Lögregla ber mótmælanda gegn stríðinu í Úkraínu í burtu í miðborg Moskvu. Mótmælin voru 25. febrúar 2022, daginn eftir innrás Rússa.
Lögregla ber mótmælanda gegn stríðinu í Úkraínu í burtu í miðborg Moskvu. Mótmælin voru 25. febrúar 2022, daginn eftir innrás Rússa. — The New York Times/Sergey Ponomarev
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stríð, ritskoðun og kúgun eru þrjú tæki sem ríkisstjórn Rússlands notar til að byggja upp nýtt ríki – þar sem réttindi ríkisins eru metin hærra en réttindi einstaklingsins. Þetta er hernaðarríki, þar sem dauði í þágu móðurlandsins er mikilvægari en lífið.

Dmitrí Múratov

er rússneskur blaðamaður og stofnandi fjölmiðilsins Novaja Gaseta. Hann hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2021.

Ég upplifði mikla ánægjustund fyrr á þessu ári þegar Evan Gershkovich sneri aftur til foreldra sinna og Lilía Tsjanisjeva til eiginmanns síns, þegar Vladimír Kara-Múrtsa leit dagsins ljós eftir 11 mánuði í einangrun og Ilía Jasjín og Sasja Skotsjílenkó endurheimtu frelsið. En ég óttast um þá pólitísku fanga sem sitja enn í rússneskum fangelsum. Mun einhver standa vörð um hagsmuni þeirra ef engir Bandaríkjamenn, Þjóðverjar eða Bretar eru í röðum þeirra?

Í seinni heimsstyrjöldinni var nauðsynlegt að opna aðra víglínu til að vinna bug á fasisma. Í þeirri baráttu sem nú stendur yfir gegn vaxandi valdboðsstefnu hafa lýðræðisríki hingað til lagt höfuðáherslu á að gæta pólitískra meginreglna en nú er brýn þörf á að opna aðra víglínu til að standa vörð um verðmæti mannslífa, þá helst með því að krefjast þess að réttindi pólitískra fanga verði virt.

Þökk sé YouTube og samfélagsmiðlum gátum við fylgst með afdrifum fanganna sem voru látnir lausir fyrr á þessu ári. Héðan í frá munum við hins vegar lítið vita um þjáningar þeirra sem enn eru á bak við lás og slá, vegna þess að rússnesk stjórnvöld hafa lokað fyrir þessar rásir. Aðeins þær leifar málfrelsis sem enn eru eftir í Rússlandi veita okkur þekkingu á aðstæðum þeirra sem eru í haldi í rússneskum fangelsum við hræðilegar aðstæður.

Meðal þeirra sem sitja áfram í fangelsi er ketilsmiðurinn Vladimír Rúmjantsev, sem lýsti ritskoðun stríð á hendur og opnaði sína eigin útvarpsstöð í borginni Vologda í norðurhluta Rússlands. Í Síberíu afplánar Mikaíl Afanasíev, ritstjóri nettímaritsins Novy Fokus, fimm og hálfs árs dóm fyrir að hafa sagt frá 11 hermönnum sem neituðu að fara til Úkraínu. Dómstóll í borginni Akaban sakfelldi hann fyrir að dreifa röngum upplýsingum um „sérstaka hernaðaraðgerð“, eins og stríðið í Úkraínu er kallað í Rússlandi. Leikstjóranum Jevgeníu Berkovitsj og leikskáldinu Svetlönu Petritsjúk var varpað í fangelsi og þær sakaðar um að styðja hryðjuverk eftir að Berkovitsj setti upp leikrit Petritsjúk „Hugrakki fálkinn Finist“, sem segir sögu kvenna sem féllust á að giftast vígamönnum í Sýrlandi.

Þann 30. mars 2022, aðeins rúmum mánuði eftir upphaf innrásar Rússa í Úkraínu, hafði ríkisstjórn Rússlands lokað á starfsemi flestra óháðra fjölmiðla í landinu. Þetta ætti ekki að koma á óvart. Fjölmiðlar sem eru óháðir ríkisvaldi eru oft taldir hindra stríðsrekstur. Þeir spyrja spurninga um ástæður, kostnað og markmið átakanna en ekki síst mannfallið sem hlýst af þeim. Vegna aðgerða ríkisins gegn þeim eru hundruð rússneskra blaðamanna nú í útlegð. Margir þeirra hafa verið dæmdir að þeim fjarstöddum í margra ára fangelsi. Og fjölmargir þeirra sem ekki fóru úr landi sitja í fangelsi.

Þeir aðilar sem einhver áhrif hafa – fjölmiðlar, alþjóðastofnanir, ríki sem hafa milligöngu um samninga, trúarleiðtogar – ættu ekki að skammast sín fyrir að leggja til samninga varðandi þessa pólitísku fanga auk stríðsfangaskipta. Þessir fangar eru óbreyttir borgarar sem vildu ekki berjast og stóðu einir gegn ríki sem hefur gert blóðsúthellingar að föstum vana.

Fyrir nokkrum mánuðum handtók lögreglan vin minn Sergei Sókolov, aðalritstjóra dagblaðsins Novaja Gaseta.

Blaðið hafði birt frétt og myndskeið um munaðarlaus börn sem hafði verið boðið að skrifa undir samning við rússneska varnarmálaráðuneytið um að fara og berjast í Úkraínu. Einn drengurinn sagði við blaðamennina: „Ég mun ekki úthella blóði. Ég vil ekki hafa dauða annarra á samviskunni.“ Þessi setning er ástæða þess að Sókolov var handtekinn. Í opinberri skýrslu um fangavist hans sagði: „Það sem ritað var gefur til kynna ófrægingu á aðgerðum rússneskra stjórnvalda sem miða að því að framkvæma sérstöku hernaðaraðgerðina.“

Í rauninni var Sókolov sakaður um að ófrægja rússneska herinn. Þrátt fyrir að hann gangi enn laus er rannsókninni ekki lokið og málið sjálft er lýsandi. Það sýnir að í raun getur viljinn til að úthella ekki blóði verið glæpur gegn rússneska ríkinu. Grimmd er orðin hluti af hinni nýju rússnesku ættjarðarást.

Stríð, ritskoðun og kúgun eru þrjú tæki sem ríkisstjórn Rússlands notar til að byggja upp nýtt ríki – þar sem réttindi ríkisins eru metin hærra en réttindi einstaklingsins. Þetta er hernaðarríki, þar sem dauði í þágu móðurlandsins er mikilvægari en lífið. Og ríkið borgar vel fyrir dauðann. Ef hermaður deyr í bardaga fær fjölskylda hans meira en 150 þúsund bandaríkjadali, upphæð sem hefði venjulega tekið hann 20 til 25 ár að vinna sér inn í lifanda lífi. Fjárfesting í eigin dauða er orðin arðbær viðskipti. Með því að deyja á vígvellinum sér hermaðurinn fyrir fjölskyldu sinni.

Jafnvel rússneska rétttrúnaðarkirkjan hefur horfið frá þjónustu við Krist og upphefur dýrkun dauðans. Mítrofan Badanín, biskup kirkjunnar í Múrmansk, sagði við söfnuð sinn: „Ef gott tækifæri gefst til að deyja skuluð þið ekki hika við að stíga það skref, því það er engin leið að vita hvort slíkt tækifæri gefst aftur.“

Mun heimurinn geta bjargað þeim pólitísku föngum sem enn sitja í rússneskum fangelsum áður en þeir deyja einnig í þágu ríkisins? Þetta er mikilvæg orrusta í stríðinu milli lýðræðisríkja og einræðisríkja, og meginreglan í þessari orrustu er verðmæti mannslífa. Í augum einræðisríkja hafa líf einstaklinga lítið gildi annað en það að vera tæki sem ríkið getur nýtt sér. Fyrir okkur hin er ekkert verkefni mikilvægara en að standa vörð um mannslíf.

Lýðræðisríki hafa löngum réttlætt tregðu sína til að bregðast við með því að setja sig á siðferðislega háan hest, stundum með þuluna „við semjum ekki við hryðjuverkamenn“ á vörunum, en slíkt viðhorf útilokar ekki gerð samninga um að frelsa almenna borgara sem eru dæmdir og fangelsaðir af pólitískum ástæðum í Úkraínu og Rússlandi. Þeir hafa enga aðra möguleika á frelsi.

Til að gera slíka samninga þarf vilja ríkja sem hafa áhrif á Volódimír Selenskí Úkraínuforseta og Vladimír Pútín Rússlandsforseta, en ég tel að enn séu nokkur þeirra til.

Heimurinn er að venjast ofbeldi. Fólk talar ekki lengur um óviðunandi mannsfall. Dauðinn er að verða eðlilegur.

Ákall um sanngjarna meðferð og lausn pólitískra fanga er leið til að minna heiminn á verðmæti mannslífa.

© 2024 The New York Times Company og Dmitrí Múratov.