Karl G. Kristinsson
Karl G. Kristinsson
Standa þarf vörð um ylrækt með því að stjórnvöld tryggi sanngjarnt og viðunandi verð á raforku til greinarinnar.

Karl G. Kristinsson

Stríðsátök og náttúruhamfarir á undanförnum misserum undirstrika mikilvægi þess að tryggja matvælaöryggi. Mikilvægur þáttur þess er fullnægjandi framleiðsla á grænmeti. Mikið er flutt inn af salati og kryddjurtum sem hægt væri að framleiða á Íslandi með ylrækt í gróðurhúsum. Með því að efla ylrækt værum við að auka matvælaöryggi, efla lýðheilsu og draga úr kolefnisspori.

Kostir ylræktar og sérstaða Íslands

Á Íslandi höfum við nóg af hreinu vatni, raforku og jarðhita sem auðveldar okkur að auka ylræktun á hreinu ómenguðu salati og kryddjurtum. Utan Íslands fer stærstur hluti ræktunar á salati og kryddjurtum fram utandyra í jarðvegi sem getur mengast af skaðlegum bakteríum og veirum og krefst talsverðrar notkunar skordýraeiturs. Í Evrópu er mest af salati ræktað á ökrum Spánar, Ítalíu og Frakklands. Salat er oftast borðað ferskt og óhitameðhöndlað. Það kemur því ekki á óvart að hópsýkingar af völdum mengaðs salats séu tíðar og þá oftast af völdum meinvaldandi E. coli, salmonellu og nóróveira. Vegna alþjóðlegrar verslunar með matvæli koma slíkar hópsýkingar oft upp í mörgum löndum samtímis og a.m.k. tvisvar á Íslandi (salat frá Hollandi 2007, salat frá Ítalíu 2017).

Ísland hefur sérstöðu vegna mun minna sýklalyfjaónæmis en í langflestum öðrum löndum. Þarmabakteríur með ónæmi fyrir nánast öllum sýklalyfjum, sem geta mengað jarðveg (t.d. E. coli og salmonella), eru að verða algengar í landbúnaði í Evrópu, þá einkum í Suður- og Austur-Evrópu. Ekki er skimað fyrir sýklalyfjaónæmum bakteríum í salati, sem gætu þess vegna flust dulið með salatinu á milli landa. Þegar nær-alónæmar bakteríur finnast á Norðurlöndunum er það oftast tengt ferðalögum til landa með hátt ónæmishlutfall, en greiningum nær-alónæmra baktería án tengsla við ferðalög fer fjölgandi og tengjast þá líklega neyslu mengaðra matvæla.

Raforkuverð og samkeppni við innflutt grænmeti

Í skýrslu um fæðuöryggi á Íslandi sem unnin var fyrir atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið (2021) segir: „Nauðsynlegt er að rekstraröryggi garðyrkjubænda sé tryggt til að framleiðsla matjurta haldist í landinu … Mikill innflutningur grænmetis þrengir að möguleikum til aukinnar innlendrar ræktunar og töluverður samdráttur hefur orðið í framleiðslu sumra lykiltegunda undanfarin ár … Samkeppni við innfluttar vörur er erfið, garðyrkjubændur ná ekki að keppa í verði við innflutta vöru …“

Stór hluti rekstrarkostnaðar við ylrækt er raforkukostnaður. Um næstu áramót mun raforkuverð til garðyrkjubænda hafa hækkað um 100% á síðustu fjórum árum. Stór hluti grænmetisframleiðenda nýtur ekki styrkja frá stjórnvöldum sem einhverju nemur. Hækkun raforkuverðs um næstu áramót mun líklega hækka verð á íslensku grænmeti, sem skekkir samkeppnisstöðuna enn frekar og leiðir til minni framleiðslu með tilheyrandi áföllum fyrir gróðrarstöðvar.

Ályktun

Standa þarf vörð um ylrækt með því að stjórnvöld tryggi sanngjarnt og viðunandi verð á raforku til greinarinnar. Upplýsa þarf almenning um kosti ylræktaðs grænmetis í samanburði við innflutt og koma í veg fyrir að það verði lúxusvarningur sem aðeins þeir efnameiri geti veitt sér. Með stuðningi við ylræktina aukum við fæðuöryggi landsmanna, minnkum áhættuna á matarsýkingum og drögum úr vexti sýklalyfjaónæmis og kolefnisspori.

Höfundur er prófessor emeritus og yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans.

Höf.: Karl G. Kristinsson