Það er gott að byrja vísnaþáttinn á ljúfri jólavísu frá Sigrúnu Haraldsdóttur: Jeg sem vænti jólanáttar jöfnuð allra þrái; óska þess að minnimáttar mettir sofnað fái. Vísnagáta liðinnar viku barst sem endranær frá Páli Jónassyni í Hlíð á Langanesi:…

Pétur Blöndal

p.blondal@gmail.com

Það er gott að byrja vísnaþáttinn á ljúfri jólavísu frá Sigrúnu Haraldsdóttur:

Jeg sem vænti jólanáttar

jöfnuð allra þrái;

óska þess að minnimáttar

mettir sofnað fái.

Vísnagáta liðinnar viku barst sem endranær frá Páli Jónassyni í Hlíð á Langanesi:

Flýtur sjónum oftast á

inni‘ í kirkju líta má,

stjörnumerki einnig er,

og álftin milli vængja ber.

Eins og vísnaáhugamenn þekkja felst merking lausnarorðsins í hverri línu vísnagátunnar. Þetta þvælist ekki fyrir Hörpu á Hjarðarfelli:

Skipin sigla sjónum á.

Sat í kirkjuskipi ein.

Argóarfara skip á ská.

Skip er líka bringubein.

Úlfar Guðmundsson ratar á lausnina:

Um höfin skipin ferðast fín.

Fagurt kirkjuskipið er.

Á suðurhimni skipið skín.

Skip á milli vængja ber.

Þá Helgi Einarsson:

Um höfin skipin skríða.

Skipin kirkjur prýða.

Skip á himni merkja má.

Milli vængja' er skip að sjá.

Guðrún Bjarnadóttir leggur orð í belg:

Veistu að alda vogur nefnist

og vog gaf sanngirninni log?

Sértu Vog, þér heill en hefnist.

Hagnýt svansins innbyggð vog.

Loks Magnús Halldórsson:

Skipið flýtur öldu á

og í kirkju líta má.

Býsn mun Argó bjart sjá

og bringu fugla teljum þá.

Þá er það vísnagáta Páls fyrir næstu viku:

Margur hann í hljóði ber,

heiti á sveitabænum,

hangir kannski á hálsi þér,

heiðursmerki líka er.

Veðrið á RÚV er yfirskrift þessarar vísu eftir Friðrik Steingrímsson:

Spáin segir hragl og hríð

með hraðri vinda línu,

sem sagt kalsakuldatíð,

en kjóllinn fínn á Stínu.