Leikkonan Blake Lively hefur sakað meðleikara sinn og leikstjóra kvikmyndarinnar It Ends With Us, Justin Baldoni, um kynferðislega áreitni og tilraunir til þess að sverta orðspor hennar eftir að hún tjáði sig opinberlega um fjandsamlegt vinnuumhverfi. Þetta segir í frétt Los Angeles Times.
Lively lagði fram lögformlega kvörtun í liðinni viku þar sem hún sakar Baldoni um óviðeigandi hegðun. Þá lagði hún einnig fram kvörtun á hendur fleiri aðilum, þeirra á meðal er Jamey Heath, framkvæmdastjóri framleiðslufyrirtækisins Wayfarer Studios en Baldoni er meðal stofnenda þess. Kvörtun af þessu tagi er undanfari málsóknar.
Með þessu vill leikkonan varpa ljósi á þær vinnuaðstæður og þá hegðun sem Lively og samstarfskonur hennar urðu fyrir barðinu á við gerð myndarinnar. It Ends With Us var frumsýnd í ágúst en myndin er gerð eftir samnefndri bók Colleen Hoover og fjallar um heimilisofbeldi.
Bryan Freedmann, lögfræðingur sem vinnur fyrir Baldoni, svaraði þessum ásökunum Lively og sagði þær örvæntingarfulla tilraun til þess að laga slæmt orðspor hennar.
Erlendir fjölmiðlar keppast við að greina þessa atburðarás og notendur samfélagsmiðla hafa einnig sett fram sínar kenningar um hvað gerst hafi bak við tjöldin. Ein þeirra er að tengja þessa deilu við stríð Taylor Swift við umboðsmanninn Scooter Braun en hún er guðmóðir barna Lively. Braun á stóran hlut í almannatengslafyrirtæki sem Baldoni hefur unnið með á síðustu mánuðum.