Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
„Þegar ég var yngri og í heimspekinámi þá var ég mikill aðdáandi fagurbókmennta, enda er heilmikil heimspeki í heimsbókmenntunum. Ég las mjög mikið og í mér blundaði löngun til að skrifa svona texta eins og ég skrifa í nýju bókinni. Þegar covid skall á og aflýst var öllum ráðstefnum sem til stóð að ég færi á bæði í Kína og Evrópu, þá myndaðist ákveðið tómarúm og ég fór að dunda mér við að prófa að skrifa bókmenntatexta,“ segir Geir Sigurðsson heimspekiprófessor um tilurð fyrstu skáldsögu sinnar sem nýlega kom út, Óljós, saga af ástum.
„Ég var ekki með heildstæða mynd í huga um hvernig sagan ætti að vera, en ég byrjaði bara á þessari persónu, honum Leifi háskólakennara, sem stendur mér svolítið nærri, þótt hann sé alls ekki ég. Hann er samansafn af fólki sem ég hef kynnst í gegnum tíðina, og líka skapaður úr því sem ég hef kynnst í ólíkustu háskólasamfélögum í gegnum árin. Ég byrjaði að búa til kómíska mynd af þessum háskólakennara sem er að fara á eftirlaun og er í einhvers konar uppgjöri við sjálfan sig og sín fræði. Inn í þetta tvinnaðist svo fjölskyldulíf hans og samskipti við eiginkonu og börn, og síðan fór sagan að einhverju leyti að skrifa sig sjálf. Fléttan varð til á meðan ég var að skrifa.“
Leifur gerir ekki miklar kröfur
Á bókarkápu kemur fram að sagan dragi m.a. fram merkingarleysið og átakanleika þess að vera hugsandi manneskja í veröld án ramma, án stefnu og án markmiða. Aðalpersónan Leifur er afskaplega hversdagslegur, sérstaklega í byrjun bókar, en Geir er ástríðufullur áhugamaður um hversdagsleikann.
„Hversdagsleikinn er það sem við leiðum hjá okkur að mestu leyti, en er í raun allur sá grunnur sem líf okkar byggist á. Að mínu mati finnst mér að við ættum að veita honum meiri athygli en við gerum. Þá er ég sérstaklega að tala um fólkið sem er í kringum okkur og við erum í samskiptum við á hverjum einasta degi, og þá ekki aðeins okkar nánustu heldur líka vinnufélaga, kunningja og vini, jafnvel strætisvagnabílstjóra og fleira fólk sem við mætum í daglegu lífi. Þessi hugmynd er tekin úr kínverskri heimspeki, en hún snýst um að leiðin að kjarna lífsins liggi í gegnum hið hversdagslega. Í bókinni minni á sér stað umræða um þetta og jafnvel deilur um hvort við ættum að vera að veita hversdagsleikanum athygli eða ekki, en þá er ég að leika mér með ákveðnar hugmyndir. Kannski er það menningin okkar og uppeldið sem hefur svolítið raskað getu okkar til að veita litlum hlutum og hinu hversdagslega athygli, virkilega einblína á það. Eilíflega er verið að reyna að beina athygli okkar að einhverju stóru og miklu, einhverjum sprengingum, fræga fólkinu og þeirra lífi,“ segir Geir og bætir við að kannski sé fyrirbærið hamingja líka ofmetið.
„Af því að við höfum hugmyndir um hamingjuna sem eru kannski ekki einu sinni raunhæfar. Leifur, aðalsögupersóna bókarinnar, er vissulega mjög hversdagslegur og sumum finnst hann svolítið leiðinlegur eða luðra, og ég get alveg skilið það. Ég held samt að þegar bókin er lesin til enda þá komi í ljós að hann er ekkert endilega mikil luðra, hann er kannski með óvenjulega sýn á lífið að einhverju leyti, en hann er ekkert óhamingjusamur heldur. Hann gerir bara ekki svo miklar kröfur,“ segir Geir og bætir við að Leifur geri ýmislegt sem sé dæmigert fyrir samtímann.
„Hann hefur hugmyndir um að verða þekktur og frægur fyrir að varpa ljósi á heimspeking og rithöfund sem hann hefur uppgötvað en enginn annar verið að veita athygli, hina svissnesku Eleonore Niemand. Draumur hans um frama vegna þessa fer frekar illa hjá honum, því enginn hefur áhuga á þessum hugmyndum, þó svo að hann sé reyndar alltaf að rekast á fólk sem hefur lesið Eleonore fyrir tilviljun. Ef kafað er aðeins undir yfirborðið, þá er Leifur alls ekki óáhugaverð persóna.“
Doktorsnám í Havaíháskóla
Sagan um Leif er sannarlega heimspekileg, sem kemur kannski ekki á óvart, í ljósi þess að höfundurinn er heimspekimenntaður. Auk þess fer sögupersónan Leifur til Kína, en Geir er einmitt með kínversk fræði á sínu sérsviði.
„Reyndar var til að byrja með engin sérstök Kínaástríða í mér, ég hafði meiri ástríðu fyrir að fá tiltölulega djúpa þekkingu á einhverjum framandi menningarheimi og til að byrja með var ég mikið að skoða heimspeki íslam og Mið-Austurlanda. Fyrir röð tilviljana opnaðist tækifæri fyrir mig til að fara til Kína, en áður en það gerðist var hugmyndin að ég færi til Taívan í nám. Í millitíðinni var ég búinn að lesa svo mikið af kínverskri heimspeki að ég fór að hafa áhuga á henni. Ég fór til Þýskalands í kínverskunám og tók í framhaldinu doktorsgráðu þar sem ég einblíndi á kínverska heimspeki, til að dýpka mína þekkingu og skilning. Eini staðurinn sem bauð upp á slíkt innan heimspekideildar var Havaíháskóli og þangað fór ég í doktorsnám. Á þeim tíma var það eina heimspekideildin á Vesturlöndum sem var með mikið framboð af sérfræðingum í heimspeki annarra menningarheima en hins vestræna, til dæmis í kínverskri heimspeki, japanskri og indverskri.“
Geir segist í gegnum það nám hafa fengið tækifæri til að fara til Kína, þar sem hann dvaldi í tvö ár.
„Að námi loknu opnaðist fljótlega þessi möguleiki að setja á stofn kínversk fræði við Háskóla Íslands. Ég stökk á það tækifæri, en það kallaði á mikla endurmenntun hjá mér, því ég þurfti að kenna kínverska sögu, allt um kínverskt nútímasamfélag og alls konar aðra hluti sem tengjast kínverskri menningu. Allar mínar rannsóknir eru á sviði samanburðarheimspeki, eða þvermenningarlegrar heimspeki, en þá er ég að vinna bæði með vestrænar og kínverskar heimspekilegar heimildir og hef gert það undanfarin tuttugu ár.“