Tímamót Árni Sigurðsson, verðandi aðstoðarforstjóri JBT Marel.
Tímamót Árni Sigurðsson, verðandi aðstoðarforstjóri JBT Marel.
Árni Sigurðsson, forstjóri Marel og verðandi aðstoðarforstjóri (e. President) hjá hinu sameinaða félagi JBT Marel, segir í samtali við Morgunblaðið að sú staðreynd að yfir 97% hluthafa hafi samþykkt samruna félaganna endurspegli sterka sannfæringu…

Magdalena Anna Torfadóttir

magdalena@mbl.is

Árni Sigurðsson, forstjóri Marel og verðandi aðstoðarforstjóri (e. President) hjá hinu sameinaða félagi JBT Marel, segir í samtali við Morgunblaðið að sú staðreynd að yfir 97% hluthafa hafi samþykkt samruna félaganna endurspegli sterka sannfæringu meðal hluthafanna á því hversu vel félögin passi saman.

Spurður út í rekstrarmarkmið sameinaðs félags segir Árni að félagið muni einkum einblína á tekjusamlegð. JBT sé leiðandi í frystum á heimsvísu en Marel einbeiti sér að framleiðslu hátæknilausna og hugbúnaðar.

„Við sjáum tækifæri í að samþætta söluna hjá félögunum og gott dæmi er þar sem Marel kemur með flæðilínur og róbota en JBT með frysta og pökkunarlausnir,“ segir Árni.

Sameinað félag verður talsvert skuldsett en að sögn Árna verður áhersla lögð á að draga úr skuldsetningu.

„JBT hefur verið að finna rétt jafnvægi milli þess að þynna hluthafa sína ekki of mikið og hafa rétta skuldsetningu,“ segir Árni. Skuldsetning sameinaðs félags verður aðeins meiri en langtímamarkmið til að byrja með en stefnt er að því að það fari lækkandi og verði innan markmiða sameinaðs félags fyrir lok árs 2025.

Gert er ráð fyrir að endanlegt uppgjör tilboðsins fari fram 2. janúar 2025. Flestir hluthafar Marel völdu að fá bréf í sameinuðu félagi en þar sem ekki voru nægilega mörg bréf í boði fá þeir 65% í bréfum og 35% í peningum. Hluthafar fá því um 1,2 evrur í reiðufé og um 0,027 hluti í JBT fyrir hvern hlut í Marel.

Heildargreiðslur til hluthafa Marel fyrir um 735 milljónir hluta sem seldir voru inn í tilboðið eru um 19,5 milljónir hluta í JBT og 926,5 milljónir EUR.