall með 170 ungum tónlistarmönnum úr Barnasinfóníuhljómsveit Venesúela, þar sem ég hlýddi á þau spila með ástríðu, gleði, virðingu og umfram allt, von.

Nú, þegar ég undirbý mig til þess að verða tónlistar- og listrænn stjórnandi Fílharmóníuhljómsveitar New York-borgar eftir mörg ótrúleg ár með Fílharmóníuhljómsveit Los Angeles, hugsa ég um þessar hugmyndir um samhljóm, sjálfsmynd og von og hvernig ég get endurspeglað þær í starfi mínu.

Fyrir mér kemur samhljómurinn frá því að byggja brýr. Brýr geta tengt saman fólk með mismunandi getu og lífsreynslu. Flutningur Fílharmóníusveitar Los Angeles á Fidelio eftir Beethoven í samstarfi við Deaf West Theatre-hópinn og Coro de Manos Blancas færði saman áhorfendur, bæði þá sem gátu heyrt og heyrnarlausa, í deildri upplifun sem náði að hefja sig yfir hljóð. Brýr geta tengt saman listamenn úr ólíkum áttum. Sumir af mínum ógleymanlegustu tónleikum hafa verið með listamönnum sem tilheyra öðrum tónlistarstefnum, líkt og Billie Eilish, Christina Aguilera, Ricky Martin og Common. Brýr geta líka tengt fortíðina við nútíðina og dregið línu frá hinum merku tónskáldum fyrri alda til þeirrar kynslóðar listamanna sem eru að segja sögu þessa augnabliks.

Nú þegar ég er að stækka Los Angeles-fjölskyldu mína til þess að innihalda einnig New York og allt þar á milli, íhuga ég einnig mína eigin sjálfsmynd og markmið mitt um að kanna frekar og víkka út hina sam-amerísku tónlistarrödd. Það gerist svo oft að sveiflur í klassískri tónlist hreyfast á milli austurs og vesturs. Á sama tíma og risarnir frá Evrópu hafa gefið okkur, og gefa enn, frábærar tónlistargjafir, trúi ég að það sé nauðsynlegt að horfa einnig frá norðri til suðurs og skoða hina ótrúlegu tónlist og hugmyndaflug sem leynist í álfum Ameríku, frá Kanada til Tierra del Fuego. Sem maður af rómönskum uppruna hef ég einblínt sérstaklega á tónlist frá Rómönsku Ameríku, frá tónskáldum á borð við Gabrielu Ortiz til poppstjarna eins og Nataliu Lafourcade. Ég tel að hljómur þeirra sé innblásinn í kjarna sínum með takti og sál hinnar rómönsku menningar.

Sviðslistirnar standa nú á tímamótum, þar sem sífellt er verið að skera niður í listamenntun, þar sem stórkostlegar breytingar hafa orðið á áhorfendum og fjármögnun, síkvikt menningarlegt landslag og almenn þreyta í kjölfar heimsfaraldursins. Í ljósi þessara áskorana er það brýnt fyrir okkur sem störfum sem listamenn að halda í vonina og minna okkur á að það sem við gerum skiptir máli. Tónlist er ekki bara skemmtun. Hún hjálpar okkur að skilja hver við erum og hvernig við pössum í hinn stóra heim.

Þrátt fyrir alla óvissuna sem bíður okkur, þrátt fyrir að samfélag okkar sé sífellt stafrænna og fjarlægara og ýti undir einangrun og aðskilnað, hef ég von um betri framtíð. Ég hef von, því að ég veit að mjög ólíkir einstaklingar geta komið saman og myndað samhljóm. Ég hef séð það gerast aftur og aftur. Nú er það brýnna en nokkru sinni fyrr að við vinnum saman, þvert á menningarheima, landamæri og trúarbrögð, til þess að skapa einhverja fegurð.

©2024 The New York Times Company og Gustavo Dudamel