Sandra Cisneros
er höfundur bókanna Húsið á Mangóstræti og Martita, ég man þig.
Sem krakki skráði ég bækurnar sem ég las á hverju ári í minnisbók. Ég las fullt af bókum, þótt ekki væru allar í uppáhaldi, en ég var stolt af því að lesa og rifja upp hverja og eina mér til ánægju, allt frá ævintýrum til ævisagna dýrlinga. Jafnvel þótt mér líkaði ekki allar bækurnar kláraði ég þær sem ég byrjaði á. Sérhver bók felur í sér einhvern lærdóm fyrir móttækilegan lesanda.
Nú, þegar ég er að verða 70 ára, hef ég sett mér það markmið að lesa bækur sem nýlega hafa verið bannaðar í Suður-Texas. Síðastliðið vor leitaði kirkjuhópur til skólanefnda í Rio Grande-dalnum og fullyrti að efni í fjölda tilgreindra bóka væri „mjög dónalegt og móðgandi“. Hópurinn gaf upp ástæður fyrir því að fara fram á bann við hverri bók, þó að sum þemanna sem vísað var til – svo sem kynferðislegt ofbeldi og ofbeldi af hendi foreldra – sé einnig að finna á síðum Biblíunnar, sem mætti sömuleiðis telja móðgandi ef hún væri lesin án þess að gæta að samhengi. Kirkjuhópurinn notaði ekki orðið „bann“, heldur lýsti vilja fyrir því að embættismenn „fjarlægðu þessar bækur fúslega“ af listum yfir lesefni. Þetta vakti forvitni mína.
Fyrr á þessu ári taldi ég að listi kirkjuhópsins gæti hentað sem lesefni mitt yfir sumarið, en þar sem heilar 676 bækur eru á listanum varð ég að gefa mér meira en þessa einu árstíð til að komast yfir efnið.
Það er Almenningsbókasafninu í Chicago að þakka að ég er rithöfundur. Þegar ég var að alast upp gaf bókasafnið mér leyfi til að gera mig heimakomna með bækur, þar sem fjölskyldan mín hafði ekki efni á þeim. Bækur í hillum safnsins voru flokkaðar – fyrir börn, unglinga, fullorðna – og ég þroskaðist sem lesandi frá einu stigi til annars. Bókasafnið bannaði ekki bækur sem gætu hafa verið óviðeigandi fyrir lesendur á vissum aldri. Í staðinn mælti það með bókum sem hentuðu þroska hvers og eins, sem er skynsamleg nálgun. Ég man að ég tókst einu sinni á hendur of krefjandi verkefni þegar ég reyndi að lesa Quo Vadis. Texti bókarinnar sá alfarið um að halda aftur af mér; ég hafði ekki hugmynd um hvað var að gerast.
Ég hef skemmt mér konunglega við að lesa útlægu höfundana á þessu ári. Suma þekkti ég fyrir: Sherman Alexie, Toni Morrison, Margaret Atwood, Benjamin Alire Sáenz. Sumum þeirra, eins og Elizabeth Acevedo, er ég loksins að kynnast og sumir, eins og Sonora Reyes, eru nýir fyrir mér. Það kemur ekki á óvart að flestar bækur á bannlistanum eru eftir hinsegin rithöfunda, sem vekur mér enn meiri aðdáun á þeim fyrir hugrekki þeirra til að segja sannleikann eins og hann horfir við þeim.
Ljóðskáldið Joy Harjo hefur sagt að bækur séu lyf. Ef sú er raunin eru bókasöfn apótek með lyfseðil fyrir hvern einstakling. Foreldrar eiga rétt á að fylgjast með því sem börn þeirra lesa, en gæti líka verið að bókin sem þeir telja skaðlega fyrir þeirra eigið barn gæti verið fullkomin lækning fyrir annað barn?
Fyrsta skáldsaga mín, Húsið á Mangóstræti, er meðal þeirra bóka sem bókaóvinirnir í Suður-Texas telja óviðeigandi. Flestar vinjetturnar í bókinni voru innblásnar af þeim tíma þegar ég kenndi við Latino Youth Alternative High School í Chicago. Nemendur mínir höfðu áður hætt námi og áttu í miklum erfiðleikum með það eitt að snúa aftur í skólann. Sumir voru samkynhneigðir, sumir voru háðir fíkniefnum, sumir voru börn að ala upp börn, sumir gátu ekki látið sjá sig á götum úti án þess að verða skotmörk gengja; aðrir höfðu þolað ofbeldi af hálfu kærasta eða foreldra. Þetta var raunveruleiki þeirra. Sem kennari þeirra og ráðgjafi hafði ég engin ráð til að lækna sár þeirra umfram það að hlusta og segja sögur þeirra.
Vegna þess að ég vildi að skáldsagan mín bærist inn í skólastofur og bókasöfn fannst mér ég hafa skyldu til að ritskoða sjálfa mig með því að skrifa um málefni stálpaðra ungmenna með lymskulegum hætti, þannig að inntakið færi framhjá skilningi smábarna. Ég vildi að bókin mín næði til unglinga sem væru að upplifa þessar sömu sögur en ég var meðvituð um að yngri lesendur kynnu líka að lesa hana. Þess vegna vandaði ég mig gríðarlega og virti þroskastig barna og hvað þau réðu við á ákveðnum aldri, þar sem ég vildi svo sannarlega ekki móðga neinn, allra síst foreldra og skólanefndir. Þess vegna sagði ég sannleikann minn, en sagði hann „á ská“, eins og skáldið Emily Dickinson orðaði það, á ljóðrænan hátt svo að lesendur myndu skilja söguna smám saman eftir því sem þeir yrðu eldri.
Það er gæfa mín að lesendur mínir tjá mér það í sífellu hvernig bókin mín breytti lífi þeirra til hins betra. Mér finnst ég líka heppin að hafa nýlega átt bréfaskipti við móður í Texas sem fannst að fjarlægja ætti bókina mína úr skóla barnsins síns og að við gátum samt skipst á skoðunum og skilið sáttar. Eins og mexíkóskt orðatiltæki segir, „hablando se entiende la gente“ – þegar við tölum saman skiljum við hvert annað.
Í ár eru 40 ár síðan Húsið á Mangóstræti kom fyrst út. Ég hef lært margar andlegar lexíur síðan þá, en fyrst og fremst þá að hvað eina sem við sköpum af kærleika fyrir hönd þeirra sem við elskum, „siempre sale bonito“, kemur vel út. Ég skrifaði sögur nemenda minna af hreinum kærleika.
Ég trúi á kraft sagna til að reisa okkur við. Ég treysti á að ef við nálgumst hvert annað með djúpri virðingu og djúpri athygli muni ástin lækna það sem sundrar okkur.
© 2024 The New York Times Company og Sandra Cisneros.