Rósa Guðbjartsdóttir, fráfarandi bæjarstjóri Hafnarfjarðar, segir það fagnaðarefni að Tesla á Íslandi sé að flytja í Borgahellu í Hafnarfirði.
„Undanfarin ár hefur verið gríðarlega góð og mikil sala á atvinnulóðum á þessu svæði enda höfum við verið það sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu sem er með hvað mest framboð atvinnulóða í boði. Það hefur verið mikil eftirspurn eftir slíkum lóðum og við erum að uppskera samkvæmt því. Það hefur byggst upp afar blómleg atvinnustarfsemi á þessu svæði og þúsundir starfa orðið til.
Hverfið er enn að stækka og það er ánægjulegt að segja frá því að nú hyggst Tesla láta reisa þar nýjar höfuðstöðvar á stórri lóð og við hlökkum til að fá það öfluga og flotta fyrirtæki í bæinn. Að Tesla á Íslandi skuli kjósa að flytja til bæjarins er í takt við það sem hefur verið að gerast á undanförnum árum,“ segir Rósa.