Borgarfjörður Háleiksvatnið kögrað roðagylltum skýjum á haustdegi. Myndin tekin til suðurs. Hægra megin sést grilla í Grjótárvatnið fyrir neðan. Á þessum slóðum hafa jarðskjálftar verið tíðir.
Borgarfjörður Háleiksvatnið kögrað roðagylltum skýjum á haustdegi. Myndin tekin til suðurs. Hægra megin sést grilla í Grjótárvatnið fyrir neðan. Á þessum slóðum hafa jarðskjálftar verið tíðir. — Morgunblaðið/Theodór Kr. Þórðarson
Þau eru falleg fjallavötnin upp af Mýrum í Borgarfirði og umhverfi þeirra víðast hvar heillandi. Þetta svæði er þessa dagana aðallega í fréttum vegna jarðhræringa sem mælst hafa töluverðar og flestar næst Grjótárvatni og hófust þar vorið 2021

Theodór Kr. Þórðarson

Borgarnesi

Þau eru falleg fjallavötnin upp af Mýrum í Borgarfirði og umhverfi þeirra víðast hvar heillandi. Þetta svæði er þessa dagana aðallega í fréttum vegna jarðhræringa sem mælst hafa töluverðar og flestar næst Grjótárvatni og hófust þar vorið 2021. Telst þetta svæði hluti af Ljósufjallakerfinu svonefnda.

Skammt norðan við Grjótárvatn, en mun ofar, er Háleiksvatn, stundum einnig nefnt Háleggsvatn. Það er í um 539 metra hæð yfir sjávarmáli og úr því rennur Grjótá niður í Grjótárvatnið. Þetta er fallegt svæði og Háleiksvatnið tekur stundum á sig dúlúðugan blæ þegar roðagyllt skýin kögra fjöllin í kring en vatnið situr í djúpum katli. Nokkru norðar er Hítarvatn efst í Hítardalnum og þar ríkir líka mikil fegurð. Á þessu svæði hafa runnið mörg hraun í gegnum árþúsundin, flest þeirra smá og sum hvert ofan á öðru.

Þórbergur og vatnaskrímslið

Þórbergur Þórðarson rithöfundur, sem sagðist vera skrímslafræðingur hennar hátignar Bretadrottningar, hélt því statt og stöðugt fram að það væri vatnaskrímsli í Grjótárvatni, „eitt mikið og ófrýnilegt“ eins og munnmæli hermdu. Þórbergur fór á sínum tíma í rannsóknarferð að vatninu með Guðjóni Guðmundssyni, bónda á Svarfhóli í Hraunhreppi, og syni hans, Bjarna Valtý. Þessi ferð var líklega farin í kringum 1965.

Eftir þá rannsóknarferð var Þórbergur spurður hvort þeir hefðu séð vatnaskrímslið. Sagði hann að því miður hefðu þeir ekki séð skrímslið sjálft „en hins vegar sáum við greinileg för eftir skrímslið í fjörusandinum þar sem það hafði skriðið á land og síðan för eftir það þar sem það hafði velt sér um í sandinum og loks för út í vatnið aftur“.

Hvað svo sem er að marka skrímslasögurnar þá er þetta magnað umhverfi og margt undarlegt ber þar stundum fyrir augu. Einu sinni flaug undirritaður yfir þessi fjallavötn á sinni einkavél að vetrarlagi. Það hafði verið frost í nokkrar vikur og voru Langavatn, Hítarvatn og Grjótárvatn öll á ís en Háleiksvatnið ekki nema að hluta til frosið. Eins og áður segir er Háleiksvatnið í 539 metra hæð en hin vötnin liggja mun lægra í landinu; Langavatn í um 215 metrum yfir sjó, Grjótárvatnið er í 287 metrum og Hítarvatn í 147 metrum yfir sjávarmáli.

Skrítið er það samt

Trausti Jónsson veðurfræðingur sagði reyndar aðspurður á sínum tíma að þetta þýddi ekki endilega að undir Háleiksvatni væri meiri hiti en undir hinum vötnunum, „það gætu verið einfaldar veður- eða vatnafræðilegar skýringar á fyrirbrigðinu“. „En skrýtið er það nú samt,“ eins og sagt var forðum af allt öðru tilefni.

Eflaust mun gjósa aftur á þessum slóðum, hvenær sem það nú verður. En þangað til ríkir þarna fjallakyrrðin og „fegurðin ein, ofar hverri kröfu“, eins og skáldið HKL sagði.